Mexíkóska byltingin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mexíkóska byltingin

Mexíkóska byltingin (Revolución mexicana á spænsku) var bylting og hrina vopnaðra átaka sem stóð yfir á árunum 1910–1920 og gerbreytti mexíkóskri menningu og stjórnarfari. Aðallega hefur verið fjallað um byltinguna í stökum héruðum en þó er ekki hægt að véfengja að um var að ræða „sanna þjóðarbyltingu.“[1] Byrjun byltingarinnar árið 1910 má rekja til þess hvernig einræðisherranum Porfirio Díaz hafði eftir 35 ár við völd enn ekki tekist að finna lögmætan eftirmann. Þetta olli stjórnmálakreppu meðal hátt settra keppinauta um völdin og gaf landyrkjendum tækifæri til að gera uppreisn.[2] Vel stæður landeigandi að nafni Francisco I. Madero bauð sig fram á móti Díaz í forsetakosningum árið 1910 og kallaði til uppreisnar eftir að fölsk úrslit voru kynnt Díaz í vil.[3] Eftir vopnuð átök var Díaz steypt af stóli og kallað var til nýrra kosninga árið 1911 þar sem Madero var kjörinn forseti.

Byrjun átakanna mátti rekja til andspyrnu gagnvart ríkisstjórn Díazar í kjölfar kosninganna árið 1910 sem hratt af stað uppreisn. Hátt settir menn undir stjórn Madero sem andsnúnir voru Díaz biðluðu til millistéttarinnar, bænda og verkamanna til að taka upp vopn.[4] Í október 1911 vann Madero yfirburðasigur í frjálsum og sanngjörnum kosningum. Andstaða við ríkisstjórn Madero fór þó fljótt að aukast bæði á meðal íhaldsmanna sem þótti hann veiklunda og of frjálslyndur, og fyrrverandi byltingarmanna og róttæklinga sem þótti hann of íhaldssamur. Í febrúar 1913 neyddist Madero til að segja af sér og var síðan drepinn. Við honum tók gagnbyltingarstjórn Victoriano Huerta hershöfðingja með stuðningi Bandaríkjanna, athafnamanna og annarra íhaldsafla. Huerta sat við völd frá febrúar 1913 til júlí 1914 en þá hrökklaðist hann frá völdum eftir hrun herafla hans gegn byltingarmönnum víðs vegar um landið. Byltingarmönnunum tókst þó ekki að sættast um stjórnarfyrirkomulag eftir brottrekstur Huerta og Mexíkó var því enn steypt í borgarastyrjöld (1914–1915). Hópur stjórnarskrársinna undir stjórn landeigandans Venustiano Carranza hrósaði sigri árið 1915 eftir að hafa sigrað fyrrverandi stjórnarskrársinnann Pancho Villa og neytt byltingarleiðtogann Emiliano Zapata til að grípa til skæruhernaðar á ný. Zapata var ráðinn af dögum árið 1919 að frumkvæði Carranza forseta.

Átökin entust í tæpan áratug, til ársins 1920 og skiptust í nokkra greinilega kafla þar sem víglínurnar breyttust.[5] Byltingin þróaðist úr einfaldri uppreisn gegn ríkisstjórn Díazar í borgarstyrjöld milli fjölmargra fylkinga í baráttu hver við aðra. Ein afleiðing byltingarinnar var hrun mexíkóska ríkishersins árið 1914. Madero hafði haldið honum óbreyttum þegar hann var kjörinn forseti árið 1911 en Huerta hafði notað hann til að steypa Madero af stóli. Byltingarhópar Carranza sameinuðust gegn gagnbyltingarstjórn Huerta og sigruðu ríkisherinn.[6] Átökin voru fyrst og fremst borgarastyrjöld en erlend ríki sem áttu fjár- og öryggishagsmuna að gæta í Mexíkó áttu töluverð afskipti af valdabaráttunni. Bandaríkin léku þar stærsta hlutverkið.[7] Af um 15 milljón íbúum Mexíkó var dauðsfall mjög hátt en deilt er um tölurnar. U.þ.b. 1.5 milljónir létust og um 200,000 flúðu land, aðallega til Bandaríkjanna.[8]

Viðurkenning nýrrar stjórnarskrár árið 1917 er yfirleitt talin marka endalok vopnaðra átaka í byltingunni. „Fjárhags- og félagsaðstæður skánuðu í takt við byltingarstefnumálin svo að nýtt samfélag gat myndast innan ramma opinberra byltingarstofnana,“ en stjórnarskráin varð grunnur þess ramma.[9] Oft er talað um tímabilið 1920–1940 sem lokastig byltingarinnar, þar sem stöðugleika var komið á og byltingarstjórnarskrá ársins 1917 tók gildi.[10]

Átökin eru oft talin mikilvægasti atburður í stjórnmála- og samfélagssögu Mexíkó og ein mestu umskipti tuttugustu aldarinnar.[11] Þau leiddu til mikillar tilraunamennsku og umbótaviðleitni í mexíkósku samfélagsskipulagi.[12]

Sjá einnig[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Alan Knight, "Mexican Revolution: Interpretations" in Encyclopedia of Mexico, 2. bindi, bls. 873. Chicago: Fitzroy Dearborn 1997.
 2. John Tutino, From Insurrection to Revolution: Social Bases of Agrarian Violence, 1750–1940. Princeton: Princeton University Press 1986, bls. 327.
 3. Friedrich Katz, The Secret War in Mexico: Europe, the United States, and the Mexican Revolution. Chicago: University of Chicago Press 1981, bls. 35.
 4. Katz, The Secret War in Mexico p. 35.
 5. „MEXICAN REVOLUTION 1910–1920“. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. maí 2017. Sótt 17. júlí 2017.
 6. Christon Archer, "Military, 1821–1914" í Encyclopedia of Mexico, 2. bindi, bls. 910. Chicago: Fitzroy and Dearborn 1997.
 7. Friedrich Katz, The Secret War in Mexico: Europe, the United States, and the Mexican Revolution. Chicago: University of Chicago Press 1981.
 8. Michael LaRosa and German R. Mejia (2007). An Atlas and Survey of Latin American History. M.E. Sharpe. bls. 150.
 9. John Womack, Jr. “The Mexican Revolution” in Mexico Since Independence, ed. Leslie Bethell. Cambridge: Cambridge University Press 1991, bls. 125
 10. Knight,"Mexican Revolution: Interpretations" pp. 869–873.
 11. Knight, Alan (1. maí 1980). „The Mexican Revolution“. History Today. 30 (5): 28. Sótt 5. nóvember 2011.
 12. Cockcroft, James (1992). Mexico: Class Formation, Capital Accumulation, & the State. Monthly Review Press.