Páll Jónsson (sýslumaður á Skarði)
Páll Jónsson (um 1445 – 12. október 1496) var íslenskur höfðingi og sýslumaður á 15. öld. Hann bjó á Skarði á Skarðsströnd og var giftur inn í ætt Skarðverja.
Páll var sonur Jóns Ásgeirssonar, sýslumanns í Hvammi í Hvammssveit og síðar í Ögri við Ísafjarðardjúp, og konu hans Kristínar Guðnadóttur frá Hóli í Bolungarvík. Á meðal systkina hans voru Ormur bóndi í Klofa og síðar á Skarði og Guðni sýslumaður, faðir Björns Guðnasonar í Ögri. Kona Guðna var Þóra, laundóttir Björns ríka Þorleifssonar.
Páll giftist Solveigu Björnsdóttur frá Skarði, dóttur Ólafar ríku og Björns Þorleifssonar. Þau voru fjórmenningar, bæði komin af Ormi Snorrasyni lögmanni, og fengu páfaleyfi til að mega eigast. Magnús Eyjólfsson biskup vildi þó ekki viðurkenna hjónaband þeirra.
Þorleifur bróðir Solveigar hafði áður gengið að eiga konu sem var í fjórmenningsfrændsemi við hann en fékk ekki páfaleyfi til þess fyrr en þau höfðu verið saman allmörg ár og átt börn saman. Samkvæmt leyfinu skyldu þau börn sem þau eignuðust eftir útgáfu þess teljast skilgetin en hin óskilgetin. Þau eignuðust ekki fleiri börn og þegar Þorleifur dó um 1486 tók Einar jungkæri bróðir hans arf eftir hann. Einar dó barnlaus 1494 og gerði þá Solveig tilkall til alls arfs eftir hann, einnig þess sem Þorleifur bróðir þeirra hafði átt. Björn sonur Þorleifs andmælti þessu og taldi sig skilgetinn. Um þetta urðu harðar deilur.
Solveig lést 1495. Ári síðar var Páll staddur á Öndverðareyri og þar fóru þeir Björn og Eiríkur sonur Halldórs Ormssonar ábóta í Helgafellsklaustri, sem sagður var eiga sökótt við Pál vegna kvennamála, að honum. Féll hann þar eftir frækilega vörn og var það Eiríkur sem vann á honum en Björn hélt sér til hlés. Var Eiríkur dæmdur útlægur fyrir vígið og er sagt að hann hafi dáið í Róm þar sem hann ætlaði að reyna að útvega sér páfaleyfi til landvistar.
Þeir Björn Þorleifsson og Björn Guðnason, sem báðir voru systursynir Solveigar, gerðu kröfu í Skarðseignirnar og var hart deilt um þær næstu árin. Þorleifur Pálsson, sonur Solveigar og Páls, var tveggja ára þgar faðir hans dó og flutti þá Ormur föðurbróðir hans í Skarð ásamt konu sinni, ól hann upp og sá um mál hans en sagt er að margt hafi farið í niðurníðslu á Skarði á þeim árum.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „Skarð á Skarðsströnd og kirkjan þar. Lesbók Morgunblaðsins, 24. desember 1983“.
- Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir II. Reykjavík, Prentsmiðja Ísafoldar og Þjóðólfs, 1889-1904.