Jón Sigmundsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jón Sigmundsson (um 14551520) var íslenskur höfðingi og lögmaður norðan og vestan frá 1509 til 1518. Þekktastur er hann fyrir deilur sínar við Gottskálk Nikulásson Hólabiskup.

Jón var launsonur Sigmundar Steinþórssonar prests í Miklabæ og síðar á Breiðabólstað í Vesturhópi og Solveigar Þorleifsdóttur, ekkju Orms Loftssonar hirðstjóra og systur Björns Þorleifssonar hirðstjóra. Þau Sigmundur og Solveig áttu saman fimm börn.

Jón varð sýslumaður í Vaðlaþingi (Eyjafjarðarsýslu) árið 1481 og 1493 í Húnavatnsþingi (Húnavatnssýslu). Hann bjó lengst af í Víðidalstungu og hélt líka bú á Urðum í Svarfaðardal. Hann átti í deilum um 1488 við Magnús Þorkelsson í Grenivík og Kristínu Eyjólfsdóttur konu hans og munu þá menn hans hafa brotið upp hús í Grenivík og meitt Kristínu. Hann flæktist líka inn í erfðadeiluna miklu sem varð um arf eftir Solveigu Björnsdóttur á Skarði og fygldi þar Birni Guðnasyni sýslumanni í Ögri, og voru þeir vinir og samherjar. (Mögulegt er að Jón hafi verið fyrsti eigandi handrits AM 566 a/b 4to, sem er meðal annars aðalhandrit Gísla sögu Súrssonar, og síðan gefið Birni það.[1])

Árið 1508 sigldi Jón og fékk konungsveitingu í lögmannsembættið en kom þó ekki heim til að taka við því fyrr en 1509. Jón fylgdi Birni Guðnasyni í Vatnsfjarðarmálum og beittu þeir sér fyrir Leiðarhólmssamþykkt, þar sem höfðingjar skuldbundu sig til að þola ekki biskupum ójöfnuð en hlíta þó kirkjulögum. Jón gat þó lítið beitt lögmannsvaldi sínu síðustu árin vegna bannfæringar. Í raun var Vigfús Erlendsson lögmaður um allt land 1516-1518 en fékk þó ekki samþykki konungs fyrir embættinu norðan og vestan.

Hann átti í miklum deilum við Gottskálk Nikulásson Hólabiskup og snerust þær meðal annars um að biskup taldi að Jón og seinni kona hans, Björg Þorvaldsdóttir, væru of skyld til að mega vera gift. Einnig kærði biskupinn Jón fyrir tíundarsvik og fleiri ávirðingar. Gottskálk bannfærði Jón og fékk Stefán Jónsson Skálholtsbiskup til að gera það einnig. Gottskálk lét einnig dæma Jón í háar sektir og glataði hann að lokum stærstum hluta eigna sinna til kirkjunnar og Gottskálks. Var Jón mikið hjá Birni Guðnasyni þessi ár en eftir að hann dó 1517 átti hann í fá hús að venda og bjó hann seinustu árin á Krossanesi á Vatnsnesi við þröngan kost. Þeir Gottskálk biskup dóu með fárra mánaða millibili 1520.

Fyrri kona Jóns var Guðrún Gunnlaugsdóttir (d. 1495) frá Marðarnúpi. Brúðkaup þeirra var haldið í Víðidalstungu 1483 og á meðan á brúðkaupinu stóð var Ásgrímur bróðir Jóns drepinn. Varð sá atburður ein af kveikjum Morðbréfamálsins. Seinni kona Jóns (g. 1497) var Björg Þorvaldsdóttir frá Móbergi í Langadal og hélt Gottskálk því fram sem fyrr segir að þau væru fjórmenningar en ekki er nú vitað hvernig skyldleika þeirra á að hafa verið háttað. Þau áttu þrjár dætur, Guðrúnu vatnshyrnu, sem var amma Arngríms lærða, Vilborgu (Söngva-Borgu) og Helgu, móður Guðbrandar Þorlákssonar biskups, sem reyndi mörgum áratugum eftir dauða afa síns að ná eignum hans aftur og spunnust af því löng og mikil mál (sjá Morðbréfamálið). Sonur Jóns hét Einar en ekki er víst hvort Guðrún eða Björg var móðir hans.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísun[breyta | breyta frumkóða]

  1. Hast, Sture (ed.), Harðar saga, Editiones Arnamagæanae, series A, 6 (Copenhagen: Munksgaard, 1960), 16-30.


Fyrirrennari:
Brandur Jónsson
Lögmaður norðan og vestan
(15091518)
Eftirmaður:
Grímur Jónsson