Fara í innihald

Xian

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Frá Xian borga í Shaanxi héraði í Kína.
Frá Xian borg í Shaanxi héraði í Kína. Á stórborgarsvæði Xian bjuggu árið 2020 um 13 milljónir manna.
Landakort sem sýnir legu Xian borg í Shaanxi héraði í norðvesturhluta Kína.
Kort af legu Xian borg í Shaanxi héraði í norðvesturhluta Kína.

Xian (eða Xi'an eða Sian) (kínverska: 西安; rómönskun: Xī'ān) er höfuðborg Shaanxi héraðs í norðvesturhluta Alþýðulýðveldisins Kína. Borgin er í suður-miðhluta héraðsins, við suðurmörk hinnar skjólsælu Guanzhong hásléttu. Borgin er byggð á lágsléttum í frjósömum dal við suðurbakka Wei-fljótsins, skammt vestan ármótanna við Gulafljót. Xian („Vestur friður“) er afar mikilvæg í sögu Kína, bæði sem höfuðborg nokkurra fornra ríkja og sem markaðs- og viðskiptamiðstöð. Hún var austurendi Silkivegarins, hinnar fornu verslunarleiðar sem tengdi Kína við Miðjarðarhafið. Árið 2020 þegar síðasta manntal Kína var framkvæmt bjuggu í borgkjarna Xian 10.258.464 manna, en á stórborgarsvæðinu undir lögsögu borgarinnar voru íbúar 12.952.907.

Með byggð allt til nýsteinaldar er Xian ein af elstu borgum Kína. Hún er elsta höfuðborg héraðsins og ein af fjórum stóru fornu höfuðborgunum í kínverskri sögu. Stöðu sinni hélt borgin undir nokkrum af mikilvægustu valdaættum í sögu Kínverja, þar á meðal Vestur Zhou, Qinveldisins, Vesturhluta Hanveldsins, Suiveldisins, og loks Tangveldisins. Eftir fall Tangveldisins hnignaði borgin þótt hún héldi stöðu sinni sem borg viðskipta í Mið-Asíu. Á valdatíma Mingveldisins (1368–1644) fékk borgin núverandi heiti, Xian (sem þýðir „Vestur friður“). Borgin náði sér fyrst á strik aftur á 20. öld.

Mynd sem sýnir hinn 11 km langa borgarmúr með 4 hliðum í miðborg Xian sem byggður var af Hongwu 1. keisara Mingveldisins á 14. öld.
11 km langur borgarmúr í miðborg Xian var byggður af Hongwu 1. keisara Mingveldisins á 14. öld.
Mynd sem sýnir bjölluturninn í Xian borg, sem byggður var árið 1384 á tímum Mingveldisins.
Bjölluturninn í Xian borg, byggður árið 1384 á tímum Mingveldisins
Mynd sem sýnir hinn fræga „Leirher“, sem fylgdi fyrsta keisara Kína, Qin Shi Huang, í grafhýsi hans sem staðsett er rétt austan við Xian.
Hinn fræga „Leirher“, sem fylgdi 1. keisara Kína, Qin Shi Huang, í grafhýsi hans rétt austan við Xian.
Mynd sem sýnir skrautritara í Xian borg munda pensilinn.
Skrautritari í Xian borg mundar pensilinn
Mynd sem sýnir farþegarmóttöku Xian Xianyang alþjóðaflugvallarins.
Xian Xianyang alþjóðaflugvöllurinn

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Þéttbýlismyndun á sér langa sögu á því sem svæði sem Xian er í dag. Byggð frá nýsteinöld uppgötvaðist árið 1953 í austurjaðri borgarinnar. Þar eru minjar nokkurra vel skipulagðra steinsteyptra bygginga í þorpi sem fengið hefur nafnið Banpo. Þær eru taldar vera um 6.500 ára gamlar.

Xian varð menningarleg og pólitísk miðstöð Kína á 11. öld f.Kr. með stofnun Zhou veldisins. Höfuðborg þess var suðvestur af Xian nútímans í tveimur byggðunum, Fengjing og Haojing, sem saman voru þekktar sem Fenghao.

Þegar Qinveldið (221–206 f.Kr.) sameinaði loks Kína varð höfuðborg þess Xianyang, staðsett rétt norðvestur af Xian nútímans. Fyrsti keisari Kína, Qin Shi Huang, fyrirskipaði byggingu eigin grafhýsis og hins fræga leirhers rétt austan við Xian. Þar voru grafnar á áttunda þúsund leirstyttur í líkamsstærð, hermenn, hestar og vagnar, ætlaðar til verndar hin óttaslegna keisara eftir dauðann. Leirherinn er nú á Heimsminjaskrá UNESCO.

