Arngrímur Jónsson lærði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Arngrímur Jónsson)
Arngrímur Jónsson lærði
Fæddur1568
Dáinn27. júní, 1648
StörfPrestur
Þekktur fyrirCrymogæa
MakiSólveig Gunnarsdóttir
Sigríður Bjarnadóttir
BörnHelga Arngrímsdóttir
Gunnar Arngrímsson
Jón Arngrímsson
Þorkell Arngrímsson Vídalín
Ingibjörg Arngrímsdóttir
Solveig Arngrímsdóttir
Þorlákur Arngrímsson
Bjarni Arngrímsson
Guðbrandur Arngrímsson Vídalín
Hildur Arngrímsdóttir
ForeldrarJón Jónsson
Ingibjörg Loftsdóttir

Arngrímur Jónsson lærði (156827. júní 1648) var prestur og fræðimaður á Mel í Miðfirði og Hólum í Hjaltadal. Hann er einkum frægur fyrir rit sitt um Ísland, Crymogæa.

Arngrímur fæddist á Auðunarstöðum í Víðidal, sonur Jóns Jónssonar bónda þar og Ingibjargar Loftsdóttur, en flutti ungur til frænda síns, Guðbrands Þorlákssonar biskups á Hólum. Hann varð stúdent úr Hólaskóla 1585 og fór til náms í Kaupmannahafnarháskóla, kom aftur til Íslands 1589 og fékk þá konungsveitingu fyrir brauðinu Mel í Miðfirði en hafði þar aðstoðarprest og var sjálfur rektor á Hólum til 1594. Varð formlega skipaður aðstoðarmaður Guðbrands biskups af konungi árið 1596 og var eftir það viðloðandi Hóla þótt hann gengdi jafnframt prestsembættum í Skagafirði, lengst af á Mælifelli. Hann fór tvisvar til Kaupmannahafnar í erindum biskups. Guðbrandur fékk slag 1624 og lá rúmfastur eftir það. Hann lést 1627 og ári síðar fékk Arngrímur aftur veitingu fyrir Melstað og var prestur þar til dauðadags.


Arngrímur átti í miklum bréfaskiptum við Ole Worm og skrifaði mikið af lærðum ritum. Sérstaka eftirtekt hlutu rit hans um íslensk efni s.s. Brevis commentarius og Crymogæa. Crymogæa er fyrsta samfellda Íslandssagan, en átti upphaflega að vera lært svar við ritum erlendra manna um Ísland. Eftir Arngrím liggja einnig margar þýðingar á guðsorðabókum og sálmar.

Stungið hefur verið upp á því að skrif Arngríms gegn ritum erlendra höfunda um Ísland hafi verið hluti af því pólitíska valdatafli sem Danakonungur lék gegn Hansakaupmönnum á þeim tíma og leiddi á endanum til verslunareinokunar Dana, en rit Arngríms beindust gegn skrifum manna sem höfðu komið til Íslands í erindum verslunar Hansakaupmanna.

Fyrri kona Arngríms var Sólveig Gunnarsdóttir, sem kölluð var kvennablómi, dóttir Gunnars Gíslasonar klausturhaldara á Víðivöllum og Hólaráðsmanns. Hún dó 1627 og giftist Arngrímur þá Sigríði yngri (f. 1601), dóttur Bjarna Gamalíelssonar (Gamlasonar), sem var rektor Hólaskóla um skeið, heimilisprestur á Hólum og síðast prestur á Grenjaðarstað. Arngrímur átti alls 9 börn sem upp komust með konum sínum. Yngst þeirra var Hildur (1643 - 12. október 1725), móðir Páls Vídalín lögmanns.

Ritverk[breyta | breyta frumkóða]

Dr. Jakob Benediktsson gaf út öll latínurit Arngríms lærða í fræðilegri útgáfu á vegum Árnasafns í Kaupmannahöfn. Sum þeirra höfðu ekki verið prentuð áður:

Í síðasta bindinu er doktorsritgerð Jakobs: Arngrímur Jónsson and his works, sem einnig kom út sem sérstök bók.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Hvaða þátt átti íslensk tunga í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga?“. Vísindavefurinn.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]