Fara í innihald

Demosþenes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Demosþenes

Demosþenes (384322 f.Kr., forngríska: Δημοσθένης, Dēmosthénēs) var forngrískur stjórnmálamaður og mælskumaður frá Aþenu. Ræður hans eru mikilvæg heimild um stjórnmál og menningu Grikklands á 4. öld f.Kr.

Demosþenes lærði mælskulist með því að rannsaka ræður eldri mælskumanna. Hann flutti fyrstu réttarræður sínar um tvítugur að aldri. Í þeim færði hann rök fyrir því að fjárráðamenn hans ættu að láta hann fá það sem eftir var af arfi hans og hafði erindi sem erfiði. Um tíma vann hann fyrir sér með því að semja ræður fyrir aðra og sem málafærslumaður.

Áhugi Demosþenesar á stjórnmálum jókst og árið 354 f.Kr. flutti hann fyrstu stjórnmálaræðu sína. Hann gerðist andvígur útþenslu Makedóníu. Demosþenesi var annt um frelsi og sjálfstæði borgar sinnar. Hann varpaði borg sína, Aþenu, dýrðarljóma og reyndi hvað hann gat til að hvetja samborga sína til að standa gegn Filipposi II. Að Filipposi látnum fór Demosþenes með lykilhlutverk í uppreisn Aþenuborgar gegn nýjum kóngi Makedóníu, Alexander mikla. En uppreisnin var barin niður. Antipater, eftirmaður Alexanders, lét elta Demosþenes uppi til að koma í veg fyrir samskonar viðbrögð þegar Alexander lést. Demosþenes framdi sjálfsmorð til að koma í veg fyrir að hann yrði handsamaður af Arkíasi, flugumanni Antipaters.

Alexandrísku fræðimennirnir Aristófanes frá Býzantíon og Aristarkos frá Samóþrake töldu Demosþenes einn af 10 bestu attísku ræðumönnunum og ræðuhöfundunum. Cíceró taldi hann „hinn fullkomna ræðumann“ sem ekkert skorti[1] og Quintilianus sagði hann vera lex orandi („mælikvarða mælskunnar“) og sagði að „hann einn skaraði fram úr öllum hinum“ (inter omnes unus excellat).[2]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Cicero, Brutus, 35
  2. Quintillianus, Institutiones, X.1, X.6 og X.76