Fara í innihald

Normandí-brúin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Normandí-brúin (franska: Pont de Normandie) er stagbrú yfir ósa Signu, og tengir borgirnar Le Havre og Honfleur í Normandí, norður Frakklandi. Heildarlengd brúarinnar er 2.143 m, en hafið yfir Signu, milli meginstöpla, er 856 m.

Bygging brúarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Brúin var hönnuð af hópi verkfræðinga undir stjórn dr. Michel Virlogeux, í samráði við arkitektana François Doyelle og Charles Lavigne. Bygging brúarinnar hófst 1988 og stóð yfir í 7 ár. Brúin var formlega vígð 20. janúar 1995, en umferð hafði verið hleypt á hana í árslok 1994.

Þegar brúin var tekin í notkun, var hún bæði lengsta stagbrú í heimi (miðað við heildarlengd), og einnig með lengsta meginhafið (856 m), sem var meira en 250 m lengra milli burðarsúlna en fyrra metið. Þetta met féll 1999, þegar Tatara-brúin í Japan var tekin í notkun. Metið fyrir heildarlengd féll árið 2004, þegar Rio-Antirio-brúin í Grikklandi var opnuð fyrir umferð, en hún er 2.883 m.

Ákveðið var að byggja stagbrú, af því að hún var bæði ódýrari, og stöðugri gagnvart vindálagi en hengibrú. Einnig þóttu jarðfræðilegar aðstæður henta betur fyrir stagbrú (mjúk leirlög), því að þar nægir að gera undirstöður fyrir tvo stöpla, en í hengibrúm þarf einnig tvö risavaxin akkeri til þess að halda í burðarkaplana. Loks hafði þjóðarstolt Frakka nokkur áhrif, þ.e. vilji til að byggja lengstu stagbrú í heimi.

Normandí-brúin kostaði um 40 milljarða íslenskra króna. Tekinn er vegatollur af þeim sem aka um brúna.

Gerð brúarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Brúarplatan er 23.60 m breið, og skiptist í 4 akreinar fyrir bíla og tvo göngustíga. Súlurnar eru steinsteyptar og eru í lögun eins og öfugt Y. Þær eru 215 m háar og vega yfir 20.000 tonn. Meira en 19.000 tonn af stáli fóru í brúna og 184 stög úr stálköplum voru notuð. Hæðin frá vatnsborði Signu upp undir brúargólfið er rúmir 50 m, enda er áin skipgeng.

Útreikningar leiddu í ljós að við vissar aðstæður gætu lengstu stögin farið að sveiflast. Til þess að koma í veg fyrir það voru stögin tengd saman með þvervírum, sem setja nokkurn svip á brúna.

Brúin er talin verkfræðilegt og framkvæmdalegt afrek, og hefði verið óhugsandi 20 árum fyrr, þegar ekki var völ á nútíma tölvu- og mælitækni. Brúin er einnig fallegt mannvirki, sem almenningur í Normandí lítur til með stolti, og telur vera tákn fyrir héraðið, eins og Camembert-osturinn og Calvados-vínið.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]