Yann Martel
Yann Martel (f. 25. júní 1963) er kanadískur rithöfundur. Faðir Yanns Martels starfaði sem kennari og síðar sem diplómati á meðan Yann ólst upp. Störf föður hans höfðu í för með sér að fjölskyldan var stöðugt að flytja heimshorna á milli og þau bjuggu meðal annars í Alaska, Frakklandi, Mexíkó, Kosta Ríka og í kanadísku héruðunum Ontario og Bresku Kólumbíu.
Á fullorðinsárum sínum hélt hann Yann áfram að ferðast um heiminn, og dvaldi meðal annars í Íran, Tyrklandi og Indlandi. Að loknu heimspekinámi við Trent háskólann í Peterborough í Ontario, ákvað hann að leggja fyrir sig ritstörf. Dvöl hans í hinum ýmsu menningarheimum hefur haft áhrif á skrif hans, eins og glögglega má sjá í Sögunni af Pí sem aflaði honum hinna virtu Booker-bókmenntaverðlauna árið 2002. Þegar hann undirbjó sig fyrir að skrifa Söguna um Pí, varði Yann Martel sex mánuðum við að heimsækja moskur, musteri, kirkjur og dýragarða í Indlandi. Að því loknu varði hann heilu ári við lestur trúarlegra texta og sagna af skipbrotsmönnum. Eftir þessar rannsóknir tók það hann tvö ár í viðbót að skrifa bókina.
Aðspurður segist Yann Martel nú búa í Montréal í Québec-héraði í Kanada, vegna þess að þar lenti flugvélin. Hann kann illa við að vera bundinn einhverju og á því litlar eignir og þegar hann skorti fé áður fyrr tók hann hver þau störf sem veittu honum færi á að ferðast og skrifa.
Bækur eftir höfundinn
[breyta | breyta frumkóða]- Life of Pi - (2001)
- Á íslensku: Sagan af Pí (Bjartur, 2003) - (Þýð. Jón Hallur Stefánsson)
- Self - (1996)
- Facts Behind the Helsinki Roccamatios (smásagnasafn) - (1993)
Bókmenntaverðlaun
[breyta | breyta frumkóða]- Vann Booker-bókmenntaverðlaunin árið 2002.
- Vann Hugh MacLennan-bókmenntaverðlaunin árið 2001.
- Tilnefndur til Governor General-bókmenntaverðlaunanna árið 2001.
- Tilnefndur til kanadísku Chapters/Books verðlaunanna fyrir fyrstu skáldsögu höfundar.
- Vann Journey-verðlaunin.