Aatami Kuortti

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Aatami Kuortti (f. 15. desember 1903, Korkankylä, d. 15. apríl 1997, Helsinki) var finnskumælandi prestur á Ingermanlandi, sem flúði til Finnlands 1930.

Kuortti þjónaði frá 1927 evangelísk-lúterskum söfnuðum innan Ráðstjórnarríkjanna, þ.á m. í Lempaala, og lenti í árekstrum við leyniþjónustu ráðstjórnarinnar, sem þá nefndist GPÚ (síðar NKVD og enn síðar KGB). Þegar hann neitaði að njósna fyrir GPÚ var hann hnepptur í fangelsi og dæmdur til dauða í ársbyrjun 1930 en dauðadómnum var breytt í tíu ára þrælkunarvist. Kuortti var vistaður í þrælabúðum við Hvítahaf. Hann byrjaði þegar að skipuleggja flótta sinn og tókst honum að flýja sumarið 1930. Gekk hann í tólf daga í átt að finnsku landamærunum og komst yfir þau til Finnlands.

Kuortti skrifaði bók um reynslu sína, sem kom út í íslenskri þýðingu haustið 1938 undir heitinu Þjónusta. Þrælkun. Flótti. Eftir flóttann settist hann að í Finnlandi og var þar prestur. Hann var eftir fall kommúnismans viðstaddur endurvígslu kirknanna í Ingermanlandi, þar sem hann hafði þjónað.

Verk[breyta | breyta frumkóða]

  • Pappina, pakkotyössä, pakolaisena : inkeriläisen papin kokemuksia Neuvosto-Venäjällä. WSOY 1934, 2. prentun 1935.
  • Präst. Tvångsarbetare. Flykting. Stockholm: Svenska Kyrkans Diakonistyrelse 1935.
  • Þjónusta. Þrælkun. Flótti. Gunnar Jóhannsson þýddi. Reykjavík: Kristilegt stúdentafélag 1938.
  • Þjónusta, þrælkun, flótti. Gunnar Jóhannsson þýddi. Formáli eftir Hannes H. Gissurarson. Reykjavik: Almenna bókafélagið 2016.