Fara í innihald

Andrés Manuel López Obrador

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Andrés Manuel López Obrador
Forseti Mexíkó
Núverandi
Tók við embætti
1. desember 2018
ForveriEnrique Peña Nieto
Persónulegar upplýsingar
Fæddur13. nóvember 1953 (1953-11-13) (70 ára)
Tabasco, Mexíkó
StjórnmálaflokkurHreyfing um þjóðarendurnýjun
MakiRocío Beltrán Medina (g. 1979; d. 2003)
Beatriz Gutiérrez Müller (g. 2006)
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Andrés Manuel López Obrador (f. 13. nóvember 1953), oft kallaður AMLO, er mexíkóskur stjórnmálamaður sem var kjörinn forseti Mexíkó þann 1. júlí 2018. Hann tók við embætti af Enrique Peña Nieto þann 1. desember. López Obrador var borgarstjóri Mexíkóborgar frá árinu 2000 til 2005 og naut talsverðra vinsælda í því embætti.[1] Hann var lengi meðlimur í vinstrihreyfingunni Lýðræðislega byltingarflokknum (Partido de la Revolución Democrática) og hafði boðið sig fram sem forsetaefni flokksins í kosningum árin 2006 og 2012 en tapað í bæði skiptin. López Obrador sagði sig úr Lýðræðislega byltingarflokknum árið 2012 og gekk árið 2014 í Hreyfingu um þjóðarendurnýjun (Movimiento Regeneración Nacional eða MORENA). López Obrador hefur ýmist verið lýst sem vinstrimanni, popúlista eða þjóðernissinna.[2]

Eftir tap sitt í forsetakosningum ársins 2006 gegn Felipe Calderón neitaði López Obrador að viðurkenna ósigur vegna gruns um kosningamisferli og lýsti sjálfan sig „lögmætan forseta“ Mexíkó. Stuðningsmenn López Obradors héldu eigin vígsluathöfn fyrir hann í Zócalo í Mexíkóborg[3] og López Obrador skipaði í kjölfarið eigin skuggaríkisstjórn til þess að vinna gegn ríkisstjórn Calderóns. López Obrador bauð sig aftur fram fyrir Lýðræðislega byltingarflokkinn í forsetakosningum ársins 2012 en tapaði fyrir Enrique Peña Nieto.

López Obrador bauð sig fram í þriðja sinn árið 2018, í þetta sinn sem frambjóðandi flokkabandalagsins Juntos Haremos Historia („Saman mörkum við söguna“). Flokksbandalagið samanstendur af Hreyfingu um þjóðarendurnýjun, mexíkóska Verkamannaflokknum og hinum hægrisinnaða Félagslega samfundaflokki (Partido Encuentro Social; PES). López Obrador mældist snemma með afgerandi forystu í skoðanakönnunum í aðdraganda kosningarinar og vann þann 1. júlí stórsigur með um 53% atkvæða, um það bil tvöfalt fylgi þess sem hlaut næstflest atkvæði.[4] Í sigurræðu sinni lofaði López Obrador að taka á spillingu í mexíkóskri stjórnsýslu, bæta samband við Sameinuðu þjóðirnar og aðrar mannréttindastofnanir, standa vörð um einkageirann og halda vináttu og samstarf við Bandaríkin.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „López Obrador: El nuevo desafío“. Proceso.com.mx. 29. júlí 2005. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. janúar 2016. Sótt 10. desember 2016.
  2. Matthías Tryggvi Haraldsson (2. júlí 2018). „Obrador næsti forseti Mexíkóa“. RÚV. Sótt 3. júlí 2018.
  3. „Rinde AMLO protesta como "presidente legítimo" – El Universal – Sucesión“. El Universal. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. janúar 2012. Sótt 2. júlí 2018.
  4. 4,0 4,1 „Lopez Obra­dor nýr for­seti Mexí­kó“. mbl.is. 2. júlí 2018. Sótt 8. júlí 2018.


Fyrirrennari:
Enrique Peña Nieto
Forseti Mexíkó
(1. desember 2018 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti