Signa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Signa (á))
Signa
Signa og vatnasvið hennar. Hún rennur í gegnum París og út í Ermarsundið.
Signa og vatnasvið hennar. Hún rennur í gegnum París og út í Ermarsundið.
Uppspretta Búrgúnd-hérað
Árós Signuflói við Ermarsund, nálægt Le Havre
Lönd á vatnasviði Frakkland, Belgía
Lengd 776 km
Hæð uppsprettu 471 m
Meðalrennsli 563 m³/s (við ósa)
Vatnasvið 78.650 km²
Hnit 49°26′05″N 0°07′03″A / 49.4347°N 0.1175°A / 49.4347; 0.1175
Signa getur einnig átt við íslenska kvenmannsnafnið Signa eða sögnina að signa sem er kristinn gjörningur.

Signa (franska: Seine, borið fram 'sen(g)') er ein af mestu ám Frakklands. Hún kemur upp í Búrgúnd-héraði, nálægt borginni Dijon, rennur um París og Rúðuborg og til sjávar í Signuflóa, í grennd við hafnarborgina Le Havre. Neðri hluti árinnar er afar lygn og því er hún mikilvæg flutningaleið skipum og fljótabátum.

Uppruni nafnsins[breyta | breyta frumkóða]

Nafnið Signa (Seine) er komið úr latínu, Sequana, sem aftur er sagt komið úr gallísku Sicauna, sem talið er merkja "áin helga – (Helgá)" eða "fljótið helga". (Gallíska var keltneskt tungumál, sem talað var í Gallíu, og skiptist í margar mállýskur).

Neðsti hluti árinnar, í Normandí, var að fornu kallaður Rodo eða Roto, sem er keltneskt orð sem merkir á. (Árheitið Rhône í Suður-Frakklandi er dregið af þessu sama orði). Þessu til frekari stuðnings má nefna að nafnið Rouen (Rúða eða Rúðuborg) var Rotomagos á gallísku, sem merkir „Árvellir“ (magos í gallísku var upphaflega grasflöt, völlur, en fékk síðar merkinguna verslunarstaður (kaupvangur – kaupangur), sbr. Rúðu-borg).

Signa nálægt Invalides-brúnni í París.

Siglingar og brýr[breyta | breyta frumkóða]

Fjöldi brúa hefur verið byggður yfir Signu, þar af um 36 í París. Meðal þeirra eru Pont Louis-Philippe og Pont Neuf, sú síðarnefnda er frá 1607. Af öðrum brúm má nefna Normandí-brúna (Pont de Normandie), sem er einhver lengsta stagbrú í heimi, og tengir borgirnar Le Havre og Honfleur.

Signa er fær hafskipum upp til Rúðuborgar, sem er 120 km frá sjó, og þar gætir flóðs og fjöru. Hægt er að komast á fljótabátum upp til Bar-sur-Seine sem er 560 km frá ósum árinnar. Þar fyrir ofan er hægt að komast um á skemmtibátum. Við París, um 446 km frá ármynninu, er áin aðeins í 24 m hæð yfir sjávarmál og er hún því afar lygn og auðveld til siglinga. Það nýttu víkingar sér að fornu, og komust á skipum sínum alla leið upp til Parísar.

Í dag lítur áin nokkuð öðruvísi út en á víkingaöld. Á milli ánna Signa og Oise liggur skipaskurður rétt norðan og austan við höfuðborg Frakklands, París. Skipaskurðurinn endar hjá borginni Conflans-Sainte-Horine, og liggur um borgirnar Bougival, Surenes og Saint Mammés. Nokkur hæðarmunur er á byrjunar- og endapunkti skipaskurðarins, og því fylgja margir skipalásar. Annar skipaskurður var byggður sem opnaði siglingaleið alla leið til Troyes, en honum hefur nú verið lokað.

Meðaldýpt árinnar Signu við París er um átta metrar en var áður minna, á 18. öld þegar samfelldu rennsli var haldið í skefjum með sandbökkum í litlum skurði. Í dag er dýpinu stjórnað með manngerðum bökkum þar sem hvor hliðin fyrir sig er full af vatni. Rennsli árinnar er þó lítið, aðeins um nokkrir rúmmetrar á sekúndu, en getur vaxið mikið í flóðum. Sérstök lón fyrir ofan París viðhalda jöfnu rennsli árinnar í gegnum borgina, en koma þó ekki í veg fyrir vatnavexti í árfarveginum þegar flóð verða.

Mikið flóð varð í Signu í janúar 1910. Þá flæddi yfir borgina og hækkaði vatnsborðið um allt að 8,62 metra. Aftur flæddi árin 1924, 1955, 1982 og 1999-2000.

Vatnasvið árinnar er 78.910 ferkílómetrar. Skóglendi er 2% af vatnasviðinu er skóglendi, en 78% ræktað land. Nokkrar borgir með yfir 100.000 íbúa eru á svæðinu, auk Parísar, en þær eru Le Havre, Rouen og Rheims.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Sagnir eru um að eftir að Jóhanna af Örk var brennd á báli árið 1431, hafi ösku hennar verið dreift í Signu.

Napóleon, sem dó 1821, óskaði eftir því í erfðaskrá sinni að verða grafinn á bökkum Signu, en eftir því var ekki farið.

Árið 1991 voru Signubakkar í París (Vinstri bakkinn – Rive Gauche og Hægri bakkinn – Rive Droite) settir á heimsminjaskrá UNESCO. Sjá vefsíðu UNESCO — Signubakkar, París

Listmálarar[breyta | breyta frumkóða]

Mynd eftir George Seurat: Sunnudagur á La Grande Jatte (1884-1886), sem er eyja í Signu.

Signa hefur veitt mörgum listmálurum innblástur á 19. og 20. öld, m.a.:

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]