Fara í innihald

Ráðhúsið í Bremen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ráðhúsið í Bremen er með fegurstu gotnesku byggingum í Evrópu

Ráðhúsið í Bremen er með merkustu gotnesku byggingum endurreisnartímans í Evrópu. Það er bæði aðsetur borgarstjórnar sem og þings sambandsríkisins Bremen. Húsið er á heimsminjaskrá UNESCO.

Núverandi ráðhús var reist 1405-1410 í gotneskum stíl. Það kom í staðinn fyrir eldra ráðhús sem samtímis var rifið. Árið 1600 var húsinu breytt. 1909-1913 voru tvö bakhús reist við ráðhúsið í sama stíl, þar sem orðið var of þröngt í gamla húsinu sökum aukinna umsvifa borgarinnar. Í heimstyrjöldinni síðari slapp húsið að öllu leyti við sprengjuregn loftárásanna, þrátt fyrir að mörg hús í kring eyðilögðust. 2004 var húsið sett á heimsminjaskrá UNESCO.

Aðalhúsið er 41 metrar að lengd og stendur við aðaltorg borgarinnar. Neðst á framhliðinni eru súlnagöng, en þar fyrir ofan eru fagrar skreytingar með gluggum og styttum. Stytturnar eru átta og eiga að tákna keisarann og kjörfurstana sjö í þýska ríkinu. Á vesturgaflinum eru fjórar styttur. Þær eru af fornmönnunum Platoni, Aristótelesi, Demosþenesi og Cicero. Á austurgaflinum eru enn fjórar styttur af persónum Biblíunnar: Pétur postuli, ógreindur læknir, Móses og Salómon. Ýmsir fagrir salir eru í húsinu sem eru skreyttir með ýmsu móti. Neðri aðalsalur (Untere Rathaushalle) er talinn meðal fegurstu gotnesku sala heims[heimild vantar] og hefur haldist nær óbreyttur frá miðöldum. Efri aðalsalur er stærsti salur hússins og er 41 metra langur. Hann er skreyttur freskum og loftmyndum. Í loftinu eru 33 keisaramyndir í hringlaga formi. Þær spanna keisara þýska ríkisins frá Karlamagnúsi til Sigismund. Niður úr loftinu hanga fjögur módel af gömlum skipum sem smíðuð voru 1545, 1650, 1770 og 1779. Stærsta freskan sýnir stofnun biskupsstólsins í Bremen af Karlamagnúsi. Ennfremur eru þar myndir af Móse, Davíð konungi, Jósafat konungi Júda, Cato, Caesari og Cicero. Enn má nefna gullna salinn (Güldenkammer) sem var innréttaður 1595 í rauðum og gullnum litum. Ýmsir fleiri salir eru í húsinu, svo sem hátíðarsalurinn (Festsaal), þingsalurinn (Senatssaal), arinsalurinn (Kaminsaal) og Hansasalurinn (Hansazimmer). Í kjallara hússins er öldurhús eins og títt er í þýskum ráðhúsum.

Merkar móttökur og athafnir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Schaffermahlzeit er árleg matarveisla sem fram fer í ráðhúsinu. Þetta er veisla fyrir verslunarmenn, skipaeigendur og skipstjóra og hefur verið haldin árlega síðan 1545. Veisla þessi er elsta bræðraveisla heims sem enn er við lýði.
  • 1580: Móttökuveisla fyrir Hinrik III frá Sachsen-Lauenburg sem fyrsta lúterska biskup borgarinnar.
  • 1757: Móttökuveisla fyrir franska herforingjann Richelieu (frænda kardinálans), en hann fór fyrir frönskum her í 7 ára stríðinu.
  • 1869: Veisla fyrir Vilhjálm konung Prússlands ásamt Bismarck kanslara og herforingjunum Moltke og Roon.
  • 1926: Veisla fyrir ríkisforsetann Paul von Hindenburg.

Myndagallerí

[breyta | breyta frumkóða]