Árið 202 f.Kr. stofnaði Liu Bang, fyrsti keisari Hanveldsins (206 f.Kr. - 220 e.Kr.), höfuðborgina Chang'an handan árinnar frá rústum höfuðborgar Qinveldisins. Chang'an borg var ein af stærstu borgum fornaldar. Tveimur öldum síðar var höfuðborgin flutt til þess sem nú er Henan hérað.

Í nokkrar aldir, á miklum óróatíma kínverskrar sögu, dalaði vægi Chang’an borgar, en hún þjónaði þó stuttlega (311–316 e.Kr.) sem höfuðborg Jinveldisins (266–420). Um tíma var Chang’an höfuðborg nokkurra smáríkja og Norður Wei ættarveldisins (534–535). Þá varð Chang’an að höfuðborg Sui veldisins (581–618).

Sem höfuðborg Tangveldisins (618–907) var Chang’an borg stækkuð verulega og varð ein glæsilegasta borg heims. Eftir fall Tangveldisins og þess óróa sem fylgdi í kjölfarið, hélt borgin stöðu sinni sem borg viðskipta í Mið-Asíu.

Nýtt nafn á borginni, Xian („Vestur friður“), sem tekið var upp árið 1369 eftir að Mingveldið (1368–1644) var stofnað (en hafði flutt höfuðstaðinn til Nanjing borgar).

Upp úr 1920 varð Xian borgin mikilvæg miðstöð hugmyndafræði kommúnisma innfluttum frá Sovétríkjunum.

Atvinnuvegir[breyta | breyta frumkóða]

Xian er staðsett í frjósömu dal Wei-fljótsins og í nágrenni við skjólsæla Guanzhong-sléttuna þar sem hveiti, bómull og te er ræktað. Borg er miðstöð þessa mikilvæga búskaparsvæðis.

Upp úr upp úr miðjum fimmta áratug síðustu aldar lögðu kínversk stjórnvöld mikla fjármuni til iðnaðaruppbyggingar Xian og síðan þá hefur borgin verið ein af helstu iðnborgum landsins. Þróuð hefur verið málmvinnsla, efnavinnsla, byggingartækni og vinnsla á unnum matvörum. Síðari þróun hefur beinst að uppbyggingu iðnaðar með vefnaðarvöru, raftækja og rafeindatækni. Þá hefur í borginni verið byggð rannsóknaraðstaða og framleiðsla fyrir geimiðnað Kína.

Vegna margra sögulegra minja borgarinnar og fornra rústa og grafhvelfinga í nágrenninu hefur ferðaþjónusta orðið mjög mikilvægur þáttur í borgarhagkerfinu, enda Xian einn vinsælasti ferðamannastaður Kína.

Samgöngur[breyta | breyta frumkóða]

Staðsetning Xian í miðhluta landsins hefur gert borgina að miðstöð járnbrauta- og þjóðvega. Austur-vestur Longhai járnbrautarlínan, sem liggur í gegnum borgina, nær frá Bóhaíhafi og Gulahafi meðfram ströndinni til Gansu, Xinjiang og landa Mið-Asíu í vestri. Nýja Xian Norður járnbrautarstöðin, sem er rétt fyrir norðan borgina þjónustar háhraðalestir sem fara á allt að 350 km/klst. hraða milli Xian og Zhengzhou í Henan.

Þétt þjóðveganet tengir Xian við aðrar borgir innan Shaanxi, sem og borgir í nálægum héruðum, og hraðbrautir tengja Xian við aðrar stórborgir á svæðinu.

Xian Xianyang alþjóðaflugvöllurinn, norðvestur af Xian, þjónustar flestar meginborgir Kína auk fjölda erlendra áfangastaða.

Háskólar og vísindi[breyta | breyta frumkóða]

Xian er mikilvæg háskóla- og vísindaborg í Kína, sérstaklega á sviði náms og rannsókna í raunvísindum. Alls eru meira en 30 háskólar og framhaldsskólar í og við borgina. Þekktasti skólinn er Xian Jiaotong háskólinn, Norðvestur-fjöltækniháskólinn, Tækniháskóli Xian, Læknaskóli borgarinnar, Xian háskólinn í byggingarlist og tækni, og Xidian háskólinn (rafeinda- og upplýsingatækni).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]