Tómas R. Einarsson
Tómas R. Einarsson | |
---|---|
Upplýsingar | |
Fæddur | Tómas Ragnar Einarsson 25. mars 1953 |
Uppruni | Blönduós og Dalabyggð |
Ár virkur | 1989– |
Stefnur | Djass, kúbverskur djass |
Hljóðfæri | Kontrabassi |
Vefsíða | tomasr.is |
Tómas R. Einarsson (fæddur 1953) er kontrabassaleikari og tónskáld. Hann hefur verið áberandi innan hinnar íslensku djass-senu í áratugi.[1][2] Mörg verka hans eru innblásin kúbverskri djass-tónlist.[1][3]
Árið 2014 var hann sæmdur riddarakrossi hinni íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskrar djasstónlistar og menningarlífs.[4]
Ævi og starf
[breyta | breyta frumkóða]Tómas fæddist á Blönduósi og ólst upp í Dalabyggð. Foreldrar hans voru Kristín Bergmann Tómasardóttir (1926-2015), kennari og Einar Kristjánsson (1917-2015) skólastjóri og kennari. Hann stundaði nám við Gagnfræðiskóla Stykkishólms og svo við Menntaskólann í Hamrahlíð og var á þeim tíma róttækur félagshyggjumaður og tók oft þátt í mótmælum.[2] Hann byrjaði svo að spila á kontrabassa meðan hann lærði sagnfræði og spænsku við Háskóla Íslands, þaðan lauk hann BA prófi í sagnfræði og spænsku. Fyrsta tónverkið hans kom svo út árið 1982 á plötu með djass-hljómsveitinni Nýja kompaníinu.[2]
Árið 1992 stofnaði Tómas Jazzkvartett Reykjavíkur ásamt saxafónleikaranum Sigurði Flosasyni. Hljómsveitin náði allnokkrum vinsældum á síðasta áratug 20. aldarinnar og spilaði víða um Evrópu. Auk þess spilaði Tómas með Tríói Ólafs Stephensens og gaf út plötur með þeim.[2]
Tómas vann Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2003 fyrir djazzplötu ársins sem og djasstónverk ársins. Árið 2004 hlaut hann aftur verðlaun fyrir djasstónverk ársins, og aftur árið 2012.
Árið 2014 gaf hann út plötu með Sigríði Thorlacius, söngkonunni úr Hjaltalín.
Flest af tónverkum Tómasar hafa komið út á hans eigin plötum, en hann á þar að auki verk á yfir 20 plötum eftir aðra listamenn. Hann hefur spilað inn á plötur með ýmsum nafntoguðum listamönnum, Megasi, Bubba, Mugison, og fleirum.
Kúbverskur djass
[breyta | breyta frumkóða]Mikið af tónlist Tómasar er innblásin af tónlist hinnar rómönsku Ameríku, og þá sér í lagi Kúbu. Fyrsta plata hans af þessu tagi kom út árið 2002 og ferðaðist Tómas víða um Evrópu og Ameríku með hljómsveit sinni. [3][5] Árið 2007 tóku nokkrir plötusnúðar sig saman og útbjuggu hljóðblöndun á latínlögum hans í teknó-stíl. Teknóplatan hét RommTommTechno.[6]
Kvikmyndir
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2015 var heimildarmynd gerð um Tómas. Hún bar heitið Latínbóndinn og fylgdi Tómasi um heimabæ sinn og um tónleikaferðalag sitt um Kúbu.[7][8]
Tónlist Tómasar hefur verið notuð í 13 kvikmyndum.
Þá leikstýrði Tómas heimildarmynd um rithöfundinn Guðberg Bergsson sem sýnd var í sjónvarpi.[3] Árið 2011 sá Tómas um tónlistina við heimildarmynd um Halldór Laxness.
Þýðingar
[breyta | breyta frumkóða]Tómas hefur þýtt bækur eftir Suður-Ameríska rithöfunda á við Isabel Allende, Gabriel García Márquez, og Julio Cortázar. Þá hefur hann þýtt bók eftir Nicholas Shakespeare.
Plötur
[breyta | breyta frumkóða]Sem leiðandi bassaleikari
[breyta | breyta frumkóða]- 1989 – Nýr tónn
- 1991 – Íslandsför
- 1994 – Landsýn
- 1998 – Á góðum degi
- 2000 – Undir 4
- 2002 – Kúbanska
- 2003 – Havana
- 2005 – Let jazz be bestowed on the huts
- 2006 – Romm Tomm Tomm
- 2007 – Rommtommtechno
- 2008 – Trúnó
- 2009 – LIVE!
- 2009 – Reykjavík-Havana
- 2009 – Early Latin
- 2011 – Strengur
- 2012 – Laxness
- 2013 – Bassanótt
- 2014 – Mannabörn
- 2016 – Bongó
- 2017 – Innst inni
Aðrar plötur
[breyta | breyta frumkóða]- 1985 – Þessi ófétis jazz
- 1987 – Hinsegin blús
- 1994 – Hot house - Reykjavik Jazz Quartet live at Ronnie Scott´s
- 1995 – Koss með Ólafíu Hrönn
- 2000 – Í draumum var þetta helst
- 2004 – Dansaðu fíflið þitt dansaðu!
- 2015 – Bræðralag
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Bassaleikari, tónskáld og meistari í latíndjassi“. Morgunblaðið. 25. mars 2013.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 „Á góðum degi“. Morgunblaðið. 29. nóvember 1998.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 Linnet, Vernharður (30. nóvember 2004). „Biblía Tomma og guðspjall Samma“. Morgunblaðið.
- ↑ „Níu fengu fálkaorðuna“. Fréttablaðið. 17. júní 2014.
- ↑ Gunnarsson, Davíð (19. desember 2016). „Lífleg og notaleg í senn“. The Icelandic National Broadcasting Service.
- ↑ „RommTommTechno á Domo“. Morgunblaðið.
- ↑ „Glampandi fagur kontrabassi í glugga“. Fréttablaðið. 6. júlí 2015.
- ↑ Vernharður, Linnet (14. júlí 2015). „Norræn heiðríkja á djasshátíð“. Morgunblaðið.