Fara í innihald

Svartbók kommúnismans

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Háskólaútgáfan gaf bókina út á íslensku þann 31. ágúst árið 2009. Íslenska útgáfan er 828 blaðsíður og hefur ISBN 978-9979-548-39-3.

Svartbók kommúnismans er bók, sem fjallar um glæpi kommúnistastjórna á 20. öld. Höfundar eru nokkrir franskir fræðimenn. Stéphane Courtois var ritstjóri og skrifar formála hennar, eftirmála og tvo kafla. Nicolas Werth skrifar lengstu greinina, sem er um ógnarstjórn Leníns og Stalíns í Rússlandi og síðar Ráðstjórnarríkjunum 1917–1953. Jean-Louis Margolin skrifar tvær langar ritgerðir, um Kína í valdatíð Maós 1949–1976 og Kambódíu undir stjórn rauðu kmeranna 1975–1979. Bókin kom fyrst út í Frakklandi haustið 1997 undir heitinu Le livre noir du communisme: Crimes, terreur, répression. Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor þýddi bókina á íslensku og var ritstjóri hennar.

Mannfall af völdum kommúnista[breyta | breyta frumkóða]

Í formála Svartbókarinnar reynir Stéphane Courtois að taka saman, hversu margir hafi týnt lífi af völdum kommúnista.

Samtals eru þetta nær 100 milljónir manna, sem flestar hlutu hörmulegan dauðdaga. Courtois telur, að kommúnisminn verðskuldi þess vegna jafnafdráttarlausa siðferðilega fordæmingu og nasisminn.

Ýmsir glæpir kommúnista[breyta | breyta frumkóða]

Á meðal þeirra glæpa kommúnista, sem lýst er í Svartbókinni, eru:

 • fjöldaaftökur í Rússlandi eftir valdarán bolsévíka (kommúnista) 1917,
 • hungursneyð í Ráðstjórnarríkjunum 1922, sem olli dauða fimm milljóna manna,
 • útrýming Don-kósakkanna 1920,
 • útrýming nær 690 þúsund manna í „hreinsunum“ Stalíns 1937–1938,
 • nauðungarflutningar tveggja milljóna „kúlakka“ (sjálfseignarbænda) í Ráðstjórnarríkjunum 1930–1932,
 • hungursneyð í Ráðstjórnarríkjunum 1932–1933, sem olli dauða sex milljóna manna,
 • nauðungarflutningar ýmissa þjóðflokka í stjórnartíð Stalíns, þar á meðal Volgu-Þjóðverja, Krím-Tatara, Tsjetsjena og Ingúsha,
 • fjöldaaftökur í Kína eftir sigur kommúnista 1949 í borgarastríðinu þar,
 • hungursneyð í Kína 1959–1961, en ágiskanir um fjölda fórnarlamba eru á bilinu 20–43 milljónir manna,
 • hungur og vosbúð í þrælkunarbúðum, aðallega í Ráðstjórnarríkjunum (Gúlagið) og Kína (laogai),
 • þjóðarmorð í Kambódíu,
 • þjóðarmorð í Tíbet.

Umræður um efni Svartbókarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Ribbentrop, utanríkisráðherra Hitlers, og Stalín undirrita griðasáttmála 23. ágúst 1939.

Svartbók kommúnismans hefur verið þýdd á fjölda mála og víða orðið metsölubók. Komið hafa út sérstök greinasöfn um hana á þýsku og frönsku. Margir hafa lokið lofsorði á bókina, en aðrir hafa gagnrýnt hana. Helstu umræðuefnin eru:

 • Hversu margir féllu af völdum kommúnismans? Tveir af höfundum Svartbókarinnar, Jean-Louis Margolin og Nicolas Werth, telja, að ritstjóri bókarinnar, Courtois, hafi ofmetið heildartölu fórnarlambanna. Hún sé nær því að vera 85 en 100 milljónir manna.
 • Ber að telja kommúnisma glæpsamlega stefnu eins og nasisma? Flestir telja, að nasismi sé mannfjandsamleg stefna, enda hafi nasistar stefnt að útrýmingu heilla þjóðflokka, til dæmis gyðinga. Sumir segja, að kommúnistar hafi ekki í sama skilningi stefnt að því að útrýma neinum. Courtois svarar því til í formála Svartbókarinnar, að kommúnistar hafi vissulega stefnt að útrýmingu heilla stétta (til dæmis „kúlakka“ eða sjálfseignarbænda í Rússlandi og Úkraínu) og jafnvel þjóðflokka.
 • Má rekja kúgunina í stærstu kommúnistaríkjunum til marxismans eða var hún fremur í rökréttu framhaldi af sterkri ofbeldishefð í þessum ríkjum, til dæmis Rússlandi og Kína? Courtois svarar því til, að eðlismunur sé á kúguninni fyrir og eftir valdatöku kommúnista, jafnt í Rússlandi og Kína. Til dæmis hafi í Rússaveldi keisarans 3.932 menn verið samtals teknir af lífi af stjórnmálaástæðum allt tímabilið 1825–1917, en kommúnistar hafi ekki haft völd nema í fimm mánuði, fram í mars 1918, þegar þeir hafi tekið fleiri andstæðinga sína af lífi.
 • Önnur spurning er náskyld hinni þriðju. Ljóst er af Svartbókinni, að Stalín var réttur arftaki Leníns, sem var jafngrimmur honum og blóðþyrstur. En var Lenín réttur arfaki Marx? Mátti rekja hið mikla ofbeldi, sem kommúnistar beittu, og skilyrðislausa kröfu þeirra um hlýðni sem hagnýta útfærslu marxismans, þar sem gert var ráð fyrir alræði öreiganna í þágu eins málstaðar, sem væri vísindalega sannaður? Arnór Hannibalsson segir já, en Jón Baldvin Hannibalsson telur Marx mikilvægan gagnrýnanda kapítalisms, sem jafnaðarmenn megi ekki afneita með öllu.

