Niue

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Níve)
Niue
Fáni Niue Skjaldarmerki Niue
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Ko e Iki he Lagi
Staðsetning Niue
Höfuðborg Alofi
Opinbert tungumál enska, niueska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Karl 3.
Landstjóri Cindy Kiro
Forsætisráðherra Dalton Tagelagi
Tengdarríki Nýja-Sjálands
 • Stjórnarskrársamþykkt Niue 19. október 1974 
 • Sjálfstæði í utanríkismálum 1994 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
188. sæti
261,46 km²
0
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
194. sæti
1.620
6,71/km²
VLF (KMJ) áætl. 2003
 • Samtals 0,01 millj. dala (228. sæti)
 • Á mann 5.800 dalir (164. sæti)
Gjaldmiðill nýsjálenskur dalur (NZD)
Tímabelti UTC-11
Þjóðarlén .nu
Landsnúmer +683

Niue er eyríki í Suður-Kyrrahafi um 2.400 km norðaustur af Nýja-Sjálandi innan þríhyrningsins sem dreginn er milli Tonga, Samóa og Cookseyja í Pólýnesíu. Land Niue er um 261 ferkílómetrar og íbúar um 1600 talsins. Eyjan er stundum kölluð „Kletturinn“ (enska: The Rock) sem er dregið af alþýðuheitinu „Klettur Pólýnesíu“.[1] Niue er upplyft kóralrif og ein af stærstu kóraleyjum heims. Landslag eyjarinnar einkennist af tveimur þrepum, þar sem annars vegar eru háir klettar og hálendisslétta úr kalksteini í um 60 metra hæð yfir sjávarmáli, og hins vegar hallandi strandslétta sem endar í lágum klettum við ströndina. Umhverfis eyjuna er kóralrif og eina leiðin inn fyrir það er á vesturströndinni þar sem höfuðborgin, Alofi, er.

Niue er með heimastjórn en er þó í sambandi við Nýja Sjáland hvað varðar ýmis utanríkismál og þjóðhöfðingja. Landið er hluti af Konungsríki Nýja-Sjálands. Íbúar Niue eru þannig nýsjálenskir ríkisborgarar og þjóðhöfðingi Nýja-Sjálands, Karl 3. Bretakonungur, er jafnframt þjóðhöfðingi Niue sem konungur Nýja-Sjálands. Milli 90 og 95% af fólki sem er upprunnið á Niue býr á Nýja-Sjálandi.[2] Þar búa líka um 70% þeirra sem tala niuesku sem er pólýnesískt mál, skylt tongversku.[3] Á Niue eru tvö opinber tungumál og um 30% íbúa tala bæði niuesku og ensku. Um 11% tala aðeins ensku en um 46% tala aðeins niuesku.

Pólýnesar settust að á Niue um 900 e.Kr. og fleiri landnemar komu frá Tonga á 16. öld. Allt til upphafs 18. aldar virðist ekki hafa verið um neina ríkisstjórn eða þjóðhöfðingja að ræða á Niue en eftir 1700 tóku íbúarnir sér konunga að dæmi Tonga eða Samóa. Fyrsti Evrópubúinn sem kom auga á eyjuna var James Cook árið 1774. Hann nefndi eyjuna Villimannaeyju (Savage Island) þar sem eyjarskeggjar vörnuðu honum landgöngu og höfðu, að því er honum sýndist, blóð á tönnunum, sem var í raun rauður banani. Næsta heimsókn Evrópumanna var frá Trúboðsfélagi Lundúna árið 1846. Íbúar snerust smám saman til kristni á síðari hluta 19. aldar. Árið 1887 bauð konungurinn, Fata-a-iki, Bretlandi yfirráð á eyjunni til að tryggja vernd gegn öðrum nýlenduveldum, en Bretar þáðu ekki boðið fyrr en árið 1900. Árið 1901 var eyjan sameinuð Nýja Sjálandi. Íbúar fengu heimastjórn í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1974.

Niue er ekki aðili að Sameinuðu þjóðunum en á aðild að sumum undirstofnunum þeirra, eins og UNESCO og Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni.[4][5]. Fulltrúum landsins er boðið, ásamt fulltrúum Cookseyja, að taka þátt í fundum Sameinuðu þjóðanna sem opnir eru öllum löndum. Niue hefur verið aðili að Kyrrahafsráðinu frá 1980.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Gervinhnattarmynd af Niue.

Niue er 269 km² upplyft kóralrif í Suður-Kyrrahafi, austan við Tonga.[6] Auk þess eru þrjú kóralrif innan efnahagslögsögu Niue:

  1. Beveridge-rif, 240 km suðaustan við Niue, flæðihringrif sem er á þurru á fjöru. 9,5 km að lengd frá norðri til suðurs og 7,5 km frá austri til vesturs, 56 km² að stærð, með ekkert land og 11 metra djúpt lón..
  2. Antiope-rif, 180 km norðaustan við Niue, hringlaga klettur, um 400 metrar í þvermál, með 9,5 metra minnstu dýpt.
  3. Haran-rif (líka þekkt sem Haransrif), 294 km suðaustan við Niue.

Fyrir utan þessi rif er Albert Meyer-rif, um 5 km að lengd og breidd, minnsta dýpt 3 metrar, 326 km suðvestan við Niue sem ekki hefur gert formlegt tilkall til þess, og Haymet-sker, 1.273 km austsuðaustur af Niue sem óvissa ríkir um.

