Egilsstaðaskógur
Egilsstaðaskógur er skógur nærri Egilsstöðum á Austurlandi. Skógurinn er með stærstu skógum Íslands.[1]
Gróðurfar
[breyta | breyta frumkóða]Skógurinn nær frá um 50-200 metra hæð og er gróðurfar breytilegt eftir því hvar í skóginum borið er niður. Á flatlendi er skógurinn ósamfelldur vegna mýra og túna en í halla er skógurinn þéttur. Ætla má að skógurinn sé um 4 metra hár og hæstu tré um 9 metrar.[1]
Skógurinn er að mestu samansettur úr birki og innan um hann vaxa gulvíðir, ilmreynir og blæösp sem er fágæt á Íslandi.[1]
Í Egilsstaðaskógi vaxa ferlaufasmári, þrílaufungur, bjöllulilja, jarðarber og sjöstjarna sem undirgróður.[1]
Fágætar tegundir
[breyta | breyta frumkóða]Níu fágætar fléttutegundir finnast í Egilsstaðaskógi.[1] Gljádumba (Melanohalea septentrionalis) vex í Egilsstaðaskógi og víðar á Fljótsdalshéraði og við Mývatn en er annars mjög sjaldgæf á Íslandi.[2] Gullinvarp (Vulpicida pinastri) vex aðeins í Egilsstaðaskógi við Hoffell í Hornafirði, í Austurskógum í Lóni í Steinadal í Suðursveit.[3] Grástika (Parmeliopsis hyperopta) vex aðeins í Egilsstaðaskógi og í Vaglaskógi. Nokkrar fléttutegundir vaxa í Egilsstaðaskógi sem eru tiltölulega algengar þar og jafnvel í öðrum skógum á Austurlandi en teljast sjaldgæfar á Íslandi. Þetta eru til dæmis gulstika (Parmeliopsis ambigua), birkitarga (Lecanora circumborealis), krypplugrös (Tuckermannopsis chlorophylla), flatþemba (Hypogymnia physodes) og pípuþemba (Hypogymnia tubulosa).[2]
Samkvæmt Helga Hallgrímssyni vex að minnsta kosti ein fágæt sveppategund í Egilsstaðaskógi.[1] Þar gæti verið átt við um sníkjusveppinn Homostegia piggotii sem sníkir á litunarskófum og hefur Egilsstaðaskóg sem eina þekkta fundarstaðinn á Íslandi.[4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Náttúrumæraskrá Helga Hallgrímssonar. III. Austurvellir og fv. Egilsstaðahreppur - 3.6.1. Egilsstaðaskógur. Sótt þann 25. mars 2020.
- ↑ 2,0 2,1 Hörður Kristinsson (1998). Fléttur á íslenskum trjám. Skógræktarritið 1998(1), 35-47.
- ↑ Náttúrufræðistofnun Íslands (án árs). Gullinvarp - (Vulpicida pinastri). Geymt 25 mars 2020 í Wayback Machine Sótt 25. mars 2020.
- ↑ Helgi Hallgrímsson & Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir (2004). Íslenskt sveppatal I - smásveppir. Geymt 17 október 2020 í Wayback Machine Fjölrit Náttúrufræðistofnunar. Náttúrufræðistofnun Íslands. ISSN 1027-832X