Z fyrir Zorglúbb
Z fyrir Zorglúbb (franska: Z comme Zorglub) er 15. Svals og Vals-bókin. Hún er eftir listamanninn Franquin og kom út á frönsku árið 1961, en sagan birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval 1959- 60. Sagan er fyrri hluti af tveimur. Seinni hlutinn birtist í bókinni Með kveðju frá Z.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Sagan hefst á því að Svalur og Valur lenda í skringilegum uppákomum, þar sem frakkaklæddir menn með fjarrænt augnaráð koma við sögu. Mennirnir búa yfir tækjabúnaði sem virðist dáleiða fólk. Þeir reynast vera á snærum dularfullrar persónu, Zorglúbbs. Sá er fær uppfinningamaður og reynir að vekja ótta og aðdáun félaganna með ýmsum hætti, s.s. með sjálfstýrðri bifreið og fjarstýrðum sprengjum.
Í ljós kemur að Zorglúbb er gamall kunningi Sveppagreifans. Hann er haldinn mikilmennskubrjálæði og stefnir að heimsyfirráðum. Zorglúbb kemur á setur Sveppagreifans á fljúgandi farartæki sínu og reynir að fá greifann í lið með sér, en hann neitar. Í hefndarskyni beitir Zorglúbb dáleiðandi hljóðbylgjum sem snúa íbúum Sveppaborgar gegn greifanum og býr lýðurinn sig undir að leggja herragarðinn í rúst.
Félögunum tekst að stöðva hópinn, en þá tekur Zorglúbb Val til fanga og færir til leynilegra höfuðstöðva sinna. Þar hefur hann komið sér upp fjölmennum her heilaþveginna manna. Hermenn Zorglúbbs, Zor-mennirnir, eru allir eins klæddir og tala sérstætt tungumál eða öllu heldur tala þeir aftur á bak.
Svalur og Sveppagreifinn komast að staðsetningu höfuðstöðvanna og leita Zorglúbb uppi. Þeir yfirbuga hann og sýna fram á illsku verknaðar hans. Zorglúbb fær samviskubit, en tekst þó að sannfæra Sveppagreifann um að sýna fram á mátt tækjabúnaðar síns. Eldflaugar Zorglúbbs fljúga á loft, en í stað þess að sprengja upp veröldina eins og Svalur og Valur óttuðust lenda þær á tunglinu. Þar dreifa þær málningu sem skrifar áletrun á yfirborð mánans, sem á að sýna veröldinni mátt Zorglúbbs. Honum til skelfingar kemur í ljós að Zor-mennirnir hafa skrifað hana aftur á bak.
Zorglúbb hverfur á braut, bugaður maður. Svalur, Valur og Sveppagreifinn frelsa Zor-mennina og fljúga heim á leið í einu af loftförunum. Þeir telja að hættan sé afstaðin, en gleyma því að enn gengur einn Zor-maðurinn laus í Sveppaborg.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- Greg samdi handrit bókarinnar ásamt Franquin, en Jidéhem kom að teiknivinnunni.
- Zorglúbb, einhver lífseigasta aukapersóna sagnaflokksins er kynnt til sögunnar í bókinni. Útgefandinn Dupuis kunni þó ekki vel að meta hana, enda taldi hann að persónan gæti hrætt yngri lesendur og að vísindaskáldskapur ætti lítið erindi í Sval og Val.
Íslensk útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Bókin kom út á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar árið 1981 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Hún er númer þrettán í íslensku ritröðinni.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Splint & Co. 1959-1960. Egmont Serieforlaget. 2009. ISBN 978-87-7679-561-0.
- De Blieck Jr., Augie „Spirou and Fantasio v13: “Z is for Zorglub”“, Pipelinecomics, 14. júní 2018.