Silfurberg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Silfurberg frá Dixon, New Mexico

Silfurberg er tært afbrigði af kristölluðum kalksteini (kalsít eða kalkspat) og er mjög fágætt utan Íslands enda gjarnan kennt við Ísland á erlendum tungumálum, sbr. Iceland spar á ensku. Ekkert silfur er í silfurbergi, en nafnið er dregið af því að það er silfurtært. Silfurberg klofnar vel í tígla og klýfur ljósið í tvo geisla sem sveiflast hornrétt hvor á annan. Þessir eiginleikar greina silfurberg frá öðrum kalksteini. Efnasamsetningin er kolsúrt kalk (kalsíum karbónat), Ca[CO3], harkan er 3 og eðlismassinn 2,71.

Rannsóknir[breyta | breyta frumkóða]

Danski fræðimaðurinn Rasmus Bartholin lýsti fyrstur hinu tvöfalda ljósbroti í silfurbergi í bók sinni Experimenta crystalli Islandici (1669). Síðan hafa fjölmargir vísindamenn byggt rannsóknir á því, svo sem Christian Huygens, Isaac Newton og margir fleiri. Rekur Leó Kristjánsson þá sögu í neðangreindum ritgerðum.

Helgustaðanáma[breyta | breyta frumkóða]

Mesta silfurbergsnáma hér á landi er á Helgustöðum við Reyðarfjörð. Stærstu og tærustu kristallarnir hafa fundist þar á dálitlu svæði í holum og bergsprungum fullum af rauðleitum leir, og virðist leirinn hafa verndað kristalana. Í Helgustaðanámu var silfurberg fyrst sótt á 17. öld, en ekki var farið að vinna það fyrr en um 1804, og ekkert að ráði fyrr en eftir 1850. Vinnslan stóð síðan með hléum fram um miðja 20. öld.

Stærstu silfurbergskristallar sem fundist hafa komu úr Helgustaðanámu, og voru margir þeirra alveg tærir og gallalausir. Flestir þeirra fóru í vinnslu, en nokkrir eru á söfnum erlendis. Um aldamótin 1900 fékkst úr námunni stærsti kristallinn sem sögur fara af, um 300 kg að þyngd, en því miður var hann klofinn niður til vinnslu og er ekki til nákvæm lýsing á honum.

Silfurberg er mjög stökkt og viðkvæmt í vinnslu og þarf því að grafa eftir því með handverkfærum, helst tréfleygum. Silfurbergið þolir illa högg og koma þá brestir í það. Ef mikið er um bresti missir silfurbergið tærleikann og verður hvítleitt. Slíkt silfurberg var kallað „rosti“. Talið er að miklar skemmdir hafi orðið á silfurberginu í Helgustaðanámu þegar sprengiefni var notað í vinnslunni [heimild vantar].

Aðrar námur[breyta | breyta frumkóða]

Silfurbergsnáma er í Hoffellsdal í Hornafirði og var unnið þar öðru hverju um miðja 20. öld. Í Djúpadal við Djúpafjörð er silfurberg, en aldrei hefur verið unnið þar neitt að ráði. Þá hefur það fundist hjá Ökrum á Mýrum, en lítið er þar af nothæfu silfurbergi. Fyrir utan þessa fjóra staði má víða finna smáagnir af silfurbergi í holum og sprungum.

Utan Íslands hefur silfurberg verið unnið á Spáni, Síberíu, Japan, Suður-Afríku og á 2–3 stöðum í Bandaríkjunum.

Notkun[breyta | breyta frumkóða]

Íslenska silfurbergið var áður mikið notað í ljósfræðitæki, en nú eru gjarnan notuð plastefni með áþekka eiginleika.

Guðjón Samúelsson húsameistari notaði silfurberg til skrauts í nokkrum byggingum, t.d. Landakotskirkju, Þjóðleikhúsinu og Háskóla Íslands. Eftir að farið var að steina hús að utan, var stundum blandað dálitlu af silfurbergi í steininguna til þess að glampaði á hana í sólskini.

Óstaðfestar tilgátur eru um að silfurbergskristallar hafi verið notaðir sem sólarsteinar á miðöldum. Nýlegur fornleifauppgröftur, þar sem silfurberg fannst í Bresku herskipi frá 16. öld, bendir samt til þess að það hafi eitthvað verið notað sem siglingartæki.[1]

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Gannon, Megan. „"First Evidence of Viking-Like 'Sunstone' Found"“, skoðað þann 6 mars 2013.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Helgi H. Eiríksson: Silfurberg. Iðnsaga Íslands II, Rvík 1943:74-80.
  • Kristín Gísladóttir: Silfurberg unnið í Hoffelli. Skaftfellingur, 17. ár, Höfn 2004:75–82.
  • Leó Kristjánsson: Silfurberg: einstæð saga kristallanna frá Helgustöðum. Jökull 50, Rvík 2001:95-108.
  • Leó Kristjánsson: Minnisblöð og heimildaskrá varðandi silfurberg og þátt þess í þróun raunvísinda og ýmisskonar tækni, einkum á 19. öld. Raunvísindastofnun Háskólans, skýrsla 07-2001, 160 bls.
  • Leó Kristjánsson: Um silfurberg frá Helgustöðum og þróun vísinda. Glettingur 12(3), Egilsstöðum 2002:35-39.