Fara í innihald

Tryggvi Þór Herbertsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tryggvi Þór Herbertsson (TÞH)
Alþingismaður
frá til  kjördæmi    þingflokkur
2009 2013  Norðausturkjördæmi  Sjálfstæðisfl.
Persónulegar upplýsingar
Fæddur17. janúar 1963 (1963-01-17) (61 árs)
Neskaupstaður
NefndirEfnahags- og skattanefnd og iðnaðarnefnd
Vefsíðahttp://blog.eyjan.is/tthh
Æviágrip á vef Alþingis

Tryggvi Þór Herbertsson (f. 17. janúar 1963) er viðskiptamaður og fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi (2009-2013) og prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík.

Menntun og ferill

[breyta | breyta frumkóða]

Tryggvi var hljóðmaður á yngri árum t.d. hjá hljómsveitinni Greifunum[1] og Bubba Mortens um leið og hann var eigandi Stúdíó Mjatar á árunum 1981-1986. Hann starfaði síðar sem fréttaklippari hjá Stöð 2 á árunum 1986-1989. Sumarstörf hans voru hjá Iðntæknistofnun og fjármálaráðuneytinu árið 1991.

Tryggvi lauk iðnrekstrarfræðiprófi frá Tækniskóla Íslands árið 1992, M.Sc. prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 1995 og doktorsprófi í hagfræði frá Árósaháskóla árið 1998.

Tryggvi Þór var forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 1995 til 2006 auk þess sem hann sinnti kennslu við skólann frá 1996 til 2006. Frá áramótum 2008-2009 hefur hann verið prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík. Tryggvi er giftur Sigurveigu Maríu Ingvadóttur og á fjögur börn.

Störf Tryggva

[breyta | breyta frumkóða]

Tryggvi og Björgólfur Guðmundsson

[breyta | breyta frumkóða]

Eins og að framan segir starfaði Tryggvi Þór lengst af við Háskóla Íslands. Samkvæmt heimildum DV fór Tryggvi þess á leit við Björgólf Guðmundsson árið 2006 að sá síðarnefndi myndi kosta prófessorsstöðu í hagfræði sem Tryggvi ætlaði svo að gegna. Tryggvi, sem á þeim tíma var forstöðumaður hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, á að hafa reifað hugmyndirnar fyrir samstarfsfólki sínu við háskólann á þann hátt að staðan yrði nefnd eftir Björgólfi.[2] Samkvæmt heimildum DV var hugmyndin sú að Tryggvi átti að fá umtalsvert hærri laun en aðrir kennarar í hagfræði við Háskóla Íslands. Staðan hafi að sögn Tryggva átt að vera rannsóknarstaða við stofnunina. Samkvæmt DV varð ekkert úr þessum fyrirætlunum Tryggva þar sem hann tók síðar á sama ári við störfum forstjóra Askar Capital.

Skýrsla fyrir olíufélögin

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2004 réði íslenska olíufélagið Skeljungur Tryggva ásamt Jóni Þór Sturlusyni til þess að veita hagfræðilega greiningu á úrskurði Samkeppniseftirlitsins um samráð olíufélaganna. Komust þeir Tryggvi og Jón Þór að því að mjög hefði hallað á Skeljung í úrskurði Samkeppniseftirlitsins, raunar komust þeir að þeirri niðurstöðu að samráð olíufélaganna hefði ekki valdið neinni hækkun á olíuvörum.

Skýrsluhöfundar fá ekki séð, að sú framlegðaraukning sem á að hafa orðið í kjölfar meints samráðs hafi leitt til verðhækkana olíuvara á Íslandi eftir 1997 umfram almennar verðlagshækkanir.
 
— Úr skýrslu þeirra Jóns og Tryggva.[3]

Var umrædd skýrsla gagnrýnd af Samkeppnisráði, sem benti á að skýrslan hefði verið pöntuð af lögmönnum sakborninganna í málinu. Þá taldi Samkeppnisráð það há skýrsluhöfundum að þeir hefðu aðeins fengið til umfjöllunar viðurlagakafla frumathugunarinnar, að þeir hafi ekki nýtt sér að fullu aðgang sem þeir höfðu að upplýsingum úr rekstri olíufélaganna og að þá skorti yfirsýn yfir framkvæmd sambærilegra mála erlendis og þá aðferðafræði sem gengur og gerist í málum sem þessum.[4] Þessum ásökunum vísuðu skýrsluhöfundar á bug.[5]

