Rögnvaldur Eysteinsson
Rögnvaldur Eysteinsson Mærajarl var norskur höfðingi á 9. öld, sonur Eysteins glumru Ívarssonar Upplendingajarls og Ástríðar Rögnvaldsdóttur. Hann var mikill vinur og bandamaður Haraldar hárfagra og konungur virti hann mikils.
Kona Rögnvaldar var Ragnhildur Hrólfsdóttir nefju og voru synir þeirra Ívar, sem féll í Suðureyjum í herferð Haraldar konungs þangað, Göngu-Hrólfur, sem sagður er hafa verið fyrsti hertogi í Normandí og forfaðir Englandskonunga, og Þórir, sem kallaður var þegjandi. Með Gróu frillu sinni átti Rögnvaldur synina Torf-Einar, jarl í Orkneyjum, Hallað jarl í Orkneyjum og Hrollaug, landnámsmann á Íslandi og afa Síðu-Halls, og voru þeir mun eldri en skilgetnu synirnir.
Þegar Ívar sonur Rögnvaldar féll gaf Haraldur konungur Rögnvaldi jarlsnafn í Orkneyjum í sonarbætur, en Rögnvaldur vildi ekki setjast að í eyjunum, gaf Sigurði bróður sínum jarlsdæmið sama dag og var áfram á Mæri. Rögnvaldur telst þó fyrsti Orkneyjajarlinn þótt hann væri aðeins jarl einn dag. Afkomendur þeirra bræðra urðu síðan Orkneyjajarlar.
Haraldur konungur átti marga syni og þegar þeir uxu upp voru þeir ósáttir við að faðir þeirra setti þá ekki til metorða en hafði jarl í hverju fylki. Tveir synir konungs, Hálfdan háleggur og Guðröður ljómi, fóru því eitt vorið með mikla sveit manna, gerðu Rögnvaldi Mærajarli aðför og brenndu hann inni ásamt sextíu öðrum. Þórir þegjandi tók þá við jarldæmi föður síns og gifti Haraldur konungur honum Ólöfu árbót dóttur sína.