Jidéhem

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jidéhem (21. desember 193530. apríl 2017) var listamannsheiti Jean De Mesmaeker sem var belgískur myndasöguhöfundur. Hann starfaði lengst af ferils síns fyrir Tímaritið Sval, ýmist sem höfundur eigin sagna og í samvinnu við aðra. Hans kunnustu sögur fjölluðu um unglingsstelpuna Sophie og ævintýri hennar. Hann skapaði hina vinsælu persónu Viggó viðutan ásamt þeim André Franquin og Yvan Delporte. Jafnframt kom hann að gerð nokkurra bóka í sagnaflokkinum um Sval og Val.

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Jidéhem hóf að rita og teikna myndasögur á táningsaldri en tók upp listamannsnafn sitt árið 1954, var það dregið af upphafsstöfum hans JDM. Hann réðst til starfa hjá Héroïc-Albums, útgáfufyrirtæki sem sérhæfði sig í sögum í anda bandarískra hasarblaða. Þar samdi hann vinsælar sögur um leynilögreglumanninn Ginger. Í þeim sögum tók strax að bera á þeirri ástríðu listamannsins að teikna bíla, en á ferli sínum átti hann eftir að teikna gríðarlegan fjölda bifreiða, einkum sportbíla.

Útgáfu Héroïc-Albums var hætt á árinu 1956 vegna fjárhagserfiðleika og réðst Jidéhem þá til útgáfufélagsins Dupuis og myndasögublaðsins Svals þar sem hann starfaði nær alla tíð. Stjórnendiur Dupuis álitu sögurnar um Ginger vera of ofbeldisfullar fyrir hinn unga lesendahóp blaðs síns og var teiknararnum þess í stað falið að aðstoða Franquin, sem var vinsælasti höfundur forlagsins en að sligast vegna vinnu. Jidehém teiknaði bakgrunnsmyndir í nokkrum seinni bóka Franquins um Sval og Val. Hann kom einnig að teiknivinnu fjölda sagna um Viggó viðutan. EIn af aukapersónum þeirra sagna er kaupsýslumaðurinn Hr. Seðlan eða Monsieur De Mesmaeker á frummálinu. Er nafn persónunnar dregið af því að Jidéhem taldi hana minna sig á föður sinn í útliti. Franquin mun hafa óskað eftir því að Jidéhem tæki við af sér með ritun sagnanna um Viggó en hann netiað þar sem hann vildi fremur semja eigin efni.

Árið 1964 skapaði Jidéhem ungingsstúlkuna Sophie, sem hóf göngu sína sem aukapersóna en varð þó skjótt aðalpersóna í sínum eigin sögum. Ákvörðunin var talin djörf og hlaut blendin viðbrögð útgefendanna, enda var þetta fyrsta kvenaðalpersóna í sögu blaðsins, sem fyrst og fremst var ætlað drengjum. Tuttugu bækur komu út um ævintýri Sophie, sem telst meðal ástsælli persóna fransk-begísku myndasöguhefðarinnar. Á efri árum hóf Jidéhem á ný ritun sagna um Ginger, sem birtust í myndasögublaðinu Sval.