Skýrsla fyrir Viðskiptaráð um fjármálastöðugleika á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2006 kannaði hann sem forstöðumaður Hagfræðistofnunar fjármálastöðugleikann á Íslandi ásamt Frederic Mishkin, prófessor við Columbíu-háskóla sem síðar sama ár varð einn af seðlabankastjórum Bandaríkjanna. Skýrsla þeirra varð síðar umdeild, þar sem niðurstaða hennar var sú að raunhagkerfið á Íslandi væri traust sem margir túlkuðu sem heilbrigðisvottorð fyrir fjármálakerfið.[6] Þá hafa ýmsir, til að mynda Robert Wade, prófessor við London School of Economics, haldið því fram að Tryggvi Þór hafi verið eini höfundur skýrslunnar, Frederic Mishkin hafi fengið greidda 135 þúsund dollara frá Viðskiptaráði Íslands fyrir það eitt að leggja nafn sitt við það sem Robert Wade kallar "rýra skýslu" Tryggva Þórs. Hefur hann sagt að hagfræðinemar hefðu fengið falleinkunn fyrir þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í skýrslunni.[7] Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir að öldur hafi lægt að nokkru leyti eftir útgáfu skýrslunnar, en viðhorf útlendra fjárfesta hafði breyst til hins verra fram að útgáfu skýrslunnar árið 2006.[8]

Frederic Mishkin mátti sæta mikilli gagnrýni fyrir að breyta eftir hrun heiti skýrslunnar á ferilskrá sinni úr Financial Stability in Iceland (Fjármálastöðugleiki á Íslandi) í Financial Instability in Iceland (Fjármálaóstöðugleiki á Íslandi).[9]

Forstjóri Askar Capital

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2006 varð hann forstjóri fjárfestingarbankans Askar Capital og var það frá stofnun hans til júlí 2008 þegar hann tók við stöðu sérstaks efnahagsráðgjafa Geirs Haarde forsætisráðherra.[10]

Í tilefni af opnun Aska Capital árið 2006 var Tryggvi Þór spurður af fréttastofu RÚV um hlutverk Aska. Sagði þá Tryggvi Þór: „Við ætlum að fara að bjóða upp á flókna fjármálalega gjörninga og fjármálalegar vörur fyrir stofnanafjárfestingar, fyrir viðskiptabankanna og fyrir ja, stóra fjárfesta.” Fréttamaðurinn fylgdi spurningunni eftir og bað Tryggva Þór um að nefna dæmi. Þá svaraði hann: „Ja, við gætum til dæmis nefnt einhverjar afleiður sem eru tengdar fasteignum í öðrum löndum eða, já til dæmis.”[11]

Notkun á bótasjóðum Sjóvár í fjárfestingar

[breyta | breyta frumkóða]

Askar Capital höfðu umsjón með fjárfestingaverkefnum fyrir Sjóvá og Milestone. Verðmæti verkefnanna hljóp á hundruðum milljarða króna og voru meðal annars bótasjóðir Sjóvár notaðir til að fjármagna verkefninin. Eftir að upp komst um notkun bótasjóðanna gerði embætti sérstaks saksóknara húsleit í höfuðstöðvum Sjóvár, í höfuðstöðvum Milestone, á heimilum allra fyrrverandi stjórnarmanna og á heimili Þórs Sigfússonar, fyrrverandi forstjóra Sjóvár.[12]

Var það gert í tilefni rannsóknar á stórfelldu fjármálamisferli sem tengist starfsemi Milestone og Sjóvár. Rannsóknin snerist meðal annars að meintri misnotkun á bótasjóði Sjóvár en um sjóðinn gilda strangar reglur hvað varðar not á fé úr honum til fjárfestinga.[13]

Tryggvi Þór kveðst hafa vitað að bótasjóðir væru notaðir í fjárfestingarnar. Hann hafi gert sér fullkomlega grein fyrir því að verið væri að kaupa eignir inn í bótasjóðina, fjárfest hefði verið í ýmsu með slíkum sjóðum. Aftur á móti telur hann að notkun bótasjóðanna til fjárfestingar hafi verið lögleg.[14]

