Fara í innihald

Ökuskírteini

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Íslenskt ökuskírteini (útgefið 2013)

Ökuskírteini eða ökuleyfi er skírteini sem er staðfesting á því að einstaklingur megi keyra vélknúið ökutæki eins og mótorhjól, bíl, vörubíl eða áætlunarbifreið á opinberum vegi. Lög um hverjir fá ökuskírteini eru mismunandi eftir löndum. Í sumum löndum er ökuskírteini gefið út eftir að viðkomandi hefur náð ökuprófi á meðan í öðrum löndum þarf viðkomandi ökuskírteini áður en hann hefur akstur.

Ökuskírteini nr. 2 í Reykjavík (útgefið 1915)

Fyrsta ökuskírteinið var útgefið til frumkvöðuls nútímabílsins, Karl Benz. Vegna þess hávaða og mengunar sem sjálfrennireið hans olli í þýsku borginni Mannheim óskaði Benz eftir og fékk skírteini frá yfirvöldum að hann mætti keyra bílinn á opinberum vegum.[1]

Fyrsta landið sem gerði kröfu um ökuskírteini var Prússland 29. september 1903. Sambandið Dampfkesselüberwachungsverein var yfirumsjónaraðili prófanna sem gengu mestmegnis út á vélfræðilega þekkingu.[1] Árið 1910 setti þýska ríkisstjórnin upp ökuréttindakerfi sem varð síðar fyrirmynd annara landa.[1] Árið 1914 var fyrsta ökuskírteinið gefið út á Íslandi þegar lög um notkun bifreiða tóku gildi.[2] Önnur lönd Evrópu innleiddu ökupróf á tuttugustu öldinni fram til 1977 þegar Belgar voru síðastir Evrópuþjóða að innleiða slíkt kerfi.[3]

Í Bandaríkjunum var New York fyrsta borgin til að innleiða ökuréttindi fyrir atvinnubílstjóra 1. ágúst 1910.[4] Þremur árum síðar varð New Jersey fyrsta fylki Bandaríkjanna sem innleiddi ökupróf fyrir alla ökumenn.[5]

Ökuréttindi

[breyta | breyta frumkóða]
Skipting ökuréttinda í Evrópusambandinu

Í fjölda landa þurfa atvinnuökumenn sérstök ökuskírteini. Í Bandaríkjum, Nýja Sjálandi og sumum ríkjum Kanada eru sérstök skírteini fyrir leigubílstjóra. Á Indlandi er atvinnuökuskírteini gilt í 5 ár á meðan almennt ökuskírteini gildir í 20 ár.

Í Bretlandi, Evrópusambandinu og EES-löndum (þar með talið Íslandi) er ökuskírteinum skipt í grunnflokka eftir gerð ökutækis. Aukin ökuréttindi eru nauðsynleg til að keyra bíl með sæti fyrir fleiri en 8 manns eða sem er þyngri en 3.500 kíló. Mótorhjól eru í A-flokki, bílar í B-flokki, vörubílar í C-flokki og áætlunarbifreiðar í D-flokki. Undir þessum flokkum eru undirflokkar eftir afli, sætafjölda og þyngd ökutækjanna.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 Lutteroth, Johanna. „Der Lappen, der die Welt bedeutet“. einestages (þýska). Spiegel Online. Sótt 2. ágúst 2008.
  2. „Suðurland - 9. tölublað (29.08.1914) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 22. mars 2024.
  3. „Altes vom Auto: Meldungen aus 125 Jahren:Tops und Flops (a summary of the highlights and lowlights of the first 125 years of motoring history)“. Auto Motor u. Sport. Heft 4 2011: Seite 16. 27. janúar 2011.
  4. Frederick H. Elliott, "Working Out New Auto Law In New York," New York Times 16 October 1910, 3.
  5. „New York's Auto Exports Increase-Big Jump in Cars Shipped Last Year-New Jersey Examines All Drivers“ (PDF). New York Times. 14. júlí 1913. bls. 11. Sótt 3. júní 2009.
  6. Directive 2006/126/EC of the European Parliament and of the Council of 20 December 2006 on driving licences (Recast) (Text with EEA relevance) (enska), 403. árgangur, 20. desember 2006, sótt 22. mars 2024