Fara í innihald

Úígúrar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Úígúr)
Úígúrar árið 2005 í Hotan í Xinjiang í Kína.
Úígúrskar stúlkur að störfum í teppaverksmiðju í Hotan.

Úígúrar eru þjóðarbrot sem býr aðallega í héraðinu Xinjiang í norðvesturhluta Kína. Xinjiang er einnig kallað Austur-Túrkistan, Austur-Túrkestan, Kínverska Túrkistan eða Úígúrstan.

Úígúrar eru meðal 56 lagalega viðurkenndra þjóðarbrota í Alþýðulýðveldinu Kína. Í Kína búa um 8,4 milljónir Úígúra og einnig er að finna umtalsverðan fjölda þeirra í Pakistan, Kasakstan, Kirgistan, Úsbekistan, Mongólíu og Tyrklandi. Alls telur Úígúrþjóðin til sín um 15 milljónir manna, sem flestir eru fylgjandi súnní-íslamstrú.

Þjóðarímynd

[breyta | breyta frumkóða]

Upphaflega átti heitið „Úígúr“ við um tyrkneskar þjóðir sem bjuggu þar sem nú er Mongólía. Ásamt svokölluðum Göktyrkjum voru Úígúrar ein stærsta tyrkneska þjóðin í Mið-Asíu. Samkvæmt 83. bindi hins opinbera sagnarits kínverska keisaraveldisins um Suiveldið frá byrjun 7. aldar voru Úígúrar komnir af ættbálkum tyrkneska Tiele-þjóðarbrotsins, sem rak sjálft uppruna sinn til Xiongnu-þjóðarinnar (sem gjarnan er talin skyld Húnum). Úígúrar voru hluti af Rúrankanatinu frá 460 til 545 og lutu síðan stjórn Heptalíta frá 541 til 565 áður en Heptalítar gengu til liðs við veldi Göktyrkja. Á tíma Norður-Weiveldisins (386–534) voru Úígúrar í slagtogi við aðra tyrkneska þjóð, gaotsja, sem komin af þjóðarbrotinu Ting-ling, tyrkneskumælandi þjóð sem nefnd er í ritum kínverskra sagnaritara Hanveldisins.

Í kínverskri sagnaerfð frá tíma Tangveldisins voru Úígúrar sagðir afkomendur Húna og Gaotsja og voru taldir undirgefnir Göktyrkjum. Kínverjar kölluðu Úígúra huihe, sem varð seinna kínverska orðið yfir múslima og er nú notað yfir annað þjóðarbrot í Kína. Orðið Gaotsje merkir „háir vagnar“ og vísar til ferðamáta þjóðarinnar.

Á 8. öld mynduðu Úígúrar sitt eigið veldi með því að undiroka aðrar tyrkneskar þjóðir á áhrifasvæði sínu.

Flestir Úígúrar búa í dag í Xinjiang, sem heitir formlegu nafni „Úígúrska sjálfsstjórnarsvæðið Xinjiang“.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Úígúrskur kan frá 8. öld.

Áður en Úígúrar mynduðu sitt eigið veldi höfðu tyrkneskir þjóðflokkar lagt undir sig gresjurnar frá Mongólíu til Mið-Asíu. Fyrsta tyrkneska kanatið bað ósigur fyrir herjum Taizongs keisara af Tang en annað tyrkneskt kanat var stofnað á valdatíð Wu Zetian. Á þessum tíma voru Úígúrar þjóðarbrot sem lutu stjórn ráðandi tyrknesku ættbálkanna. Árið 744 gengu Úígúrar í bandalag með öðrum undirokuðum tyrkneskum þjóðum innan tyrkneska kanatsins og stofnuðu sjálfstætt Úígúrkanat í Ötüken. Úígúrska kanatið náði frá Kaspíahafi til Mansjúríu[1] og var til frá 745 til 840 með höfuðborg í Ordu-Baliq.

Eftir mörg ár af innanlandsófriði og hungursneyð var Úígúrkanatið árið 840 hernumið af annarri tyrkneskri þjóð, Kirgisum. Eftir ósigurinn gegn Kirgisum mynduðu Úígúrar konungsríkið Qocho ásamt öðrum tyrkneskum þjóðarbrotum. Þetta konungsríki varði til ársins 1209, en þá lagði Djengis Khan það undir sig og limaði það inn í Mongólaveldið.

Úígúrar sem bjuggu þar sem nú er Kasakstan höfðu tekið upp íslamstrú fyrir 11. öld og myndað furstadæmi sem sagnfræðingar kalla Kara-Khanid-kanatið. Úígúrar í konungsríkinu Qocho tóku hins vegar upp búddatrú. Báðir trúarhópar Úígúra héldu fyrst og fremst tryggð við trú sína en ekki við sameiginlegt þjóðerni. Eftir að Seljúkar náðu völdum í Íran gerðust Úígúrar í Kara-Khanid-kanatinu bandamenn þeirra.

