Fara í innihald

Aegyptus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rómverskur peningur með mynd Hadríanusar öðrum megin og Egyptalandi hinum megin í líki konu sem situr á kornkörfu.

Aegyptus var rómverskt skattland stofnað árið 30 f.Kr. eftir sigur Octavíanusar (sem síðar var þekktur sem Ágústus keisari) á Kleópötru, drottningu Egyptalands, og Markúsi Antoníusi. Octavíanus innlimaði Egyptaland í Rómaveldi og skipaði Gaius Cornelius Gallus fyrsta landstjóra þar. Skattlandið náði yfir mest af því sem í dag telst til Egyptalands fyrir utan Sínaískaga en Rauðahafsströndin varð ekki hluti af því fyrr en í valdatíð Cládíusar. Aegyptus átti landamæri að skattlöndunum Creta et Cyrenaica (Krít og Kyrenaiku) í vestri og Iudaea (Júdeu) í austri. Aegyptus var mikilvægt kornræktarsvæði.

Gríska var stjórnsýslumál í skattlandinu og latína náði þar aldrei góðri fótfestu. Kristni var boðuð þar af Markúsi guðspjallamanni sem stofnaði patríarkadæmi í Alexandríu árið 33 e.Kr. Þegar Rómaveldi skiptist í tvennt varð Egyptaland hluti af Austrómverska ríkinu og hnignaði hægt. Árið 415 voru gyðingar reknir frá Alexandríu og heimspekingurinn Hýpatía myrt af kristnum múgi sem markar endalok hellenískrar menningar.

Persaveldi Sassanída reyndu að vinna landið af Býsantíum um 620. Arabíski herforinginn 'Amr ibn al-'As lagði svo landið undir Ómar mikla kalífa 640-641. Egyptar, sem þá voru lítt hallir undir keisaradæmið, veittu ekki mikla mótspyrnu.