Efling stéttarfélag

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Efling stéttarfélag er íslenskt stéttarfélag sem stofnað var í desember árið 1998. Félagið byggir á sterkum rótum en það varð til við sameiningu verkalýðsfélaganna Dagsbrúnar og Verkakvennafélagsins Framsóknar við Starfsmannafélagið Sókn og Félag starfsfólks í veitingahúsum. Við stofnun Eflingar voru um 14 þúsund einstaklingar í félaginu[1] en árið 2018 voru 27 þúsund félagar í Eflingu.[2]

Ári eftir stofnun Eflingar sameinaðist félagið Iðju, félagi verksmiðjufólks í Reykjavík og árið 2009 sameinaðist Verkalýðs- og sjómannafélagið Boðinn Eflingu stéttarfélagi.

Félagsfólk Eflingar starfar á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins bæði hjá opinberum stofnunum og í einkageiranum. Má þar nefna störf í mötuneytum og við ræstingar, við ummönnunarstörf, s.s. í heimaþjónustu, á leikskólum og á sjúkrastofnunum. Eflingarfólk sinnir einnig almennum störfum verkafólks á sviði iðnaðar, framleiðslu, flutninga, byggingarvinnu, við vegagerð og hafnarvinnu, landbúnaðarstörf og annast ýmsa vélavinnu sem tengist verklegum framkvæmdum. Almenn störf á veitinga- og gistihúsum eru unnin af Eflingarfólki og einnig öryggisvarsla og almenn störf við bensínafgreiðslu og á dekkjaverkstæðum.

Meðal stærstu vinnuveitenda innan Eflingar stéttarfélags eru Reykjavíkurborg, fjármála- og efnahagsáðuneyti, skipafélögin, Landspítali, ýmis ræstingafyrirtæki, olíufélögin og Kópavogsbær.[1]

Fyrsti formaður Eflingar var Halldór Björnsson en hann gegndi embætti fra stofnun 1998 til 2000. Sigurður Bessason tók við af Halldóri og gengdi hann formennsku í tæp 20 ár eða til ársins 2018. Núverandi formaður Eflingar er Sólveig Anna Jónsdóttir, sem var kjörin formaður þann 15. febrúar 2022 en var áður formaður frá 2018 til 2021.[3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Efling.is, „Um félagið“ Geymt 25 október 2020 í Wayback Machine (skoðað 25. nóvember 2020)
  2. Mbl.is, „Sólveig tekin við formennsku í Eflingu“ (skoðað 25. nóvember 2020)
  3. Jón Trausti Reynisson (15. febrúar 2022). „Sólveig Anna vann“. Stundin. Sótt 15. febrúar 2022.