Heitið „úígúr“ sem sérstakt þjóðarheiti virðist hafa verið endurvakið árið 1921 með stofnun úígúrska byltingarhópsins Inqilawi Uyghur Itipaqi, sem aðhylltist bæði þjóðernishyggju og kommúnisma í bandalagi við Sovétríkin.[2][3] Einnig finnast þó eldri dæmi um að stúdentar og kaupmenn í Rússlandi hafi notað heitið. Kínverski stríðsherrann Sheng Shicai, sem réð yfir Xinjiang frá 1933 til 1944, viðurkenndi Úígúra formlega sem einn af 15 kynþáttum Kína og vék þannig frá ríkjandi stefnu Kuomintang-stjórnarinnar, sem viðurkenndi lagalega aðeins fimm þjóðarbrot innan Kína.[4]

Úígúrar í dag

[breyta | breyta frumkóða]

Frá því að Kínverjar lýstu yfir stuðningi við stríðið gegn hryðjuverkum í kjölfar árásanna þann 11. september 2001 í Bandaríkjunum hafa mannréttindahópar lýst yfir áhyggjum af því að kínverskum Úígúrum kunni að vera mismunað. Margir Úígúrar sem hafa flúið Kína hafa sagst sæta ofsóknum af hálfu kínverskra stjórnvalda og að kínverski kommúnistaflokkurinn reyni markvisst að koma í veg fyrir að Úígúrar í Xinjiang iðki trú sína og siði.[5]

Gögn sem lekið hefur verið til alþjóðasamtaka blaðamanna hafa leitt í ljós að í Xinjiang sé hundruðum þúsunda Úígúra haldið föngnum í svokölluðum „þjálfunarbúðum“ og þeir látnir sæta pólitískri innrætingu.[6][7] Rannsókn sem Amnesty International birti í mars 2020 benti til þess að Úígúrar í Xinjiang sæti pólitískum ofsóknum og að kínversk stjórnvöld reyni markvisst að fá erlend stjórnvöld til að framselja sér Úígúra sem hafa flutt frá Kína.[8]

Þann 1. september 2022 gaf Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna út skýrslu þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að mannréttindabrot Kína gegn Úígúrum kunni að teljast alþjóðlegir glæpir, nánar tiltekið glæpir gegn mannúð.[9]

Úígúrsk menning

[breyta | breyta frumkóða]
Úígúrskir tónlistarmenn í Xinjiang.

Undir lok 19. aldar og í byrjun 20. aldar hófu fornleifafræðingar stórtækar rannsóknir í Austur-Túrkistan, sem liggur á miðjum silkiveginum. Þeir fundu þar rústir hellishofa og klaustra, bækur, skjöl og ýmsa smágripi. Fornleifafræðingar frá Evrópu, Ameríku og Japan fluttu þessa muni á sýningar um allan heim.

Bókmenntir Úígúra eru bæði þýðingar á helgitextum yfir á úígúrsku og frumsamdar fagurbókmenntir sem sumar hverjar hafa verið þýddar á mál eins og þýsku, ensku og rússnesku. Úígúrar voru þekktir fyrir kunnáttu sína í hjúkrun og læknisfræði og keisarar Kína réðu gjarnan Úígúra sem lækna. Kenning er til um að Úígúrar hafi fundið upp nálastungulækningar.[10]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Ill­ugi Jök­uls­son (15. febrúar 2017). „Heilagt stríð í Kína: Hverjir eru Úígúrar?“. Stundin. Sótt 20. júní 2020.
  2. BROPHY, DAVID. Taranchis, Kashgaris, and the 'Uyghur Question' in Soviet Central Asia. Inner Asia, vol. 7, no. 2, 2005, pp. 163–184., www.jstor.org/stable/23615693.
  3. S. Frederick Starr (4. mars 2015). Xinjiang: China's Muslim Borderland: China's Muslim Borderland. Taylor & Francis. bls. 111. ISBN 978-1-317-45136-5.
  4. James A. Millward, Eurasian crossroads: A history of Xinjiang (New York: Columbia University Press, 2007), ss. 207-9.
  5. Guðsteinn Bjarnason (11. júlí 2009). „Þjóð sem á að vera kínversk“. Fréttablaðið. Sótt 21. janúar 2021.
  6. „Heilaþveg­in og haldið föngn­um“. mbl.is. 24. nóvember 2019. Sótt 20. júní 2020.
  7. „„Menn­ing­ar­legt þjóðarmorð". mbl.is. 4. júlí 2019. Sótt 20. júní 2020.
  8. „Kína: Úígúrar búsettir erlendis ofsóttir“. Amnesty International. 19. mars 2020. Sótt 20. júní 2020.
  9. „Glæpir gegn mannkyninu hugsanlegir í Xinjiang“. Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu. 1. september 2022. Sótt 15. september 2022.
  10. „EAST TURKISTAN“ (enska). World Uyghur Congress. Sótt 20. júní 2020.