Fara í innihald

Melasól

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Oreomecon radicata)
Melasól

Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ættbálkur: Sóleyjabálkur (Ranunculales)
Ætt: Draumsóleyjaætt (Papaveraceae)
Ættkvísl: Papaver
Tegund:
P. radicatum

Tvínefni
Papaver radicatum
L.

Melasól (oft einnig nefnd draumsóley) (fræðiheiti: Papaver radicatum) er plöntutegund af draumsóleyjaætt. Hún er heimskautajurt sem til dæmis finnst á Grænlensku eyjunni, Eyju kaffiklúbbsins (d. Kaffeklubben Ø, gl. Inuit Qeqertaat), sem talin er nyrsta eyja heims, sem gerir Melasól, ásamt Vetrarblómi (Saxifraga oppositifolia) sem einnig finnst á eyjunni, þá jurt sem vex nyrst allra jurta. Algengust er hún á Nunavut svæði Kanada, einnig vex hún á Norður-Grænlandi og Svalbarða. Í Noregi og Svíþjóð finnst hún aðeins á litlum mjög norðlægum fjalla svæðum. Á Íslandi er hún algeng í melum norðvestanlands og á Austfjörðum.

Hún hefur langa og gilda stólparót og ganga upp af henni einn eða fleiri 5-20 sentímetra langir stönglar sem bera skærgul, hvít og bleik blóm. Hvít og bleik litarafbrigði einnig til og eru alfriðuð. Blómgast í júní og júlí. Blöðin fjaðurskipt, grágræn og mynda stofnhvirfingu. Öll er jurtin stinnhærð. Tegundin er allbreytileg og hefur verið skipt í undir- og deilitegundir.

Tvö af nöfnum hennar eru kennd við vaxtarstað og blómið, melasól og melasóley. Hún er einnig þekkt undir nöfnunum draumsóley, skaftleggjuð svefnurt, svefngras og svefnurt. Sennilega eru þessi heiti af erlendum toga og benda til þess að jurtin hafi verið talin svæfandi væri hennar neytt. Nafnið snjóblómstur er þekkt úr einni heimild.

Björn Halldórsson í Sauðlauksdal segir jurtina vera lækningarjurt og hafa svæfandi kraft og að blóm sem legið hafa í sterku víni séu góð við brjóstveiki, hreinsi þykkt og gruggugt blóð. Einnig telur hann gott að leggja blómin við ennið og gagnaugun til að lækna höfuðverk. Á öðrum stað er aftur á móti sagt að melasólin sé eitruð og að ekki megi neyta hennar.

Í tímaritinu Náttúrufræðingurinn árið 1937 stendur:

„Af einlendum tegundum og afbrigðum, er skapazt hafa innan Skandinavíu á hinum íslausu „eyjum“ þar, er melasólin einna merkust.“ [1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Náttúrufræðingurinn 1937
  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.