Ráðuneyti
Ráðuneyti nefnist opinber stofnun sem sér um framkvæmd laga löggjafarvalds í ríki. Ráðuneyti er efsta stig stjórnsýslu og undir stjórn ráðherra myndar framkvæmdarvaldið. Æðsti yfirmaður ráðuneytis nefnist ráðherra og æðsti embættismaður þess nefnist ráðuneytisstjóri. Í flestum löndum starfa mörg ráðuneyti sem sjá um opinbera þjónustu á ákveðnu sviði, svo sem mennta-, utanríkis- og heilbrigðismál. Starfssvið og tilvist ráðuneyta geta breyst eftir stefnu stjórnvalda til þess að betur fylgja henni eftir. Ráðuneyti eru oftast lægra sett en ríkisstjórnir, forsætisráðherra, kanslari eða forseti.
Dæmi á heimsvísu
[breyta | breyta frumkóða]Ísland
[breyta | breyta frumkóða]Á Íslandi starfa átta ráðuneyti sem saman mynda Stjórnarráð Íslands. Upprunalega var Stjórnarráðið ein stofnun sem hafði umsjón yfir alla íslenska stjórnsýslu en það þróaðist síðar í nokkrar skrifstofur og loks aðskild ráðuneyti. Ráðherrar eru formlega skipaðir af forseta Íslands, en þeir eru þó valdir af forsvarsmönnum meirihluta Alþingis og taka þá sæti í ríkisstjórn. Mikil hefð er fyrir því á Íslandi að ráðherrar séu Alþingismenn og hafi þá bæði vald til þess að leggja fram frumvörp er varða málaflokka þeirra og kjósa um þau sem og önnur mál. Hinsvegar þarf ráðherra ekki að vera þingmaður og sem dæmi um utanþingsráðherra má nefna Rögnu Árnadóttur, Gylfa Magnússon og Ólöfu Nordal. Ráðherrar leggja fram lög á Alþingi um málaflokka sína en auk þess hafa þeir vald til þess að setja reglugerðir um ákveðin mál sem fá ekki þinglega meðferð.[1]
Ráðuneytin eru átta samkvæmt forsetaúrskurði frá 30. ágúst 2012, það eru:
- Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti Íslands
- Forsætisráðuneyti Íslands
- Innanríkisráðuneyti Íslands
- Mennta- og menningarmálaráðuneyti Íslands
- Fjármála- og efnahagsráðuneyti Íslands
- Utanríkisráðuneyti Íslands
- Velferðarráðuneyti Íslands
- Umhverfis- og auðlindaráðuneyti Íslands
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Þurfa ráðherrar að vera þingmenn?, Skoðað 6. janúar 2015.