Svo fór þó að fjárfestingar fyrir fjármuni bótasjóðsins enduðu illa og árið 2008 var eignastaða Sjóvá var orðin það slæm að félagið átti ekki fyrir vátryggingaskuld sinni en það eru þeir fjármunir sem tryggingafélag skuldar viðskiptavinum sínum vegna greiddra iðgjalda, svonefndur bótasjóður. Á endanum þurfti íslenska ríkið að lána Sjóvá um 12 milljarða króna af fé skattgreiðenda sumarið 2009 svo það uppfyllti skilyrði um gjaldþol og gæti staðið við vátryggingaskuldbindingar sínar.[15]

Greiðslur frá Askar Capital

[breyta | breyta frumkóða]

Nokkuð hefur verið gagnrýnt að Tryggvi Þór hafi þegið samtals 16,5 milljónir í greiðslu frá Askar Capital á sama tíma og hann gegndi stöðu efnahagsráðgjafa forsætisráðherra árið 2008. [16] Tryggvi vísaði þó allri gagnrýni á bug og sagðist ekki geta ímyndað sér hvaða hagsmunaárekstrar ættu að geta átt sér stað.[17]

Aðkoma Tryggva Þórs að bankahruninu

[breyta | breyta frumkóða]

Tryggvi Þór var fimmti efnahagsráðgjafi forsætisráðuneytisins frá upphafi.[18]

Sem efnahagsráðgjafi forsætisráðherra reyndi hann að sefa ótta útlendinga við að íslensku bankarnir yrðu gjaldþrota, t.d. með því að að lofa í breskum fjölmiðlum að íslenska ríkið ábyrgðist Icesave reikningana.[19]

Spyrill: Myndi ríkisstjórnin hafa efni á að bjarga öðrum stórum banka?

Tryggvi Þór: Það er augljóst að bankakerfið á Íslandi er mjög stórt miðað við hagkerfið, en við höldum samt sem áður að við getum átt við vandann, því efnahagsreikningurinn er eftir allt mjög góður, það er að segja eignahlið efnahagsreikningsins, og þar sem [bankarnir] hafa ekki keypt húsnæðislán frá Bandaríkjunum eða frá útlöndum. Þannig að við erum frekar viss um að efnahagsreikningarnir séu heilbrigðir og að bankarnir geti starfað á heilbrigðan hátt í framtíðinni.
Spyrill: Já, en svo ég endurtaki spurninguna, ef einn [bankanna] lenti í vandræðum þrátt fyrir það sem þú sagðir, hefðuð þið efni á að bjarga honum?
Tryggvi Þór: Alveg örugglega, við myndum koma bankanum til bjargar, alveg örugglega.

Spyrill: Fullt af fólki í Bretlandi eru með sparnað í þessum tveimur bönkum, Landsbankanum og Kaupþingi. Er peningurinn þeirra öruggur?
Tryggvi Þór: Já, samkvæmt minni vitneskju er Ísland hluti af Evróputilskipun um innistæðutryggingar, þannig að já, svo ætti að vera.
Spyrill: Ég veit að þið eruð hluti af tilskipuninni, ég er að spyrja hvað myndi gerast ef fólkið kæmi til ykkar, mynduð þið segja "Við getum borgað ykkur 20 þúsund evrurnar" eða mynduð þið segja "Efnahagslífið er í svo miklum vanda, mér þykir það leitt, en við getum ekki staðið við þessar skuldbindingar."
Tryggvi Þór: Nei við erum ekki í svo miklum vanda, og líka, veistu, sumir íslensku bankanna starfa úr útibúi í Bretlandi, svo breska [ innistæðutryggingakerfið] á við um þá banka.
Spyrill: Það á við um Kaupþing, en eins og ég skil við þetta á það ekki við um Landsbankann. En það er þá engin hætta á að þið hafið ekki nægan pening til að greiða skuldbindingar við breska sparifjáreigendur ef þeir leita til [tryggingasjóðs innistæðueigenda] á Íslandi?
Tryggi Þór: Eins og ég segi, veistu, við erum bundin af alþjóðalögum til að fara eftir... Já við verðum að fara eftir alþjóðalögum.

