Fara í innihald

Stagbrú

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Zakim Bunker Hill-brúin í Boston, Bandaríkjunum.

Stagbrú – eða skástagabrú – er brú, þar sem brúarplatan er stöguð í eina eða fleiri súlur (eða turna) með hallandi stálköplum.

Skipta má stagbrúm í tvo megin flokka eftir útfærslu staganna: Í vængstögun eða blævængsútfærslu liggja stögin með breytilegum halla frá ofanverðri burðarsúlunni, eins og teinar í blævæng, en í harpstögun eða hörpuútfærslu eru stögin nokkurn vegin samsíða eins og strengir í hörpu.

Stagbrýr eru taldar hagstæðasta burðarformið fyrir nokkur hundruð metra haflengdir, en einnig geta aðstæður ráðið því hvaða gerð af brú er talin hagstæðust. Stagbrýr ná að spanna u.þ.b. helminginn af þeirri vegalengd sem unnt er með hengibrúm, og því eru lengstu brýr í heiminum hengibrýr.

Tvær útfærslur af stagbrúm: blævængs- og hörpuútfærsla.
Þrjár gerðir burðarsúlna fyrir miðstögun, þ.e. eina röð af stögum sem fest eru í miðja brúarplötuna.
Fjórar gerðir burðarsúlna fyrir kantstögun, þ.e. tvær raðir af stögum sem fest eru í báða kanta brúarplötunnar.

Meginkostir stagbrúa eru:

  • Þær eru stífari en hengibrýr, þannig að brúargólfið hreyfist mun minna við venjulegt álag.
  • Hægt er að byggja plötuna í áföngum út frá turninum, og því nýtast stögin bæði sem tímabundið og varanlegt burðarkerfi fyrir brúargólfið.
  • Í samhverfum brúm eru láréttu kraftarnir í jafnvægi, og því er ekki þörf á öflugum akkerum, eins og í hengibrúm.
  • Enn einn kostur stagbrúa er að burðarsúlurnar geta verið eins margar og henta þykir, allt frá einni súlu og upp úr. Í hengibrúm eru burðarsúlurnar yfirleitt tvær.
  • Loks má nefna að stagbrýr er hægt að hanna með mildri hliðarsveigju, en hengibrýr liggja ávallt beint af augum.

Athyglisverðar stagbrýr[breyta | breyta frumkóða]

Rama VIII-brúin, í Bangkok í Tælandi, er ósamhverf brú með einni súlu, 300 m haf.
Stagbrú í Bresku Kólumbíu, Kanada, 340 m haf.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]