Fara í innihald

Með kveðju frá Z

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Með kveðju frá Zorglúbb (franska: L'ombre du Z) er 16. Svals og Vals-bókin. Hún er eftir listamanninn Franquin og kom út á frönsku árið 1962, en sagan birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval árið 1960. Sagan er seinni hluti af tveimur. Fyrri hlutinn birtist í bókinni Z fyrir Zorglúbb.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Svalur, Valur og Sveppagreifinn snúa áhyggjulausir til Sveppaborgar, þar sem þeir uppgötva að síðasti Zor-maðurinn leikur lausum hala og hefur lamað velflesta íbúana með lömunargeislatæki sínu. Þeir stöðva hann og ná að vekja bæjarbúa til lífsins.

Zorglúbb kemur í heimsókn á setrið, en beitir geislum sem gerir það að verkum að félagarnir bera ekki kennsl á hann. Gormdýrið brýtur geislatækið og Zorglúbb er afhjúpaður. Í ljós kemur að þrátt fyrir gefin loforð, hefur hann á nýjan leik komið sér upp her Zor-manna. Svalur, Valur og Sveppagreifinn uppgötva að hinar nýju, leynilegu höfuðstöðvar Zorglúbbs hljóti að vera í Palombíu og halda þangað til að hafa hendur í hári hans.

Í höfuðborg Palombíu ríkir undarlegt ástand, þar sem annar hver maður virðist selja sápu eða tannkrem. Zorglúbb beitir dáleiðandi hljóðbylgjum til að sannfæra almenning um að kaupa ógrynnin öll af þessum snyrtivörum. Fyrirtæki hans græðir á tá og fingri meðan alþýðan sveltur.

Félagarnir finna hinar leynilegu höfuðstöðvar, þar sem í ljós kemur að Sammi frændi er orðinn næstráðandi Zorglúbbs. Sammi upplýsir að hann ætli sjálfur að gerast leiðtogi Zor-hersins og ráða yfir veröldinni. Á sama tíma iðrast Zorglúbb gerða sinna þegar hann heyrir af eymd Palómbíubúa. Þeir reyna að stöðva Samma sem skýtur Zorglúbb með nýju öflugu geislavopni. Zorglúbb verður meðvitundarlaus en tækið springur og þeir ná að yfirbuga Samma. Að lokum eyðileggur Sveppagreifinn höfuðstöðvarnar með hraðvaxandi sveppagróðri og frelsar Zor-mennina á ný.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Líkt og í fyrri hluta sögunnar, samdi Greg handritið ásamt Franquin, en Jidéhem kom að teiknivinnunni.
  • Nýr eiginleiki Gormdýrsins kemur í ljós í sögunni, þegar það reynist ónæmt fyrir geislatækjum Zorglúbbs.

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Bókin kom út á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar árið 1982 í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Hún var númer sextán í íslensku ritröðinni.

  • Splint & Co. 1959-1960. Egmont Serieforlaget. 2009. ISBN 978-87-7679-561-0.
  • De Blieck Jr., Augie „Spirou and Fantasio v15: “Shadow of the Z”“, Pipelinecomics, 28. janúar 2019.