Niue er ein af stærstu kóraleyjum heims. Meðfram ströndinni eru brattir kalksteinsklettar sem liggja að hálendissléttu í um 60 metra hæð yfir sjávarmáli. Umhverfis eyjua er kóralrif og eina leiðin inn fyrir það er um sund á miðri vesturströndinni, nálægt höfuðborginni, Alofi. Margir kalksteinshellar eru við sröndina.

Eyjan er sporöskjulaga, um 18 km á breidd, með tvær stórar víkur sem ganga inn í vesturströndina. Alofi-vík er í miðjunni og Avatele í suðri. Milli þeirra er skaginn Halagigie Point. TePā Point er lítill skagi nálægt byggðinni á Avatele í suðvestri. Flestir íbúar búa við vesturströndina, í kringum höfuðborgina og í norðvesturhlutanum.

Hluti af jarðveginum á eyjunni hefur óvenjulega efnasamsetningu. Þetta er mjög veðraður hitabeltisjarðvegur með mikið magn járn- og áloxíða (oxisol) og kvikasilfurs, og er mjög geislavirkur. Það er næstum ekkert úran en geislavirku núklíðin Th-230 og Pa-231 leiða sundrunarferlin. Þetta er sams konar efnasamsetning og finnst náttúrulega í djúpsjávarseti, en rannsóknir benda til þess að þessi efni eigi sér uppruna í mikilli veðrun kórals og stuttri dvöl neðansjávar fyrir um 120.000 árum. Hitauppstreymi, þar sem lágur jarðhiti dregur djúpsjó upp á yfirborðið gegnum gisinn kóralinn á örugglega þátt í þessari efnasamsetningu.[7]

Engin neikvæð heilsufarsleg áhrif geislunar eða frá öðrum snefilefnum hafa komið fram í rannsóknum, og útreikningar sýna að geislavirknin er líklega allt of lítil til að finnast í fólki. Þessi óvenjulegi jarðvegur er ríkur af fosfati, en í mjög óaðgengilegu formi, sem járnfosfat, eða crandallít. Talið er að svipaðan jarðveg megi finna á eyjunum Lifou og Mare við Nýju-Kaledóníu, og Rennell á Salómonseyjum, en ekki er vitað um aðra staði þar sem hann finnst.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni eru íbúar eyjarinnar viðkvæmir fyrir húðkrabbameini. Andlát vegna húðkrabbameins var 2.482 á 100.000 íbúa árið 2002, sem er miklu meira en í nokkru öðru landi.[8]

Niue liggur handan við daglínuna miðað við Nýja-Sjáland. Tímamismunurinn er 23 tímar á veturnar og 24 tímar á sumrin þegar Nýja-Sjáland tekur upp sumartíma.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Þorp Niue.

Niue skiptist í 14 þorp (sveitarfélög). Hvert þorp hefur sitt þorpsráð sem kýs sér formann. Þorpin eru líka kjördæmi. Hvert þorp kýs einn þingmann á Þing Niue.[9]

Alofi norður og Alofi suður eru bæði hluti af höfuðborg Niue, Alofi (614 íbúar).

Nr. Þorp Íbúar
(manntal 2017)[10]
Stærð[11]
km2
Þéttleiki
(km−2)
Motu (sögulegt ættbálkahérað í norðurhlutanum)
1 Makefu 70 17,13 4,1
2 Tuapa 112 12,54 8,9
3 Namukulu 11 1,48 7,4
4 Hikutavake 49 10,17 4,8
5 Toi 22 4,77 4,6
6 Mutalau 100 26,31 3,8
7 Lakepa 87 21,58 4
8 Liku 98 41,64 2,4
Tafiti (sögulegt ættbálkahérað í suðurhlutanum)
9 Hakupu 220 48,04 4,6
10 Vaiea 115 5,40 21,3
11 Avatele 143 13,99 10,2
12 Tamakautoga 160 11,93 13,4
13 Alofi suður 427 46,48 12,8
14 Alofi norður 170
Niue 1.784 261,46 6,8

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Introducing Niue“. Lonely Planet. Afrit af upprunalegu geymt þann 25 október 2016. Sótt 24. október 2016.
  2. „QuickStats About Pacific Peoples“. Statistics New Zealand. 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. nóvember 2011. Sótt 28. október 2011.
  3. Moseley, Christopher; R. E. Asher, ritstjórar (1994). Atlas of the World's Languages. New York: Routledge. bls. 100.
  4. „Niue“. UNESCO International Bureau of Education. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. september 2015. Sótt 26. maí 2021.
  5. „List of member countries“. World Health Organization.
  6. Jacobson G, Hill PJ (1980) Hydrogeology of a raised coral atoll, Niue Island, South Pacific Ocean. Journal of Australian Geology and Geophysics, 5 271–278.
  7. Whitehead, N. E.; J. Hunt; D. Leslie; P. Rankin (júní 1993). „The elemental content of Niue Island soils as an indicator of their origin“ (PDF). New Zealand Journal of Geology & Geophysics. 36 (2): 243–255. doi:10.1080/00288306.1993.9514572. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 2. desember 2007. Sótt 3. desember 2007.
  8. „UV radiation: Burden of disease by country“. World Health Organization, Global Health Observatory Data Repository. 2002.
  9. Niue Village Councils Ordinance 1967
  10. „Niue Household and Population Census 2017“ (PDF). niue.prism.spc.int. Niue Statistics Office. Sótt 5. maí 2020.
  11. The Total Land Area of Niue
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.