Svignaskarð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Svignaskarð er fornt stórbýli og höfuðból í Norðurárdal í Borgarbyggð. Samkvæmt Sturlungu mun Svignaskarð hafa verið eitt af búum Snorra Sturlusonar og þar bjó um tíma Torfi Erlendsson (1598-1665), sýslumaður og umboðsmaður konungsjarða í Borgarfirði. 1903-1939 bjó þar athafnamaðurinn Guðmundur Daníelsson (1873-1939). Hafði hann keypt jörðina og tekið við í mikilli niðurníðslu, en byggt hana upp og gert aftur að miklu stórbýli. Svignaskarð var á þessum árum í alfaraleið norður í land og þar þróaðist með Guðmundi mikil fyrirgreiðsla við ferðamenn og taldi fjöldi þeirra sem stöldruðu við á Svignaskarði árið 1914 til að mynda 3434 ferðamenn. Að sumri til dvöldu margir þar í um lengri eða skemmri tíma við útivist og stangveiði í Norðurá og var gistingu haldið þar úti allt til ársins 1952. Svignaskarð var síðan selt til Iðju, félags verksmiðjufólks í Reykjavík árið 1968 og hefur félagið þar síðan reist orlofshúsabyggð í kjarrlendinu norður af eldri bæjarhúsum.

Skammt austan við bæinn í túninu hjá Svignaskarði er klettaborg sem nefnist Kastali og er þaðan gott útsýni yfir Borgarfjarðarhérað. Sökum þess að þar var gott vígi frá náttúrunnar hendi, var bærinn fluttur þar upp á Sturlungaöld, þar sem að fyrir utan víðsýni var þar nánast sjálfgert vígi að kalla. Á milli bæjarhúsa og Kastalans er heimagrafreitur hvar hvíla Guðmundur Daníelsson, fyrrum bóndi og ábúandi á Svignaskarði og kona hans, Guðbjörg Sæmundsdóttir.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, S-T. Örn og Örlygur.
  • Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Borgarfjörður og Mýrar. Mál og menning. ISBN 9979-3-0657-2.
  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.