Fara í innihald

Nefco - Norræni græni bankinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá NEFCO)
Merki NEFCO
NEFCO - Norræni græni bankinn

Nefco - Norræni græni bankinn (eða NEFCO Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið), er alþjóðleg fjármálastofnun sem hefur það að meginmarkmiði styðja sett umhverfis- og loftslagsmarkmið á heimsvísu með því að fjármagna alþjóðlega uppbyggingu norrænna grænna lausna.[1]

Það er gert með því að fjármagna lítil og meðalstór vaxtarfyrirtæki sem með starfsemi sinni hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og/eða loftslag.[2] Auk þess stendur NEFCO fyrir verkefnum í Austur-Evrópu með það að markmiði að styðja græna umbreytingu sveitarfélaga og græna uppbyggingu í Úkraínu.[3] NEFCO stýrir einnig sérhæfðum sjóðum sem m.a. stuðla að heilbrigðu Eystrasalti og sjálfbærri þróun í Afríku.[4] Þá stýrir NEFCO Norræna verkefnaútflutningssjóðnum (NOPEF).[5]

Höfuðstöðvar NEFCO eru í Helsinki, Finnlandi auk skrifstofu í Kænugarði, Úkraínu.[6]

Aðildarríki

[breyta | breyta frumkóða]

NEFCO (e. Nordic Environment Finance Corporation) er alþjóðleg fjármálastofnun sem stofnuð var árið 1990 af norrænu ríkjunum fimm, Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, sem enn í dag eru eigendur stofnunarinnar. Stjórn NEFCO er skipuð fulltrúum eigenda stofnunarinnar en NEFCO á einnig í samstarfi við aðrar fjármálastofnanir í eigu norrænu ríkjanna, þ.e. Norræna fjárfestingarbankann og Norræna þróunarsjóðinn auk fleiri norrænna stofnana, t.d. Norrænu ráðherranefndina.[7]

Starfsemi NEFCO beinist einkum að því að styðja við verkefni sem eru hagkvæm og til hagsbóta fyrir umhverfið. Með þessu er stuðlað að grænum hagvexti og hreinni framleiðslutækni, ýtt undir sjálfbæran landbúnað, dregið úr losun mengandi efna í iðnaði, aukin hlutdeild endurnýjanlegrar orku og orkunýting bætt. [8]

NEFCO setur í forgang verkefni sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, bæta vistfræðilegt ástand Eystrasaltsins eða draga úr áhrifum eitraðra mengunarvalda. Þannig fjármagnar NEFCO umhverfisvæn verkefni í norðvesturhluta Rússlands, Úkraínu, Hvíta-Rússlandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Ekki eru veitt lán til verkefna á Norðurlöndunum.

Verkefni byggjast á samstarfi fyrirtækis eða stofnunar á Norðurlöndunum við fyrirtæki, stofnun eða sveitarfélag í einu af starfslöndum sjóðsins. NEFCO veitir „mjúk lán“, þ.e. lán sem veitt eru á hagstæðari vöxtum en almennt eru í boði á fjármálamörkuðum.

NEFCO hefur sett á laggirnar eða annast 15 ólíka fjárvörslusjóði til að fjármagna og styðja við ólík verkefni. Meðal þeirra eru: Fjárfestingarsjóðurinn; Norræni umhverfisþróunarsjóðurinn; Kolefnissjóður (NeCF); Fjármögnun heitra svæða við Barentshaf (e. Barents Hot Spots Facility); og Utan dreifikerfis sjóðurinn fyrir Afríku (e. Beyond the Grid Fund for Africa). [9]

Árið 2021 höfðu fjárvörslusjóðir NEFCO fjármagnað verkefni í alls 54 ríkjum.[10]

Frá stofnun NEFCO (1990-2021) hefur fjármögnunarfélagið tekið þátt í meira en 1.400 litlum og meðalstórum verkefnum í meira en 80 ríkjum: Verkefnin eru á ólíkum sviðum, þar á meðal: efna-, málm- og matvælaiðnaðar, landbúnaðar, vatnshreinsunar, rafveitna, þjónustu sveitarfélaga, sorpmeðferðar, umbóta á kjarnorkusviði, umhverfisstjórnunar og framleiðslu umhverfisbúnaðar.[11]

Norræni verkefnaútflutningssjóðurinn (NOPEF) er sjóður sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og er í umsjá NEFCO. Meginmarkmiðið með starfsemi NOPEF er að styrkja alþjóðlega samkeppnishæfni lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Norðurlöndum. Sjóðurinn hvetur þannig til þátttöku norrænna fyrirtækja í verkefnum á alþjóðavettvangi, með áherslu á verkefni tengd umhverfisvænum lausnum. Hann veitir hagstæð, vaxtalaus lán og styrki til undirbúnings verkefna í löndum utan EES.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „About the Nordic Green Bank“. Nefco (bandarísk enska). Sótt 16. október 2024.
  2. „Financing Nordic green companies“. Nefco (bandarísk enska). Sótt 16. október 2024.
  3. „Green investing in Eastern Europe“. Nefco (bandarísk enska). Sótt 16. október 2024.
  4. „Green financing around the globe“. Nefco (bandarísk enska). Sótt 16. október 2024.
  5. „Financial support for green solutions - Nopef“. Nefco (bandarísk enska). Sótt 16. október 2024.
  6. „Contact us“. Nefco (bandarísk enska). Sótt 16. október 2024.
  7. „Governing bodies of Nefco - the Nordic Green Bank“. Nefco (bandarísk enska). Sótt 16. október 2024.
  8. „Skýrsla Eyglóar Harðardóttur samstarfsráðherra Norðurlanda um störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2013 (Lögð fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013-2014)“ (PDF). Alþingi. 2014. bls. 67-68. Sótt 5. mars 2021.
  9. NEFCO (2021). „Funds managed by NEFCO“. NEFCO. Sótt 5. mars 2021.
  10. NEFCO (2021). „Our trust fund assignments“. NEFCO. Sótt 5. mars 2021.
  11. NEFCO (2020). „Nefco Annual Review 2019“ (PDF). NEFCO. bls. 20. Sótt 5. mars 2021.