Lee Harvey Oswald

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Lee Harvey Oswald
Lee Harvey Oswald
Lee Harvey Oswald sem hermaður í landgönguliði Bandaríkjahers.
Fædd(ur) 18. október 1939
New Orleans, Louisiana, Bandaríkjunum
Látin(n) 24. nóvember 1963 (24 ára)
Dallas, Texas, Bandaríkjunum
Maki Marina Nikolajevna Prusakova (g. 1961)
Börn 2
Undirskrift

Lee Harvey Oswald (18. október 1939 – 24. nóvember 1963) var bandarískur marxisti og fyrrum landgönguliði í Bandaríkjaher sem myrti John F. Kennedy Bandaríkjaforseta þann 22. nóvember árið 1963. Oswald hafði verið leystur úr herþjónustu eftir að hann gekk til liðs við Sovétríkin í október árið 1959. Hann bjó í hvítrússnesku borginni Minsk þar til í júní árið 1962, en þá sneri hann heim til Bandaríkjanna ásamt rússneskri eiginkonu sinni, Marínu, og settist að í Dallas. Oswald hlaut styrk frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna til þess að snúa aftur heim þar sem umsókn hans um sovéskan ríkisborgararétt hafði verið synjað.[1]

Fimm rannsóknarlið sem skipuð voru af ríkisstjórninni komust að þeirri niðurstöðu að Oswald hefði skotið Kennedy til bana frá sjöttu hæð Texas-skólabókasafnsins á meðan Kennedy ók á opnum bíl um Dealey-torg í Dallas. Um 45 mínútum eftir að Oswald drap Kennedy skaut hann einnig lögreglumanninn J. D. Tippit til bana úti á götu.[1] Oswald flúði síðan inn í kvikmyndahús en var þar handtekinn fyrir morðið á Tippit. Oswald var síðan ákærður fyrir morðið á Kennedy en neitaði sök og sagðist vera „blóraböggull“. Tveimur dögum síðar réðst næturklúbbseigandinn Jack Ruby að Oswald í beinni útsendingu í kjallara lögreglustöðvarinnar í Dallas og skaut hann til bana.

Í september árið 1964 úrskurðaði Warren-nefndin að Oswald hefði verið einn að verki og hefði myrt Kennedy með því að skjóta þremur skotum úr glugga Texas-skólabókasafnsins.[2] Þessi niðurstaða var í samræmi við fyrri rannsóknir alríkislögreglunnar, leyniþjónustunnar og lögreglunnar í Dallas. Niðurstaðan er mjög umdeild þrátt fyrir að rannsóknir á byssukúlunum, vettvangi glæpsins og vitnisburði sjónarvotta styðji hana. Skoðanakannanir benda til þess að meirihluti Bandaríkjamanna efist um opinberu skýringuna á morðinu og fjöldi samsæriskenninga hefur verið lagður fram í gegnum árin.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „Einkennilegur æviferill“. Morgunblaðið (26. nóvember 1963), skoðað þann 4. nóvember 2018.
  2. „Fullsannað að Oswald var einn morðinginn“. Vísir (28. september 1964), skoðað þann 4. nóvember 2018.