Skortstaða
Skortstaða (e. short position) er aðferð sem menn nota í fjármálum til þess að hagnast á verðfalli verðbréfa eða annarra verðmæta til dæmis gjaldmiðla eða hrávara, með því að fá þau lánuð til sölu með það að markmiði að kaupa aftur ódýrara seinna og skila til lánveitanda. Sá sem tekur skortstöðu í eign á minna en ekki neitt í eign, það er að segja skuldar hana að fullu. Þeir aðilar sem taka þátt í skortstöðum með láni verðbréfa eru venjulega langtímafjárfestar sem hafa trú á verðhækkun til langs tíma en eru ekki að eltast við skammtímasveiflur. Lánveitandi fær greiðslu frá lántaka fyrir lán verðbréfanna.
Skortsala (e. short selling) er þegar eign er fengin að láni og hún síðan seld í því augnamiði að kaupa hana aftur á lægra verði. Til að endurgreiða lánið þarf að kaupa eignina aftur. Skortsala er meðal annars notuð þegar veðjað er á að eign muni lækka í verði. Sá sem tekur skortstöðu getur þá keypt eignina á lægra verði en hann seldi hana á og hagnast þegar hann hefur losað sig úr skortstöðu.[1]
Þeir sem hafa tekið skortstöðu í einhverjum verðmætum er stundum sagðir hafa tekið „stöðu gegn“ þeim, það er að segja hafi trú á lækkun þeirra.
Andstæðan við skortstöðu er gnóttstaða.
Dæmi
[breyta | breyta frumkóða]Jón er þess fullviss að verð hlutabréfa í Vogun vinnur hf. sé við það að falla. Hann snýr sér til Sigurðar sem á hlutabréf í félaginu, fær 1000 hlutabréf að láni og greiðir Sigurði 50.000 krónur fyrir lánið. Jón selur strax bréfin sem á núverandi gengi eru að verðmæti 1.000.000 króna. Hlutabréfin falla um 20% og Jón kaupir þessi 1000 bréf aftur en núna greiðir hann aðeins 800 krónur fyrir bréfið eða samtals 800.000 krónur. Bréfunum skilar hann aftur til Sigurðar en mismuninum á sölu- og kaupverði, 200.000 krónum, heldur hann eftir. Hagnaður Jóns af viðskiptunum eru því 150.000 krónur.
Alger skortstaða
[breyta | breyta frumkóða]Alger skortstaða (e. naked short position) er það kallað þegar menn sleppa fyrsta skrefinu, þ.e. að fá hlutabréfin lánuð. Þá selur viðkomandi bréf í ákveðnu félagi strax á núverandi gengi, með loforði um að afhenda bréfin eftir til dæmis mánuð. Hann er þá ekki aðeins að veðja á verðfall bréfanna heldur einnig að hann geti eftir mánuð keypt bréfin til þess að standa við loforðið.
Áhætta
[breyta | breyta frumkóða]Skortstaða er áhættusamur fjármálagerningur. Ef gengi hlutabréfa í félagi sem tekin er skortstaða í hækkar verður tap á gerningnum sem viðkomandi innleysir þegar hann kaupir bréfin til að afhenda þeim sem hann fékk þau lánuð hjá. Á hinn bóginn getur hagnaðurinn verið gífurlegur, sérstaklega á hlutabréfamörkuðum eða í félögum þar sem sveiflur eru miklar. Því eru það venjulega svokallaðir Vogunarsjóðir sem eru stórtækastir í skortstöðum.
Sem dæmi um vel heppnaða skortstöðu má taka Northern Rock bankann í Bretlandi. Í febrúar 2007 var gengi hlutabréfa í bankanum 12,5 pund. Fjárfestar voru þá þegar farnir að spá verðfalli bréfanna vegna hugsanlegs lausafjárvanda í kjölfar tapaðra útlána til húseigenda í Bandaríkjunum. Í september 2007 féll gengið undir 2 pund. Talið er að allt að þriðjungur hlutafjár bankans hafi þá verið bundið í skortstöðum og hagnaður fjárfesta af þeim hafi verið meira en 1 milljarður punda.
Í sumum löndum eru skortstöður bannaðar með lögum eða þeim settar strangar skorður. Þetta er meðal annars vegna þess að víðtækar skortstöður geta haft áhrif á verðmyndun hlutabréfa á markaði og ýkt verðsveiflur. Einnig er spurning um hversu siðlegt það er að vogunarsjóðir geti haft stórfelldan hag af því að ýta undir áhlaup á fyrirtæki í viðkvæmum rekstri, eins og banka. Það er ekki síst hættulegt á krepputímum, því að gjaldþrot eins mikilvægs fyrirtækis getur leitt til keðjuverkunar á markaði.
Á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Skortstöður eru ekki bannaðar á Íslandi, né þeim settar aðrar takmarkanir í lögum. Þrátt fyrir þetta er ekki vitað til þess að skortstöðum sé mikið beitt í íslensku fjármálalífi. Lífeyrissjóðum er ekki heimilt að taka þátt í skortstöðum vegna þeirra ströngu fjárfestingaheimilda sem þeim er gert að starfa eftir. Flest íslensk fjármálafyrirtæki taka ekki þátt í skortstöðum viðskiptavina sinna vegna áhættu þeim samfara.
Í janúar 2008 tilkynnti Kauphöll Íslands að í undirbúningi væri að koma á fót lánamarkaði með verðbréf í því skyni að leiða saman aðila sem vilja lána verðbréf og þá sem vilja fá þau að láni.[2]
4. desember 2007 ráðlagði Den Danske Bank viðskiptavinum sínum að taka stöðu gegn krónunni, það er að segja að veðja á gengislækkun íslensku krónunnar.[heimild vantar]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Gylfi Magnússon. „Hvað er skortsala?“. Vísindavefurinn 26.6.2008. http://visindavefur.is/?id=47335. (Skoðað 9.5.2010).
- ↑ Stefnt að stofnun lánamarkaðar með verðbréf. Morgunblaðið.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Gylfi Magnússon. „Hvað er skortsala?“. Vísindavefurinn 26.6.2008. http://visindavefur.is/?id=47335. (Skoðað 9.5.2010).
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- „Hvað er skortsala?“. Vísindavefurinn.
- Umfjöllun á vef BBC News um Northern Rock - Skoðað 12. nóvember 2007
- Danske Bank ráðleggur að taka stöðu gegn krónu - Viðskiptablaðið á netinu, skoðað 5. desember 2007
- Lánamarkaður með hlutabréf í pípunum - Vísir.is - skoðað 23.01.2008