Víkingar
Víkingar var heiti á fornnorrænum sæförum og vígamönnum, sem upp voru á víkingaöld, það er á árunum frá 800 til 1050. Þessi ártöl eru þó ekki fastnjörvuð niður því það fer dálítið eftir löndum hvaða aldir eru einkum taldar einkennast af víkingum og menningu þeirra. Þannig er í Bretlandi oftast rætt um Víkingaöld frá árinu 793 til 1066, á Íslandi er miðað við 800 til ársins 1170, í Frakklandi er Víkingaöldin enn skemmri eða frá um 830 til 900 en í Rússlandi og Eystrasaltsríkjunum er miðað við ártölin 750 til elleftu aldar.
Hugmyndir manna um hverjir víkingarnir voru eru ekki að öllu leyti samhljóma. Sumir telja að allir norrænir menn hafi verið víkingar þar sem orðið víkingasamfélag sé samheiti yfir þau norrænu samfélög sem stóðu með hvað mestum blóma á fyrrnefndum tímaskeiðum. Þessi skilningur orðsins er ef til vill af ensk-amerískum uppruna og samræmist illa fornri merkingu orðsins „víkingur“.[1][2] Aðrir halda því fram að Víkingar hafi aðeins verið þeir menn sem lögðu í víking og að því hafi í raun fæstir norrænir menn verið eiginlegir víkingar. Ýmsar vangaveltur hafa verið uppi um uppruna og merkingu orðsins víkingur og helgast skilningur manna á orðinu ef til vill nokkuð af því hversu víða skýrskotun menn vilja gefa því. Hafi víkingar verið einvörðungu þeir sem lögðust í víking má ef til vill rekja merkingu orðsins til þess að þeir hafi gert árásir sínar í víkum eða jafnvel setið í launsátri í víkum og þannig náð að koma óvinum sínum á óvart með skyndiáhlaupi. Þá er hugsanlegt að víkingarnir séu þeir sem áttu fyrst og fremst heimaslóð í víkum, enda sennilega flest bú norrænna manna staðsett í víkum í fjörðum.
Víkingar geta hins vegar líka verið þeir sem fluttust búferlum og settust að í öðrum löndum, ýmist með landnámi eins og á Íslandi eða með því að þeir tóku sér bústað meðal annarra þjóða. Þannig eru víkingar afkomendur norrænna þjóða sem hafa flust búferlum og haft menningarleg áhrif á því landsvæði sem þeir hafa tekið sér upp nýja búfestu.
Almennt má telja að flestir álíti Víkinga syni og dætur norrænna samfélaga á Víkingatímabilinu. Samkvæmt því voru flestir víkingar einnig bændur, sæfarar, smiðir, lögmenn eða skáld. Víkingar notuðu víkingaskip (langskip eða knerri) í víkingaferðum sínum. Landnámabók fjallar um norska víkinga, sem námu land á Íslandi, en Íslendingasögur fjalla einkum um íslenska víkinga. Víkingar trúðu mikið á alskins verndar tákn og áttu oft einnig verndargripi sem þeir voru alltaf með meðferðis.
Að fara í víking
[breyta | breyta frumkóða]Þegar víkingar fóru um á skipum sínum með ránum og hernaði var það kallað að fara í víking eða leggjast í víking. Fyrstu herferðir norrænna manna, á árabilinu 790 til 830 hafa líklegast einkennst af áköfum árásum en þær hafa þó ekki verið stórar í sniðum og einkum beinst að strandhéruðum annarra landa. Þetta er stundum kallað að gera strandhögg. Að þessu tímabili loknu tekur við annað, frá árinu 830 til um 890, en þá urðu herferðirnar stærri í sniðum og seildust árásaherjirnir lengra inn til landsins, fóru til dæmis langt inn eftir landi í Englandi og Frakklandi. Frá síðari hluta níundu aldar fer að bera á fastri búsetu norrænna manna í þeim löndum sem þeir höfðu herjað á til dæmis í Englandi, Skotlandi og jafnvel í Rússlandi. Upphaf ýmissa enskra og írskra borga má jafnframt rekja til þessarar búsetu norrænna manna auk þess sem skammvinnt konungdæmi í Dyflinni var af norrænum rótum sprottið.
Víkingar af Norðurlöndum herjuðu þó ekki allir sömu slóðir, heldur fór það nokkuð eftir afstöðu landanna. Svíar náðu ekki til Norðursjávar og herjuðu lönd þau sem að því liggja sunnan og austan. Það var kallað að herja í austurveg. Um miðja 9. öld settu þeir ríki á stofn þar eystra. Sátu konungar þeirra í Novgorod, er þeir kölluðu Hólmgarð, en ríkið kölluðu þeir Garðaríki.
Norðmenn og Danir fóru aftur í víking vestur á bóginn, til Þýskalands, Frakklands og Englands, og var það kallað að fara í vesturvíking. Af víkingum þeim er veittu Englandi heimsókn eru frægastir Ragnar loðbrók og þeir Loðbrókarsynir. Settust Danir að lokum að í landinu og lögðu undir sig norðausturhluta Englands sem síðan var kallaður Danalög.
Líkt var háttað um ríki það sem víkingar komu á fót í Frakklandi nokkru seinna. Settist höfðingi þeirra, Hrólfur, að í Rúðuborg (Rouen). Var hann að sögn Snorra Sturlusonar norskur að ætt og sonur Rögnvalds Mærajarls. Reis þar upp á skömmum tíma voldugt ríki, er kallað var Normandí, en þeir Rúðujarlar er því stýrðu.
Frá tíundu öld má segja að umsvif víkinga utan heimalanda sinna hafi fyrst og fremst snúið að bresku eyjunum og í austurveg. Ríkjamyndun hafði hafist og árásir Víkinga í sífellt meira mæli studdar og stofnað til af hinum nýju ríkiseiningum. Þessi þróun endaði með sigri Knúts, konungs Danmerkur og Noregs, yfir Englandi árið 1016.
Það er athyglisvert að skoða mismunandi áhrif búsetuflutninga norrænna manna til hinna ólíku svæða í norð-vestur Evrópu. Ef horft er til skosku eyjanna til dæmis má sjá að norræn menning virðist hafa tekið algerlega yfir svo jafnvel er talað um þjóðarmorð á því fólki sem fyrir var á eyjunum eða þá að menning hinna norrænu innflytjenda hafi yfirtekið staðbundna menningu fullkomlega. Á Norður-Englandi, Normandí og norð-vestur Rússlandi settust víkingar að í hinum dreifðu byggðum og spurning hvort ekki hafi verið um að ræða fremur umfangsmikla flutninga frjálsra bænda frá Norðurlöndum til þessara svæða. Þar ýmist tóku norrænir menn yfir staðbundna menningu eða fylltu upp í ónumin skörð í landfræðilegu og menningarlegu tilliti. Þá er borgamyndun norrænna manna athyglisverð þar sem þær virðast framan af vera sjálfstæðar menningarlegar og pólitískar einingar en eru smám saman teknar inn í samfélagið umhverfis.
Neðanmálsgreinar
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Gunnar Karlsson. „Er rökrétt að fullyrða að landnámsmenn á Íslandi hafi verið víkingar?“. Vísindavefurinn 30.4.2007. http://visindavefur.is/?id=6617. (Skoðað 29.12.2011).
- ↑ Sverrir Jakobsson. „Hvaðan komu víkingarnir og hvaða áhrif höfðu þeir í öðrum löndum?“. Vísindavefurinn 13.7.2001. http://visindavefur.is/?id=1789. (Skoðað 29.12.2011).