Fara í innihald

Níkolaj Búlganín

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Nikolai Bulganin)
Níkolaj Búlganín
Николай Булганин
Búlganín árið 1955.
Forsætisráðherra Sovétríkjanna
Í embætti
8. febrúar 1955 – 27. mars 1958
ForsetiKlíment Voroshílov
ForveriGeorgíj Malenkov
EftirmaðurNíkíta Khrústsjov
Varnarmálaráðherra Sovétríkjanna
Í embætti
15. mars 1953 – 9. febrúar 1955
ForsætisráðherraGeorgíj Malenkov
ForveriAleksandr Vasílevskíj
EftirmaðurGeorgíj Zhúkov
Persónulegar upplýsingar
Fæddur11. júní 1895
Nízhníj Novgorod, rússneska keisaradæminu
Látinn24. febrúar 1975 (79 ára) Moskvu, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Sovétríkjanna (1917–1960)
MakiJelena Míkhaílovna Korovína
Börn2
StarfHermaður, stjórnmálamaður

Níkolaj Aleksandrovítsj Búlganín (rússneska: Никола́й Алекса́ндрович Булга́нин; 11. júní 1895 – 24. febrúar 1975) var forsætisráðherra Sovétríkjanna frá 1955 til 1958. Hann var jafnframt varnarmálaráðherra eftir að hafa gegnt þjónustu í rauða hernum á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar.

Búlganín fæddist árið 1895 í Nízhníj Novgorod og var sonur efnaðra foreldra sem kostuðu hann til náms. Hann gekk í byltingarflokk bolsévika stuttu fyrir upphaf rússnesku byltingarinnar 1917.[1] Búlganín vann í fyrstu fyrir leyniþjónustuna Tsjeka en færði sig síðan yfir í iðnaðinn.[2]

Frammistaða Búlganíns í byltingunni vakti athygli Jósefs Stalín, sem bauð honum að koma til Moskvu, þar sem hann hlaut stöðu bankastjóra þrátt fyrir að hafa enga reynslu af fjármálum. Búlganín var í kjölfarið kjörinn borgarstjóri Moskvu og gegndi því embætti í sex ár.[1] Hann vann fyrst í borginni í umboði Lazars Kaganovítsj og síðar undir stjórn Níkíta Khrústsjov, sem tók við af Kaganovítsj sem pólitískur yfirmaður höfuðborgarinnar.[2]

Þegar Þjóðverjar gerðu innrás í Sovétríkin árið varð Búlganín aðalskipuleggjandi varna höfuðborgarinnar. Hann kvaddi fjölda fólks í herþjónustu og lét senda bæði karla og konur til fremstu víglínu. Eftir stríðið reis Búlganín hratt upp metorðastigann. Hann var gerður varnarmálaráðherra og eftir andlát Stalíns varð hann einn fjögurra varaforsætisráðherra Sovétríkjanna. Búlganín tók þó ekki virkan þátt í valdabaráttunni sem háð var milli annarra áhrifamanna í Kommúnistaflokknum eftir dauða Stalíns.[1]

Í febrúar árið 1955 var Búlganín einróma kjörinn forsætisráðherra Sovétríkjanna í stað Georgíj Malenkov. Kosning Búlganíns vakti nokkra undrun og margir töldu þá þegar að Khrústsjov, sem þá var orðinn leiðtogi Kommúnistaflokksins, færi í reynd með mest völd í stjórninni.[1]

Búlganín féll í ónáð árið 1957 þegar hann tók afstöðu með Malenkov, Vjatsjeslav Molotov og meirihluta stjórnmálanefndar flokksins þegar reynt var að gera uppreisn gegn Khrústsjov. Búlganín fékk áfram að gegna stöðu forsætisráðherra í eitt ár til viðbótar en var síðan leystur úr embætti og Khrústsjov tók sjálfur við. Búlganín varð að gangast við því að hafa stjórnað „flokksfjandsamlegri klíku“. Hann var skipaður í stöðu úti á landsbyggðinni en tók síðan til málamynda við stöðu bankastjóra landsbankans.[3]

Árið 1971 hafði Búlganín verið sviptur öllum flokksstörfum og marskálsknafnbótinni, lækkaður í tign og gerður að hershöfðingja. Hann bjó í Moskvu þar til hann lést árið 1975 og var þá að mestu fallinn í gleymsku meðal Sovétmanna.[3]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Nikolai Alexandrovich Bulganin“. Samvinnan. 1. september 1955. bls. 15.
  2. 2,0 2,1 Edward Crankshaw (21. júní 1955). „Bulganin er framkvæmdastjórinn – en markar ekki stefnuna“. Morgunblaðið. bls. 9; 11.
  3. 3,0 3,1 „Nikolai Bulganin marskálkur látinn“. Morgunblaðið. 26. febrúar 1975. bls. 13.


Fyrirrennari:
Georgíj Malenkov
Forsætisráðherra Sovétríkjanna
(8. febrúar 195527. mars 1958)
Eftirmaður:
Níkíta Khrústsjov


  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.