Evrópuráðið samþykkti í janúar 2006 ályktun, þar sem glæpir kommúnistastjórna á tuttugustu öld voru fordæmdir. Ári eftir útkomu Svartbókar kommúnismans í Frakklandi birtist þar Svartbók kapítalismans (Le Livre Noir du Capitalisme), og var hún bersýnilega tekin saman í andmælaskyni við Svartbókina. Hún hefur enn ekki verið þýdd á íslensku.

Fyrri heimildir um glæpi kommúnista[breyta | breyta frumkóða]

Svartbók kommúnismans er ekki fyrsta heimildin á íslensku um glæpi kommúnista. Ýmis önnur rit hafa komið út um sama efni, þótt höfundar þeirra hafi ekki haft sama aðgang að heimildum og höfundar Svartbókarinnar, þar á meðal:

 • Aatami Kuortti: Þjónusta, þrælkun, flótti, þýð. Gunnar Jóhannesson. Kristilegt stúdentafélag, Reykjavík 1938.
 • Jan Valtin: Úr álögum, þýð. Emil Thoroddsen. 1. b. Menningar- og fræðslusamband alþýðu, Reykjavík 1941. 2. b. Útg. „Nokkrir félagar“, Reykjavík 1944.
 • Arthur Koestler o. fl.: Guðinn sem brást. Sex staðreyndir um kommúnisma, þýð. Hersteinn Pálsson. Stuðlaberg, Reykjavík 1950.
 • Viktor Kravchenko: Ég kaus frelsið, þýð. Lárus Jóhannesson. Prentsmiðja Austurlands, Seyðisfirði 1951.
 • Valentin Gonzalez: Bóndinn. El campesino. Líf og dauði í Sovétríkjunum, þýð. Hersteinn Pálsson. Stuðlaberg, Reykjavík 1952.
 • Margarete Buber-Neumann: Konur í einræðisklóm, þýð. Stefán Pjetursson. Ísafold, Reykjavík 1954.
 • Arnór Hannibalsson: Valdið og þjóðin. Safn greina um Sovét. Helgafell, Reykjavík 1963.

Morgunblaðið og fleiri íslensk blöð þreyttust ekki heldur á að upplýsa íslenskan almenning um ódæði kommúnistastjórnanna í austri. Morgunblaðið birti til dæmis 1924 greinaflokk eftir sænska málfræðinginn Anton Karlgren, prófessor í slavneskum fræðum í Kaupmannahafnarháskóla, endursagði greinar breska blaðamannsins Malcolms Muggeridge um hungursneyðina miklu í Úkraíu 1932–1933 og skýrði frá vonbrigðum franska rithöfundarins Andrés Gide með Rússlandsferð sína 1936. Einnig birti það í árslok 1945 greinaflokk Arthurs Koestler, „Trúin á Sovét,“ og greinaflokk um blóðbaðið í Kína 1949 eftir valdatöku kommúnista, sem séra Jóhann Hannesson trúboði skrifaði 1952. Því má segja, að Svartbókin fylli frekar út í myndina, sem til var af kommúnismanum, og dýpki fremur en að þar komi margt á óvart.

Rit tengd Svartbók kommúnismans[breyta | breyta frumkóða]

 • Stéphane Courtois (ritstj.): Svartbók kommúnismans, þýð. og ritstj. ísl. útg. Hannes H. Gissurarson. Háskólaútgáfan, Reykjavík, ágúst 2009. ISBN 978-9979-548-39-3.
 • Horst Möller (ritstj.): Der Rote Holocaust und die Deutschen. Die Debatte um das Schwarzbuch des Kommunismus. Piper-Verlag, München, mars 1999. ISBN 3-492-04119-1.
 • Pierre Rigoulot og Ilios Yannakakis: Un pavé dans l'histoire. Robert Laffont, París, 1998.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Hannes H. Gissurarson: „„Siðlausa blaðamennskan“ var rétt; Morgunblaðið og heimskommúnisminn.“ Morgunblaðið 30. ágúst 2009.
 • Hannes H. Gissurarson: „Hvað er í Svartbók kommúnismans?“ Viðskiptablaðið 10. september 2009.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]