Fara í innihald

Ticino

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Tessin)
Ticino
Höfuðstaður Bellinzona
Flatarmál 2.812 km²
Mannfjöldi
 – Þéttleiki
350.400 (2014)
125/km²
Sameinaðist Sviss 1803
Stytting TI
Tungumál Ítalska
Vefsíða [1]

Ticino (þýska: Tessin) er fimmta stærsta kantónan í Sviss með 2.812 km2. Hún er sú kantóna sem nær lengst í suður og er jafnframt eina kantónan þar sem ítalska er opinbert tungumál. Höfuðborgin er Bellinzona.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]

Rúmlega helmingur af ummáli Ticino liggur með ítölsku landamærunum, í suðri, austri og vestri. Auk þess eru kantónurnar Wallis og Uri fyrir norðvestan og Graubünden fyrir norðaustan. Alparnir mynda stóran hluta kantónunnar. Hæsta fjallið er Adula (3.402 m). Lægsti punkturinn er yfirborð Lago Maggiore í 193 metra hæð. Ticino er þekkt fyrir Miðjarðarhafsloftslag og mikla ferðamennsku, sérstaklega í heilsubæjunum Locarno, Ascona og Lugano. Íbúar eru 238 þúsund, sem gerir Ticino að þrettándu fjölmennustu kantónu Sviss.

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Ticino eru tvær lóðréttar rendur, rauð til vinstri og blá til hægri. Litirnir komu fyrst fram 1803, er Ticino varð opinberlega að kantónu en merking litanna var ekki skjalfest. Núverandi merki var tekið upp 1930.

Kantónan heitir eftir ánni Ticino, sem rennur um suðurhluta Sviss niður á Pósléttuna. Heitið kemur úr keltnesku og var upphaflega Tesin. Þetta merkir vatnsflaumur. Kantónan heitir enn Tessin (með tveimur s-um) á þýsku.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Smíði Gotthard-ganganna, sem opnuð voru umferð 1980. Þau eru 17 km að lengd og tengja kantónurnar Uri og Ticino.

Á miðöldum var héraðið stjórnað af hertogunum af Mílanó. Á 15. öld hertóku Svisslendingar ýmis svæði í viðleitni þeirra til að stækka landið, sérstaklega kantónan Uri. Árið 1500 hertóku kantónurnar Uri, Schwyz og Nidwalden stórt svæði innan núverandi marka Ticino, sem varð að nokkurs konar leppsvæði Sviss. 1798 hertóku Frakkar héraðið. Í fyrstu var óvíst hvort Napoleon myndi innlima héraðið Langbarðalandi á Ítalíu eða Sviss. Flestir íbúar vildu hins vegar sameinast Sviss og bjuggu þá til móttóið Liberi e Svizzeri (Frelsi og Sviss). Því varð Ticino formlega að kantónu í helvetíska lýðveldinu 1803. Samtímis hlaut hin nýja kantóna sína fyrstu stjórnarskrá, sem var endurgerð 1814 eftir fall Napoleons. Kantónan fékk ekki neina eiginlega höfuðborg, því stjórnin hélt sín þing til skiptis í borgunum Locarno, Lugano og Bellinzona. Eftir mikinn óróa, sem jaðraði við innanríkisátök, var ákveðið árið 1878 að borgin Bellinzona skyldi vera höfuðborg kantónunnar og skyldu þing eingöngu haldin þar, þrátt fyrir að sú borg væri langt frá því að vera stærst í kantónunni. 1938 heimtaði Benito Mussolini að Ticino yrði innlimuð Ítalíu. Til að tryggja yfirráð Ítalíu yfir kantónunni varð smíðuð innrásaráætlun en ýmsir atburðir á Ítalíu og í Evrópu urðu til þess að ekkert varð úr þessu. Mikið hefur borið á því síðan á 20. öld að íbúar flyttu frá inndölum til borga og bæja, þannig að margir dalir eru orðnir nær mannlausir.

Stærstu borgir Ticino:

Röð Borg Íbúafjöldi Ath.
1 Lugano 55 þúsund
2 Bellinzona 17 þúsund Höfuðborg kantónunnar
3 Locarno 15 þúsund
4 Mendrisio 11 þúsund
5 Giubiasco 8 þúsund
6 Chiasso 7 þúsund Syðsti bær Sviss
7 Ascona 5 þúsund