Fara í innihald

Rússneska byltingin 1917

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Rússneska byltingin)
Hermenn halda á borða sem á stendur „Kommúnismi“ um stræti Moskvu.

Rússneska byltingin 1917 er afdrifaríkur atburður á 20. öld og er í raun heiti yfir nokkrar misstórar byltingar, þar sem sú stærsta var gerð 1917. Alexander II Rússlandskeisari batt enda á Krímstríðið þegar hann komst til valda og gerði úrbætur til að færa landið í nútímalegra horf.

Alexander III sonur hans dró til baka margar af úrbótum föður síns sem olli mikilli óánægju meðal Rússa. Nikulás II, síðasti keisari Rússlands, komst til valda árið 1894. Rússar töpuðu stríði gegn Japönum og leiddi til mótmæla, en fyrsta uppreisnin í Rússlandi var árið 1905 og er oft kölluð „blóðugi sunnudagurinn“. Vladímír Lenín var einn af leiðtogum uppreisnarinnar en hann hafði kynnt sér kommúnisma Karls Marx. Febrúarbyltingin var árið 1917 en þá gengust hersveitir keisarans til liðs við mótmælendurna og Nikulás II sagði af sér. Við tók svokölluð bráðabirgðastjórn. Keisarafjölskyldan var send til Síberíu í stofufangelsi. Bráðabirgðastjórnin vildi halda áfram þátttöku Rússlands í heimsstyrjöldinni og jókst fylgi bolsévika því um megn. Októberbyltingin var einnig 1917 og ákváðu þá bolsévikar að hirða valdið af bráðabirgðastjórninni. Eftir að bolsévikar náðu valdi gerðu þeir friðarsamning við Þjóðverja árið 1918. Svokallaðir hvítliðar sem samanstóðu af gagnbyltingarmönnum bolsévika og bandamönnum herjuðu á Jekaterínbúrg til að bjarga keisarafjölskyldunni frá bolsévikum. Keisarafjölskyldan var tekin af lífi sumarið 1918 með fyrirskipun frá bolsévikum. Borgarastyrjöldin milli rauðliða og hvítliða stóð í þrjú ár eftir það og lauk með sigri bolsévika. Sovétríkin voru svo stofnuð í enda styrjaldarinnar og Lenín var fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna.

Aðdragandinn

[breyta | breyta frumkóða]

Alexander II Rússlandskeisari batt enda á Krímstríðið eftir að hann tók við af föður sínum 1855. Eftir ósigur Rússlands í stríðinu sá Alexander II Rússakeisari hvað þjóð hans var langt á eftir öðrum Evrópuríkjum. Með því að aflétta ánauð bænda, endurskipurleggja stjórnkerfið, ýta undir framfarir iðnaðar og samgangna ásamt því að umbæta herinn færði hann Rússland til nútímans. Alexander II var myrtur af meðlimum leynifélagsins Narodnya Volya. Sonur hans Alexander III tók við af honum og dró til baka margt af því sem faðir hans hafði breytt. Það leiddi til fyrstu stóru byltingarinnar í Rússlandi.

Nikulás II tók við af Alexander III árið 1894 og lofaði hann þjóð sinni réttarbótum. Sama ár og Nikulás tók við gekk Rússland í lið bandamanna í fyrri heimsstyrjöldinni. Nikulás stóð ekki við loforð sitt en þær lestir sem höfðu flutt matvæli og eldsneyti til iðnaðarborganna voru nú nýttar undir herflutninga og vopnaflutninga til vígstöðva þeirra í stríðinu. Eftir ósigur Rússlands gegn Japönum um frekarar landssvæði varð uppreisn í landinu, þá stofnaði ríkisstjórnin Dúmuna sem var landþing. Dúmuna skipuðu mest megnis íhaldssamir velmektarmenn svo ekki var miklu breytt fyrir almúgann.

