Porfirio Díaz

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Porfirio Díaz
Forseti Mexíkó
Í embætti
28. nóvember 1876 – 6. desember 1876
Í embætti
17. febrúar 1877 – 1. desember 1880
Í embætti
1. desember 1884 – 25. maí 1911
Persónulegar upplýsingar
Fæddur15. september 1830
Oaxaca, Mexíkó
Látinn2. júlí 1915 (84 ára) París, Frakklandi
StjórnmálaflokkurPorfíristaflokkurinn (áður Frjálslyndi flokkurinn)
MakiDelfina Ortega Díaz (g. 1867–1880); Carmen Romero Rubio (g. 1881–1915)
BörnDeodato Lucas Porfirio (1875–46), Luz Aurora Victoria (1875–65)
StarfHermaður, stjórnmálamaður
Undirskrift

José de la Cruz Porfirio Díaz Mori (15. september 1830 – 2. júlí 1915) var mexíkóskur hershöfðingi og stjórnmálamaður sem gegndi sjö kjörtímabilum sem forseti Mexíkó, alls þrjá og hálfan áratug frá 1876 til 1911. Hann hafði barist í umbótastríðinu (1858–60) og í innrás Frakka í Mexíkó (1862–67) og þar öðlast hershöfðingjatign í her lýðveldissinna gegn yfirráðum Maximilians keisara, sem Frakkar studdu. Árið 1876 framdi Díaz valdarán ásamt bandamönnum sínum, hóp tækniveldissinna sem kölluðu sig „Científicos“[1] og réð Mexíkó næstu þrjátíu og fimm árin á tímabili sem kallast hefur „Porfiriato.“

Díaz hefur ávallt verið umdeildur í sögu Mexíkó. Ríkisstjórn hans tókst að koma á stöðugleika eftir margra áratuga átök en vann sér jafnframt inn miklar óvinsældir fyrir harðstjórnartilburði og pólitíska stöðnun. Fjármálastefna Díazar var hönnuð til að hagnast bandamönnum hans ásamt erlendum fjárfestum og stuðlaði til þess að minnihluti ríkra landeigenda eignaðist mikil landflæmi. Þar með var erfitt fyrir fátæka bændur á landsbyggðinni að sjá fyrir sér. Margar landeignirnar voru auk þess hættulegar og leiddu til um 600,000[2] dauðsfalla frá árinu 1900 til loka valdatímabils Díazar. Seint á valdatíð sinni tilkynnti Díaz opinberlega að hann hygðist koma á lýðræði á ný og stíga frá völdum en braut síðan þau fyrirheit og bauð sig enn og aftur fram árið 1910. Þegar hann var orðinn áttræður hafði Díaz enn ekki tekist að sjá til þess að hægt yrði að láta völdin ganga friðsamlega til nýs forseta. Úr því varð stjórnmálakreppa milli tækniveldissinnanna og stuðningsmanna Bernando Reyes hershöfðingja, sem var studdur af hernum og héröðum á útjöðrum Mexíkó.[3] Þegar Díaz lýsti sjálfan sig sigurvegara forsetakosninganna 1910 hvatti mótframbjóðandi hans, Francisco I. Madero, til vopnaðrar uppreisnar gegn Díaz. Eftir að ríkisherinn lét ítrekað í lægri hlut fyrir byltingarmönnunum neyddist Díaz til að segja af sér í maí árið 1911 og fór í útlegð til Frakklands, þar sem hann lést fjórum árum síðar.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Mary Kay Vaughan, „Científicos,“ Encyclopedia of Latin American History and Culture, 2. bindi, bls. 155. New York: Charles Scribner's Sons 1996.
  2. Rummel, Rudolph. „Statistics Of Mexican Democide Estimates, Calculations, And Sources“. https://www.hawaii.edu/powerkills/SOD.CHAP11.HTM.
  3. Vaughan, „Cientificos“, bls. 155.