Fara í innihald

Rómverskt skattland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Skattlönd Rómaveldis)
Kort af Rómaveldi þar sem skattlöndin, eftir árið 120, eru merkt.

Rómverskt skattland (latína: provincia, ft. provinciae) var stærsta stjórnsýslueining Rómaveldis utan við Appennínaskagann. Skattlöndum var venjulega stjórnað af fyrrum ræðismönnum eða pretorum sem síðar gátu vænst þess að fá sæti í öldungaráðinu. Undantekning frá þessu var gerð þegar Ágústus keisari gerði Egyptaland að rómversku skattlandi 30 f.Kr. og setti yfir það riddara.

Á lýðveldistímanum var landstjóri skipaður yfir skattlandið til eins árs í senn. Venjulega var skattlöndum þar sem meiri vandræða var að vænta skipaður landstjóri með meiri reynslu. Dreifing herfylkja um skattlöndin fór líka eftir því hversu mikilla vandræða var að vænta þar.

Fyrsta rómverska skattlandið var Sikiley 241 f.Kr. eftir að Rómverjar höfðu náð henni undir sig í Fyrsta púnverska stríðinu 264 - 241 f.Kr.

Þegar Ágústus stofnaði principatið eftir borgarastyrjöldina, valdi hann sjálfur landstjóra yfir þau landamæralönd rómverska heimsveldisins sem voru hernaðarlega mikilvægust. Þannig urðu skattlönd á hernaðarlega mikilvægum stöðum (venjulega við landamæri ríkisins) að keisaralegum skattlöndum, en hin að skattlöndum öldungaráðsins.

Fjöldi og stærð skattlandanna var breytilegur og háður stjórnmálavafstrinu í Róm. Á tímum keisaradæmisins var stærstu eða best vörðu skattlöndunum, eins og Pannóníu og Móesíu, skipt í nokkur minni skattlönd til að koma í veg fyrir að einn landstjóri fengi of mikil völd í hendur.