 
— Úr viðtali BBC við Tryggva Þór Herbertsson, í BBC 8. október 2008[20]

Stuttu seinna, þegar Tryggvi Þór hafði verið kosinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn, kvað við annan tón hjá Tryggva, sem beitti sér af ákafa gegn því að ríkið ábyrgðist Icesave-reikningana:

Þannig var að síðasta haust þegar það lá fyrir að gerðar voru miklar kröfur á okkur Íslendinga um að gangast í ábyrgðir fyrir hina svokölluðu Icesave-reikninga sem Landsbanki Íslands hafði tekið á móti þá var sett mikil pressa á okkur Íslendinga. Þetta byrjaði frekar létt sem pressa frá Hollendingum og Bretum en vegna þess ástands sem var í heiminum og sérstaklega í Evrópu varð það fljótt að helsta áhugamáli Evrópuþjóða að Íslendingar viðurkenndu þá skyldu sína, sem þeir kölluðu svo, að gangast í ábyrgðir fyrir innlánstryggingarsjóðinn. Nú er það svo að Ísland er aðili að þjónustutilskipun Evrópusambandsins vegna þess að við erum partur af EES-svæðinu og með tilskipun um starfsemi fjármálafyrirtækja hafa Íslendingar eins og önnur EES-ríki leyfi til að vera í fjármálastarfsemi yfir landamæri. Vegna þessa setti Evrópusambandið tilskipun um hvernig innlánstryggingum ætti að vera háttað á svæðinu. Hún gengur í stuttu máli út á það að öll aðildarlöndin, hvert og eitt, eiga að vera með innlánstryggingarsjóð og það er kveðið á um hvernig útlitið á þeim sjóði eigi að vera en það er ekki kveðið á um að það sé ríkisábyrgð á sjóðnum. Það hefur verið seinni tíma túlkun hjá Evrópusambandinu að þar sé um einhvers konar ríkisábyrgð að ræða og Íslendingar hafa ávallt hafnað því en þrátt fyrir það gengist undir það að ganga frá þessu máli þannig að Íslendingar taki ábyrgð á innlánstryggingarsjóðnum á sig. Í október í fyrra voru Íslendingar þvingaðir til að undirgangast það að greiða Hollendingum og Bretum til baka það sem þeir höfðu lagt út eða mundu leggja út fyrir vegna innlánstrygginga og það var gert með bolabrögðum.
 
— Úr ræðu Tryggva Þórs Herbertssonar, á Alþingi 9. desember 2009 [21]

Björgvin G. Sigurðsson, sem var bankamálaráðherra á tíma bankahrunsins, hefur gagnrýnt Tryggva Þór Herbertsson fyrir að halda mikilvægum upplýsingum frá sér við fall bankanna.

Jón [Þór Sturluson] hringdi í Tryggva, að mér heyrandi, og gekk mjög á hann á laugardeginum, og hinn bara fullyrti alveg „nei, nei, ekkert að gerast, bara fara yfir bankana, forsætisráðherra var að koma heim,“ og bara alveg blákalt. Og Jón trúði honum og við bara líka, maður reiknar ekki með því að það sé alltaf verið að ljúga að manni.
 
— Skýrsla Björgvins G. Sigurðssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, 19. maí 2009, bls. 53[22]

Helgina 4.-5. október 2008 var settur á fót sérstakur sérfræðingahópur á vegum forsætisráðherra, en í hópnum sátu Tryggvi Þór, Friðrik Már Baldursson, Jón Steinsson, Bogi Nils Bogason og Jón Þór Sturluson. Var vinna hópsins gagnrýnd harðlega af rannsóknarnefnd Alþingis. Þannig segir nefndin:

Að mati rannsóknarnefndar Alþingis skorti verulega á verkstjórn og markviss vinnubrögð hjá íslenskum stjórnvöldum um þetta leyti. Í þessu samhengi má einnig nefna að þegar sérfræðingahópurinn hóf störf byrjuðu meðlimir hans á því að halda í Háskólann í Reykjavík þar sem prenta átti út ársskýrslur og árshlutaskýrslur bankanna.
 
— skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, bls. 253[23]


Tryggvi gegndi því starfi efnahagsráðgjafa þar til hann sagði af sér seinnipart október 2008, en afsögnin kom í kjölfar þess að Tryggvi hafði verið mótfallinn yfirtöku ríkisins á Glitni.[24]

Tryggvi Þór á Alþingi

[breyta | breyta frumkóða]

Tryggvi skipaði annað sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir kosningarnar 2009.[25] Helsta kosningaloforð hans var að fella niður 20% af skuldum heimila og fyrirtækja. [26]

Ritdeila við Andra Snæ

[breyta | breyta frumkóða]

Í september 2010 lenti Tryggvi í ritdeilu við rithöfundinn Andra Snæ Magnason. Fyrst birti Andri greinina „Í landi hinna klikkuðu karlmanna[27] á vef sínum og í Fréttablaðinu. Í henni gagnrýndi hann stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda og notaði gífuryrði eins og „klikkaðir“, „óðir“ og „geðveikir“ til þess að lýsa „íslensku elítunni“ þar á meðal Tryggva Þór. Tryggvi Þór svaraði greininni með grein í Fréttablaðinu viku seinna undir fyrirsögninni Alkemistinn.[28]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Bjargar hann Geir eins og Greifunum; grein í Fréttablaðinu 2008
  2. „Tryggvi Þór vildi vera titlaður „Björgólfur" 2. febrúar 2010“. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. apríl 2010. Sótt 29. október 2010.
  3. „Vefþjóðviljinn: Helgarsprokið 7. nóvember 2004“. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. júlí 2011. Sótt 29. október 2010.
  4. Ómálefnalegar aðdróttanir; lesendagrein í Morgunblaðinu 5. nóvember 2004 eftir Jón Þór Sturluson og Tryggva Þór Herbertsson, bls 28
  5. Ómálefnalegar aðdróttanir; lesendagrein í Morgunblaðinu 5. nóvember 2004 eftir Jón Þór Sturluson og Tryggva Þór Herbertsson, bls 29
  6. Toppfræðingur gefur góða einkunn; grein í Fréttablaðinu 2006
  7. „Prófessor hæðist að skýrslum íslenskra fræðimanna: Fengju falleinkunn í hagfræðinámi; grein á Pressan.is 2. maí 2010“. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. júlí 2011. Sótt 29. október 2010.
  8. rannsóknarnefndar Alþingis, 7. bindi, bls. 232[óvirkur tengill]
  9. Bank Bosses Should Go After ‘Massive Fraud,’ Filmmaker Says; grein á Bloomberg fréttaveitunni 17. maí 2010
  10. Peningaskápurinn; grein í Fréttablaðinu 2008
  11. Fjármálagaldrar til sölu : Halla Gunnarsdóttir
  12. Húsleit hjá Milestone og Sjóvá 7. júlí 2009
  13. Húsleit hjá Milestone og Sjóvá 7. júlí 2009
  14. Tryggvi Þór: Löglegt að bótasjóðir fjárfesti í fasteignum. Fjármála- eftirlitið vissi um viðskiptin 7. júlí 2009[óvirkur tengill]
  15. „Misnotuðu bótasjóðinn: Fengu minnst fjórar aðvaranir. Grein í DV, 26. febrúar 2010“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. maí 2010. Sótt 29. október 2010.
  16. „Fékk milljónir frá Askar og var á sama tíma efnahagsráðgjafi. Grein í DV, 8. febrúar 2010“. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. febrúar 2010. Sótt 29. október 2010.
  17. „Fékk milljónir frá Askar og var á sama tíma efnahagsráðgjafi. Grein í DV, 8. febrúar 2010“. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. febrúar 2010. Sótt 29. október 2010.
  18. Sautján ár frá síðasta efnahagsráðgjafa; grein í 24 stundum 2008
  19. Icelandic banks reassure savers; grein á vef BBC 6. október 2008
  20. „Tryggvi Herbertsson and Mark Sismey-Durrant on BBC Radio 4's Money Box“. BBC. 8. október 2008.
  21. „Tryggvi Þór Herbertsson“. ræða á Alþingi um Icesave reikningana,. 5. desember 2009.
  22. „Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, 7. bindi, bls. 17“ (PDF).
  23. „Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, 7. bindi, bls. 253“ (PDF).
  24. Var andvígur yfirtöku Glitnis; grein í Fréttablaðinu 2009
  25. „Tryggvi Þór Herbertsson í framboð; af Eyjunni.is“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. júní 2009. Sótt 29. október 2010.
  26. Tryggvi Þór: 20% af skuldum heimilanna verði felldar niður
  27. Í landi hinna klikkuðu karlmanna Geymt 16 september 2010 í Wayback Machine, grein eftir Andra sem birtist einnig í Fréttablaðinu 11. september 2010
  28. Alkemistinn, grein í Fréttablaðinu 18. september 2010