Sólveig Anna Jónsdóttir
Sólveig Anna Jónsdóttir (f. 1975) er núverandi formaður Eflingar og aðgerðasinni. Hún var formaður íslandsdeildar Attac-samtakanna og einn hinna svokölluðu nímenninga sem ákærðir voru vegna mótmæla í Alþingishúsinu 8. desember 2008 í tengslum við búsáhaldabyltinguna. Sólveig starfaði sem ómenntaður leikskólastarfsmaður hjá Reykjavíkurborg þar til hún var kjörin formaður Eflingar 2018.
Formennska hjá Eflingu
[breyta | breyta frumkóða]Sólveig tilkynnti þann 29. janúar 2018 um framboð sitt til formanns stéttarfélagsins Eflingar ásamt nýrri stjórn undir nafninu B-listinn[1] gegn frambjóðanda uppstillingarnefndar, Ingvari Vigur Halldórssyni.[2] Fráfarandi formaður Sigurður Bessason bauð sig ekki fram til endurkjörs eftir að hafa gengt formensku í um tvo áratugi.[3] Var þetta í fyrsta skipti í tuttugu ára sögu Eflingar þar sem kosið var um formann.[4] Fram að því hafði verið sjálfkjörið í stjórn félagsins þar sem aldrei hafði áður komið fram mótframboð. Í kosningunum var Sólveig Anna kosinn nýr formaður með um 80% atkvæðum og hlaut B-listinn 7 af 15 stjórnarmönnum að auki.[5]
Sólveig sagði af sér sem formaður Eflingar 31. október 2021 eftir harðvítugar deilur við starfsfólk félagsins.[6] Hún bauð sig hins vegar aftur fram til formanns þann 15. febrúar 2022 og var kjörin á ný með 52% atkvæða.[7]
Eftir að Sólveig Anna tók aftur við sem formaður Eflingar stóð hún fyrir hópuppsögnum á starfsfólki stéttarfélagsins. Uppsagnirnar voru mjög umdeildar og gagnrýnendur þeirra, þar á meðal Drífa Snædal forseti Alþýðusambandsins, sögðu þar vera um að ræða pólitískar „hreinsanir“ innan Eflingar.[8] Sólveig hafnaði þeirri skilgreiningu og sagði uppsagnirnar vera skipulagsbreytingar væru byggðar á ítarlegri greiningarvinnu.[9]
Stjórnmálaferill
[breyta | breyta frumkóða]Sólveig Anna skipaði fjórða sæti á lista Sósíalistaflokks Íslands í Reykjavíkurkjördæmi norður í Alþingiskosningunum árið 2021.[10]
Fjölskylda
[breyta | breyta frumkóða]Sólveig er dóttir útvarpsþulanna fyrrverandi Jóns Múla Árnasonar og Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur. Hún er gift Magnúsi Sveini Helgasyni sagnfræðingi.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Gefur forystunni falleinkunn“. ruv.is. Sótt 30. janúar 2018.
- ↑ „Hver er Ingvar Vigur Halldórsson?“. Efling stéttarfélag. Sótt 30. janúar 2018.
- ↑ „Ný forysta í stjórn Eflingar“. Efling stéttarfélag. Sótt 30. janúar 2018.
- ↑ „Sólveig og Ingvar í formannskjöri Eflingar“. ruv.is. Sótt 30. janúar 2018.
- ↑ „Sólveig Anna nýr formaður Eflingar“. ruv.is. Sótt 3. maí 2018.
- ↑ „Sólveig Anna segir af sér vegna vantrausts starfsfólks“. RÚV. 1. nóvember 2021. Sótt 1. nóvember 2021.
- ↑ Jón Trausti Reynisson (15. febrúar 2022). „Sólveig Anna vann“. Stundin. Sótt 15. febrúar 2022.
- ↑ Erla María Markúsdóttir (17. apríl 2022). „Forseti ASÍ: Hægt að gera umbætur án þess að ráðast í hreinsanir“. Kjarninn. Sótt 28. apríl 2022.
- ↑ Sigurjón Björn Torfason (13. apríl 2022). „Sólveig: Hópuppsögnin ekki hreinsun á óæskilegu fólki“. Fréttablaðið. Sótt 28. apríl 2022.
- ↑ Lovísa Arnardóttir (7. ágúst 2021). „Sólveig Anna á lista Sósíalista í Reykjavík“. Fréttablaðið. Sótt 1. maí 2022.