Venustiano Carranza

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Venustiano Carranza
Forseti Mexíkó
Í embætti
1. maí 1917 – 21. maí 1920
ForveriFrancisco S. Carvajal
EftirmaðurAdolfo de la Huerta
Persónulegar upplýsingar
Fæddur29. desember 1859
Cuatro Ciénegas, Coahuila, Mexíkó
Látinn29. desember 1920 (60 ára) Tlaxcalantongo, Puebla, Mexíkó
MakiVirginia Salinas Ernestina Hernández
StarfStjórnmálamaður

Venustiano Carranza Garza (29. desember 1859 – 21. maí 1920) var einn meginleiðtoga mexíkósku byltingarinnar. Her stjórnarskrársinna undir stjórn hans sigraði gagnbyltingarstjórn Victoriano Huerta og sigraði síðan aðra byltingarhópa eftir að Huerta var steypt af stóli. Carranza tryggði sér völd yfir Mexíkó og var þjóðarleiðtogi á árunum 1915–1917. Með viðurkenningu nýrrar byltingarstjórnarskrár árið 1917 var Carranza kjörinn forseti og gegndi því embætti til ársins 1920.

Carranza var þekktur sem „Primer Jefe“ eða „fyrsti leiðtogi“ stjórnarskrársinnanna og var kænn stjórnmálamaður fremur en hermaður. Hann studdi Francisco I. Madero í mótframboði hans gegn einræðisherranum Porfirio Díaz árið 1910 og áfram þegar Madero hrinti í framkvæmd San Luis Potosí-áætluninni til að ógilda kosningarnar og steypa Díaz af stóli með valdi. Madero útnefndi Carranza sem ríkisstjóra heimafylkis hans, Coahuila. Þegar Madero var myrtur í febrúar 1914 lagði Carranza drögin að Guadalupe-áætluninni svokölluðu til að vinna bug á Huerta. Carranza varð fljótt leiðtogi byltingarafla í norðri gegn Huerta. Hann leiddi her stjórnarskrársinna til sigurs og varð forseti Mexíkó.

Carranza var úr ríkri landeignarætt úr norðurhluta Mexíkó. Þrátt fyrir að fara fyrir byltingarstjórn vildi hann ekki að byltingin umbreytti landeignarrétti um of. Hann var mun íhaldssamari en byltingarleiðtogi bænda fyrir sunnan, Emiliano Zapata, og byltingarleiðtoginn fyrir norðan, Pancho Villa. Þegar hann hafði tryggt sér völd í Mexíkó einbeitti Carranza sér að því að útrýma keppinautum sínum. Carranza var viðurkenndur sem þjóðarleiðtogi Mexíkó af Bandaríkjunum en stefnumál hans voru mjög í anda þjóðernishyggju. Á valdatíð hans var núverandi stjórnarskrá Mexíkó rituð og viðurkennd. Carranza kom þó ekki í gildi róttækustu hlutum hennar, eins og auknu valdi vinnuafls, ríkisrétt til að leggja hald á erlend fyrirtæki, landsumbótum og heftum réttindum kaþólsku kirkjunnar.

Í kosningunum árið 1920 var Carranza ekki leyft að bjóða sig fram á ný og því studdi hann lítt þekktan stjórnmálamann að nafni Ignacio Bonillas til forsetaembættisins. Hershöfðingjar í Norður-Mexíkó sættu sig ekki við afstöðu forsetans, gerðu uppreisn gegn Carranza og drápu hann er hann reyndi að flýja frá Mexíkóborg.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Krauze, Enrique. Mexico: Biography of Power, kafli 13, "Venustiano Carranza: Nationalism and the Constitution", New York: HarperCollins 1997.


Fyrirrennari:
Francisco S. Carvajal
Forseti Mexíkó
(1. maí 191721. maí 1920)
Eftirmaður:
Adolfo de la Huerta