Spirou chez les soviets

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Spirou chez les soviets (Íslenska Svalur í Sovétríkjunum) er fimmtánda bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom út árið 2020. Höfundar sögunnar eru Frakkarnir Fred Neidhardt og Fabrice Tarrin, en sá síðarnefndi var jafnframt teiknari hennar. Tarrin hafði áður teiknað söguna Le Tombeau des Champignac í sömu ritröð. Bókin kom út í íslenskri þýðingu árið 2023.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Sögusviðið er Kalda stríðið á sjöunda áratug síðustu aldar. Svalur og Valur vakna á setri Sveppagreifans og uppgötva að greifanum hefur verið rænt af fulltrúum Sovétríkjanna. Við ránstilraunina höfðu illvirkjarnir beitt geislum sem minna á dáleiðslugeisla Zorglúbbs sem hafa þau áhrif á íkornann Pésa að unnt er að nota hann sem áttavita sem vísar á hvar greifinn sé niður kominn.

Félagarnir halda á fund yfirmanns síns hjá Tímaritinu Sval og sannfæra hann um að fjármagna ferðalag þeirra til Sovétríkjanna, með þeim rökum að langt sér um liðið frá því „keppinautarnir gerðu slíkt hið sama“, með vísun til sögunnar um Tinna í Sovétríkjunum. Þeir eru sendir af stað og þykjast vera fulltrúar kommúnísks barnablaðs. Í Moskvu upplifa þeir mikið lögregluríki en vingast við hina stóru og sterklegu Natalíu, fyrrum kúluvarpara og gullverðlaunahafa frá Ólympíuleikunum 1952 sem stjórnvöld hafa falið að hafa eftir með þeim.

Valur og Natalía þamba viský á meðan Svalur læðist út í leit að greifanum. Í ljós kemur að Sveppagreifinn er fangi hjá erfðafræðingnum Trofim Lysenko sem hefur uppgötvað kommúnista-genið sem leynist í hverri lífveru. Hann hyggst dreifa efni sem magnar upp þetta gen og gera þannig alla heimsbyggðina að kommúnistum, til þess þarf hann hjálp frá greifanum sem er mesti sveppasérfræðingur á byggðu bóli. Greifinn harðneitar en eftir að Lysenko lætur hann anda að sér efnablöndunni breytist hann í sanntrúaðan kommúnista á augabragði. Svalur nær að brjóta sér leið inn í rammgerða rannsóknarstofuna með hjálp ungrar stúlku, en Lysenko nær að yfirbuga hann.

Svalur og Valur eru sendir í fangabúðir í Síberíu ásamt Natalíu, sem er refsað fyrir að hafa misst sjónar á Sval. Þar búa þau við gríðarlegt harðræði, en verður þeim til bjargar að fangabúðastjórinn hefur tekið ástfóstri við Belgíu og felur félögunum að steikja fyrir sig ekta franskar kartöflur. Þau frétta að sovésk stjórnvöld ætli að hrinda áætlun sinni í framkvæmd með hjálp langdrægra eldflauga og afráða því að strjúka og halda til Moskvu í von um að afstýra því.

Félagarnir koma til Moskvu í þann mund sem verið er að skjóta eldflaugunum á loft. Í ljós kemur að Valur hafði tekið með sér sprautur úr fórum Sveppagreifans með ólíkum blöndum: einni sem framkallar ofurstyrk, annarri sem eykur heilastarfsemina gríðarlega og þeirri þriðju sem veldur því að sá sem sprautaður er eldist gríðarlega hratt. Sveppagreifinn kemur að þeim og spyr hvað sé á seyði? Svo virðist sem Svalur og Valur hafi verið staðnir að verki og áætlun Lysenko nær fram að ganga. Fjórar risavaxnar sprengjur springa hver í sínu heimshorni og áhrifanna gætir um víða veröld.

Upp virðist runnin tíð alræðis öreiganna. Dýr og menn skipta öllu jafnt. Íkorninn Pési býður öðrum smádýrum að borða hneturnar sínar, Sveppagreifinn hefur opnað setur sitt fyrir heimilislausum fjölskyldum og Valur ritar innblásna pistla með árásum á kapítalista og borgarastétt. Kommúnisminn hefur sigrað!

Eða hvað? nánast jafnskyndilega virðist allt umturnast. Borgarstjóri Sveppaborgar, sem var í miðri innblásinni ræðu um sigur byltingarinnar breytist snögglega í gallharðan frjálshyggjumann og lýsir því yfir að allar samfélagslegar eigur verði nú einkavæddar. Sveppagreifinn lætur lögregluna reka heimilisleysingjanna af óðali sínu og Pési hrekur á brott smádýrin og étur einn sínar hnetur. Greifinn útskýrir hvernig á þessu stendur: þegar hann hitti félaganna í Moskvu tókst honum að sprauta út í efnablöndu Lysenko lausninni sem veldur öldrun. Kommúnistagenið varð því ríkjandi í öllum jarðarbúum, en það eltist hratt og áhrifin hurfu því að skömmum tíma liðnum.

Umbreytingin frá kommúnismanum tekur á sig ýmsar myndir. Teiknimyndablaðið Svalur er sett undir stjórn Viggós viðutans, sem er orðinn smjörgreiddur jakkafatagutti sem lætur útvista störfum gömlu starfsmannanna. Þegar Svalur og Valur ganga fram á teiknarann Snjólf, sem er orðinn ölmusumaður, er Sval misboðið. Honum verður ljóst að hjartalaus gróðrahyggja er skaðleg fyrir samfélagið en jafnaðarhugsjónin verður að koma innan frá og hann hyggst tala fyrir félagslegu réttlæti. Á sama tíma í Sovétríkjunum hefur dólgakapítalismi tekið völdin með óheftri gróðahyggju og auglýsingaskrumi.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Trofim Lysenko er raunveruleg söguleg persóna. Hann varð alræmdur í valdatíð Stalíns fyrir hugmyndir sínar um kommúníska erfðafræði og fyrir að ofsækja aðra vísindamenn sem hann taldi ekki aðhyllast kórrétta hugmyndafræði.
  • Í sögunni hafa útsendarar Sovétríkjanna náð að handsama J. Edgar Hoover stjórnanda FBI og gallharðan and-kommúnista. Örlítill skammtur af blöndu Lysenko gerir hann að blóðrauðum bolsa á augabragði.
  • Forsetamorðinginn Lee Harvey Oswald kemur fyrir í örlitlu hlutverki sem bandarískur kommúnisti í Síberíu, en Oswald dvaldist um skeið í Sovétríkjunum.
  • Níkíta Khrústsjov leiðtogi sovéska kommúnistaflokksins kemur einnig við sögu í bókinni.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Bókin Svalur í Sovétríkjunum var gefin út af Froski útgáfu árið 2023 í íslenskri þýðingu Anítu K. Jónsson. Hún er merkt sem 59. bókin í ritröðinni þótt í raun heyri hún ekki til opinberu ritraðarinnar.