Sigurjón Rist

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigurjón Rist, vatnamælingamaður, fæddist á Akureyri 29. ágúst 1917, lést í Reykjavík 15. október 1994. Foreldrar hans voru hjónin Margrét Sigurjónsdóttir (1888 - 19219) húsmóðir á Akureyri, og Lárus J. Rist, (1879 - 1964) sund- og fimleikakennari á Akureyri og síðar í Hveragerði.

Nám og störf[breyta | breyta frumkóða]

Sigurjón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1938, stundaði síðan nám í heimspeki og haffræði við Kaupmannahafnarháskóla 1938-39, en hvarf heim frá námi vegna heimsstyrjaldarinnar síðari sem þá var skollin á. Á árunum 1948-49 lagði hann stund á vatnafræði hjá Norges Vassdragsvesen og árið 1966 var hann hjá hjá Geological Survey í Bandaríkjunum. Hann var umsjónarmaður með síldveiðiskipum og síldarsöltun hjá Nirði hf. á Akureyri og Siglufirði 1938-41. Árin 1942-46 rak hann bifreiðaviðgerðaverkstæði hjá KEA og Mjölni hf. á Akureyri. Sigurjón hóf störf hjá raforkumálastjóra sem forstöðumaður vatnamælinga árið 1947 og var forstöðumaður Vatnamælinga Orkustofnunar frá 1967 til 1987. Hann var frumherji í íslenskum vatnamælingum og kom á kerfisbundnum rennslismælingum í vatnsföllum landsins, annaðist dýptarmælingar og kortlagningu stöðuvatna og sá um útgáfu árlegra rennslismæligagna hjá Orkustofnun.

Félagsstörf[breyta | breyta frumkóða]

Sigurjón Rist lét allmikið til sín taka í félgsmálum. Hann var í stjórn Ferðafélags Akureyrar um skeið og formaður þess 1946-47. Þá var hann um langt árabil í stjórn Jöklarannsóknafélags Íslands allt frá stofnun þess 1950 og formaður þess um skeið. Formaður Vatnafræðifélags Íslands var hann frá 1979-1985. Vann í frístundum með sjálfboðaliðum að lagningu bifreiðaslóða um hálendi Íslands á árunum 1940-46, einkum upp úr Eyjafirði, um Sprengisand og Ódáðahraun. Hann var þátttakandi í fransk-íslenska Vatnajökulsleiðangrinum 1951.

Rannsóknir, ritstörf o.fl.[breyta | breyta frumkóða]

Eftir Sigurjón liggur fjöldi ritgerða um vatnsföll og rennsli þeirra og um jökla og jöklamælingar. Einnig bækurnar Íslensk vötn I sem raforkumálastjóri gaf út 1956 og Vatns er þörf sem Menningarsjóður gaf út 1990.

Hermann Sveinbjörnsson, fréttamaður, skráði æviminningar Sigurjóns í bókinni "Vadd'út í", útg. 1989. Sigurjón var sæmdur heiðursmerki Jöklarannsóknafélags Íslands 1970, riddarakrossi íslensku fálkaorðunnar 1986 og heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands 1990.

Einkahagir[breyta | breyta frumkóða]

Kona Sigurjóns var María Sigurðardóttir, viðskiptafræðingur. Dætur þeirra:

  • Rannveig Rist, f. 9. maí 1961, verkfræðingur, forstjóri ÍSAL
  • Bergljót Rist, f. 28. febrúar 1966, dýralæknir og leiðsögumaður.