Fyrsta alvarlega byltingin í Rússlandi var 22. janúar 1905 og er oft kölluð blóðugi sunnudagurinn. Í þeirri uppreisn gerðu um 200 þúsund manns áhlaup á Vetrarhöllina í Pétursborg. Föðurbróðir Nikulásar skipaði hersveitum að skjóta á lýðinn og varð það um 100 manns að bana. Vladímír Lenín var einn af leiðtogum þessarar uppreisnar en hann hafði kynnt sér rit Karls Marx um kommúnisma en eftir að byltingin hafði verið bæld niður var hann sendur í útlegð. Lenín sneri þó heim árið 1917 þegar febrúarbyltingin hófst.[1][2]

Febrúarbyltingin

[breyta | breyta frumkóða]

Á kvennadaginn 23. febrúar (8. mars) 1917 hófu konur í St. Pétursborg verkfall. Hermenn voru sendir til Pétursborgar til þess að bæla niður mótmælin en hluti þeirra gengu til liðs með mótmælendum. Mótmælin gerðu það að verkum að Nikulás II sagði af sér í mars eftir aðeins fimm daga uppreisn og Georgíj Lvov tók við eftir að bróðir Nikulásar neitaði að taka við krúnunni. Tvenns konar stjórn réði ríkjum í Rússlandi eftir fráfall keisarans. Annars vegar bráðabirgðastjórn og sovétin sem voru undir stjórn sósíaldemókrata. Sovétmenn voru aðallega hermenn og verkamenn.

Eftir að Nikulás Rússakeisari hafði sagt af sér var hann og fjölskylda hans sett í stofufangelsi í Alexandershöllinni í Pétursborg. Bráðabirgðastjórnin ætlaði að senda þau til Englands en sovétin stöðvuðu þá ráðagerð og var keisarafjölskyldan því send til Tobolsk í Síberíu.

Fljótlega varð Aleksandr Kerenskíj úr þjóðbyltingarflokknum leiðtogi bráðabirgðastjórnarinnar frá júlí 1917. Bráðabirgastjórnin vildi halda áfram í stríðinu þrátt fyrir vaxandi andstöðu gegn því, enda var markmið byltingarinnar að enda stríðið. Þessi ákvörðum stjórnarinnar varð til þess að vægi rótækra sósíaldemókrata, betur þekktir sem Bolsévikar, jókst. Leiðtogi bolsévika var Vladimír Lenín.[3]

Októberbyltingin

[breyta | breyta frumkóða]

Októberbyltingin hófst í Tallinn þann 23. október 1917 (5. nóv) en 25. október í Pétursborg. Nýja stjórnin var skipuð af alþýðufulltrúum. Nýja stjórnin hækkaði laun, kom á átta stunda vinnutíma og þjóðnýtti banka.

Bolsévikar ákváðu að taka völdin með vopnaðri byltingu og hertóku helstu staði Pétursborgar. Þeir gerðu áhlaup á Vetrarhöllina þar sem aðsetur bráðabirgðastjórnarinnar var. Lenín stofnaði fyrstu ríkisstjórn verkamannaráða eftir að bolsévikar sviptu Aleksandr Kerenskíj og stjórn hans völdin. Bolsévikar gerðu friðarsamning við Þjóðverja þann 3. mars 1918. Við þennan samning fékk Þýskaland yfirráð yfir ýmsum ríkjum sem tilheyrðu Rússlandi. Bolsévikar höfðu stuðning víðs vegar um landið, enda bannaði Lenín andstöðuflokka í landinu. Gerð var sérstök lögreglusveit, Téka, sem sá um að tryggja einræðisvald bolsévika. Gagnbyltingamenn, sósíalistar og lýðræðisinnar, ásamt Bretum, Frökkum og Bandaríkjamönnum gerðu herlið sem kallaðist hvítliðar til að berjast gegn bolsévikum/rauðliðum.

