Innrás Frakka í Mexíkó
- Sjá einnig greinina um Kökustríðið fyrir fyrri innrás Frakka í Mexíkó.
Seinni innrás Frakka í Mexíkó (einnig þekkt sem Maximiliansdeilan, mexíkóska ævintýrið, fransk-mexíkóska stríðið eða annað fransk-mexíkóska stríðið) var innrás síðara franska keisaradæmisins í mexíkóska lýðveldið árið 1861, upphaflega með stuðningi Bretlands og Spánar. Kveikjan að innrásinni varð þegar Benito Juárez forseti neitaði að borga vexti af lánum sem fyrri ríkisstjórn Mexíkó hafði fengið frá erlendum ríkjum þann 17. júlí 1861 og reitti þar með þessa þrjá lánardrottna Mexíkó mjög til reiði.
Napóleon III Frakkakeisari átti frumkvæðið að stríðinu og réttlætti innrásina með því að vísa til fríverslunarstefnu Frakkaveldis. Hann taldi að ef hann kæmi á vinveittri stjórn í Mexíkó myndi það tryggja aðgang Evrópuveldanna að mörkuðum Rómönsku Ameríku. Napóleon ásældist einnig silfrið sem hægt var að vinna í Mexíkó til að fjármagna heimsveldið sitt. Frakkakeisari stofnaði til herbandalags við Spán og Bretland á meðan Bandaríkin voru of upptekin við eigin borgarastyrjöld til að aðhafast neitt.
Evrópuveldin þrjú skrifuðu undir sáttmála í London þann 31. október þess efnis að þau skyldu vinna saman að því að knýja Mexíkó til að borga skuldir sínar. Þann 8. desember varpaði spænski herskipaflotinn akkerum við aðalhöfn Mexíkó, Veracruz. Þegar Bretar og Spánverjar gerðu sér grein fyrir því að Frakkar hygðust leggja gervalla Mexíkó undir sig drógu þeir sig umsvifalaust út úr hernaðarsamstarfinu.
Innrás Frakka leiddi til stofnunar mexíkósks keisaradæmis í bandalagi við Frakka. Í Mexíkó studdu kaþólska kirkjan, íhaldssamt yfirstéttarfólk og sum samfélög frumbyggja stofnun keisaraveldis í Mexíkó. Íhaldsmenn og aðalsmenn vildu endurvekja mexíkóskt einveldi í anda fyrsta mexíkóska keisaradæmisins, sem hafði verið við lýði frá 1821 til 1823. Þeir buðu því austurrískum erkihertoga af ætt Habsborgara, Maximilian Ferdinand, til Mexíkó í því skyni að fá Napóleon til að gera hann að keisara. Það varð úr að með boði Napóleons lýsti Maximilian Ferdinand sig Maximilian 1. Mexíkókeisara þegar hann kom til landsins þann 10. apríl 1964.[1] Frakkar áttu ýmissa hagsmuna að gæta í deilunni: Þeir vildu koma á sáttum við austurríska keisaradæmið sem þeir höfðu sigrað í fransk-austurríska stríðinu 1859, vega á móti útbreiðslu mótmælendatrúar í Ameríku með því að stuðla að þróun voldugs kaþólsks ríkis í nágrenni við Bandaríkin og notfæra sér silfurnámurnar í norðvesturhluta Mexíkó.
Eftir hatramman skæruhernað lýðveldissinna undir stjórn Juárez sem hélt áfram jafnvel eftir að Mexíkóborg var hertekin árið 1863 drógu Frakkar sig að endingu út úr Mexíkó árið 1866 þegar auknar blikur voru á lofti um að Bandaríkin kynnu að berjast við hlið lýðveldissinna í stríðinu. Þetta leiddi fljótt til hruns mexíkóska keisaradæmisins og handtöku og aftöku Maximilians keisara þann 19. júní 1867.