Rannveig Rist
Rannveig Rist (f. 9. maí 1961) er íslenskur verkfræðingur og forstjóri Álversins í Straumsvík. Ráðning Rannveigar í forstjórastarfið markaði tímamót því það mun hafa verið í fyrsta skipti sem kona var ráðin í starf forstjóra hjá iðnfyrirtæki af þessari stærðargráðu á Íslandi.[1]
Foreldrar Rannveigar voru Sigurjón Rist vatnamælingamaður og kona hans María Sigurðardóttir viðskiptafræðingur og kennari en María var fyrst kvenna á Íslandi til að ljúka námi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Eignmaður Rannveigar er Jón Heiðar Ríkharðsson vélaverkfræðingur og eiga þau þrjú börn.
Nám
[breyta | breyta frumkóða]Rannveig lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1980, lauk námi frá Vélskóla Íslands árið 1983 og kláraði sveinspróf í vélvirkjun árið 1985. Hún lauk námi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1987 og MBA námi frá San Francisco háskóla í Bandaríkjunum árið 1989.
Starfsferill
[breyta | breyta frumkóða]Rannveig starfaði meðfram námi við vatnamælingar en einnig hjá Landsvirkjun og Hraðfrystihúsinu á Patreksfirði. Að loknu námi í vélvirkjun var hún í nokkur ár vélstjóri til sjós m.a. á togurunum Óskari Halldórssyni RE og Guðbjarti ÍS. Árið 1990 hóf Rannveig störf í Álverinu í Straumsvík og sinnti þar ýmsum störfum þangað til hún tók við starfi forstjóra. Hún var m.a. deildarstjóri öryggis- og umhverfismála, talsmaður fyrirtækisins og forstöðumaður steypuskála þar til hún var ráðin forstjóri fyrirtækisins árið 1996 en hún tók við starfinu í ársbyrjun árið 1997.[2]
Rannveig hefur um árabil verið með áhrifamestu einstaklingum í íslensku viðskiptalífi.[3] Hún hefur sinnt fjölda trúnaðar- og stjórnunarstarfa undanfarna tvo áratugi. Árið 1994 var hún kosin af Alþingi til að gegna formennsku í Lýðveldissjóði frá 1994-2000. Hún var um árabil stjórnarformaður Símans og Skipta hf[4] og sat í stjórn HB Granda en sagði sig úr stjórninni vegna óánægju með brottrekstur framkvæmdastjóra fyrirtækisins frá félaginu.[5] Hún hefur setið í stjórn Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins og verið stjórnarformaður Samáls, samtaka álframleiðenda um árabil. Hún sat í stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) á árunum fyrir hrun íslenska bankakerfisins árið 2008.
SPRON-málið
[breyta | breyta frumkóða]Í kjölfar hrunsins var Rannveig ásamt Guðmundi Haukssyni forstjóra SPRON og þremur öðrum stjórnarmönnum SPRON þeim Ara Bergmanni Einarssyni, Jóhanni Ásgeiri Baldurs og Margréti Guðmundsdóttur ákærð fyrir umboðssvik og að hafa misnotað stöðu sína hjá SPRON og stefnt félaginu í hættu með tveggja milljarða króna lánveitingar til Exista án tryggingar.[6] Hæstiréttur sýknaði Rannveigu og öll hin ákærðu í málinu í janúar árið 2017.[7]
Viðurkenningar
[breyta | breyta frumkóða]1996 - Útnefnd Kona ársins hjá tímaritinu Nýtt líf.[8]
1996 - Maður ársins hjá Stöð 2.[9]
1998 - Heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands.[9]
1999 - Riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir stjórnunarstörf í atvinnulífinu.[10]
2008 - Maður ársins hjá timaritunu Frjáls verslun.[11]
2009 - Viðurkenning Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA) fyrir lofsvert framlag til íslensks atvinnulífs.[12]
2010 - Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins.[13]
2018 - Iðnaðarmannafélag Íslands útnefndi Rannveigu heiðursiðnaðarmann félagsins.[14]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Erla Hulda Halldórsdóttir; Guðrún Dís Jónatansdóttir (1998). „Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna“ (skoðað 24. júní 2019)
- ↑ Páll Ásgeir Ásgeirsson, „Rannveig“ Frjáls verslun, 57. árg, 5. tbl. 1996 (skoðað 24. júní 2019)
- ↑ Visir.is, „Þær hafa mest áhrif á Íslandi“ (skoðað 24. júní 2019)
- ↑ Mbl.is, „Rannveig stjórnarformaður Skipta“ (skoðað 24. júní 2019)
- ↑ Frettabladid.is, „Rannveig Rist segir sig úr stjórn HB Granda“ (skoðað 24. júní 2019)
- ↑ Mbl.is, „SPRON málið“ (skoðað 24. júní 2019)
- ↑ Mbl.is, „Staðfesti sýknudóm í SPRON málinu“ (skoðað 24. júní 2019)
- ↑ „Rannveig Rist kona ársins“, Morgunblaðið, 3. desember 1996 (skoðað 24. júní 2019)
- ↑ 9,0 9,1 Pétur Ástvaldsson, Samtíðarmenn J-Ö, bls. 676-677 (Reykjavík, 2003)
- ↑ Forseti.is, „Orðuhafaskrá“ Geymt 26 ágúst 2019 í Wayback Machine (skoðað 24. júní 2019)
- ↑ Visir.is, „Rannveig Rist maður ársins hjá Frjálsri verslun“ (skoðað 24. júní 2019)
- ↑ Mbl.is, „Rannveig Rist valin kona ársins af FKA“ (skoðað 24. júní 2019)
- ↑ Vb.is, „Rannveig Rist hlýtur viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins árið 2010“ (skoðað 24. júní 2019)
- ↑ Samal.is, „Rannveig Rist vélvirki heiðursiðnaðarmaður ÍMFR 2018“ (skoðað 24. júní 2019)