Keisarafjölskyldan var flutt til Jekaterínbúrg í Síberíu í maí 1918. Hvítliðar undir stjórn Alexanders V. Koltsjaks sóttu grimmt á borgina en talið er að hvítliðar hafi ætlað að frelsa fjölskylduna. Hvítliðar hertóku Jekaterínbúrg með hjálp frá tékkneskum hersveitum. Aðfaranótt 17. júlí 1918 var keisarafjölskyldan myrt af leyniþjónustumanni, Jakov Júrovskíj, frá Tomsk. Aftökuna fyrirskipaði annaðhvort ríkisstjórnin í Jekaterínbúrg eða miðstjórnin í Moskvu. Ættingjar keisarans voru ekki óhultir en tíu þeirra voru myrtir af byltingamönnum og talið er að 35 hafi flúið frá Rússlandi.[4][5][6][7]

Stofnun Sovétríkjanna

[breyta | breyta frumkóða]

Á árunum 1918 til 1921 var blóðug borgarastyrjöld í Rússlandi á milli hvítliða og rauðliða. Borgarastyrjöldinni lauk með sigri rauðliða þrátt fyrir hjálp bandamanna. Árið 1922 voru svo Sovétríkin stofnuð sem ríkissamband Rússlands, Hvíta-Rússlands, Úkraínu og Kákasusríkjasambandsins, samanstendur af Armeníu, Aserbaídsjan og Georgíu. Lenín var fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna en Sovétríkin er fyrsta ríkið þar sem kommúnistar komust til valda.[8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Berndl, Klaus. bls. 405-406.
  2. Ganeri, Anita. bls. 192-193.
  3. Sverrir Jakobsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um rússnesku byltinguna 1917 og hvernig hún byrjaði?“. Vísindavefurinn 11.9.2008. http://visindavefur.is/?id=12700. (Skoðað 11.4.2012).
  4. Sverrir Jakobsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um rússnesku byltinguna 1917 og hvernig hún byrjaði?“. Vísindavefurinn 11.9.2008. http://visindavefur.is/?id=12700. (Skoðað 11.4.2012).
  5. Brendl, Klaus. bls. 405-406.
  6. Andreu, Guillemette. bls. 250-251.
  7. Sverrir Jakobsson. „Hvað varð um rússnesku keisarafjölskylduna í októberbyltingunni?“. Vísindavefurinn 29.5.2006. http://visindavefur.is/?id=5980. (Skoðað 11.4.2012).
  8. Sverrir Jakobsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um rússnesku byltinguna 1917 og hvernig hún byrjaði?“. Vísindavefurinn 11.9.2008. http://visindavefur.is/?id=12700. (Skoðað 11.4.2012).
  • Adams, Simon o.fl.: 20. öldin. Helga Þórarinsdóttir o.fl. íslenskuðu. Vaka-Helgafell, Reykjavík 1999. Bls: 123-125
  • Andreu, Guillemetta o.fl.: Heims saga atlas. Dagur Þorleifsson íslenskaði. Iðunn, Reykjavík 1996. Bls: 250-251
  • Brendl, Klaus o.fl.: Saga mannsins, frá örófi fram á þennan dag. Ásdís Guðnadóttir o.fl. íslenskuðu. Skuggi-forlag, Reykjavík 2008.
  • Ganeri, Anita o.fl.: Saga veraldar, við upphaf nýrrar aldar. Helga Þórarinsdóttir og Jóhanna Þráinsdóttir íslenskuðu. Vaka-Helgafell, Reykjavík 1999. Bls: 192-193
  • Guðrún K. Valgeirsdóttir: Saga 203. 2012, 19. mars. „Rússneska byltingin (Októberbyltingin)“. http://saga203.tripod.com/RitgerdirGKV/Russneskabyltingin.htm Geymt 19 september 2015 í Wayback Machine
  • Sverrir Jakobsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um rússnesku byltinguna 1917 og hvernig hún byrjaði?“. Vísindavefurinn 11.9.2008. http://visindavefur.is/?id=12700. (Skoðað 11.4.2012).
  • Sverrir Jakobsson. „Hvað varð um rússnesku keisarafjölskylduna í októberbyltingunni?“. Vísindavefurinn 29.5.2006. http://visindavefur.is/?id=5980. (Skoðað 11.4.2012).