Fara í innihald

Mohammad Najibullah

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mohammad Najibullah
Mohammad Najibullah árið 1986.
Forseti Afganistans
Í embætti
30. september 1987 – 16. apríl 1992
Forsætisráðherra
Varaforseti
ForveriMúhameð Daúd Khan (1978)
EftirmaðurBurhanuddin Rabbani
Aðalritari miðnefndar Alþýðulýðræðisflokks Afganistans
Í embætti
4. maí 1986 – 16. apríl 1992
ForveriBabrak Karmal
EftirmaðurEmbætti lagt niður
Persónulegar upplýsingar
Fæddur6. ágúst 1947
Gardez, Afganistan
Látinn27. september 1996 (49 ára) Kabúl, Afganistan
DánarorsökHengdur
StjórnmálaflokkurLýðræðislegi alþýðuflokkurinn
MakiFatana Najib
Börn3
HáskóliHáskólinn í Kabúl
StarfLæknir, stjórnmálamaður

Mohammad Najibullah Ahmadzai (pastú: محمد نجیب‌الله احمدزی‎; 6. ágúst 1947 – 27. september 1996), gjarnan kallaður Dr. Najib, var afganskur stjórnmálamaður sem var forseti Afganistans frá 1987 til 1992. Najibullah var leiðtogi Lýðræðislega alþýðuflokksins, sem fór fyrir kommúnísku flokksræði í Alþýðulýðveldinu Afganistan frá 1978 til 1992.

Allan þann tíma sem Najibullah var við völd átti stjórn hans í borgarstríði gegn andspyrnuhreyfingum Mujahideen-liða sem nutu stuðnings Bandaríkjanna. Sovétríkin höfðu barist við hlið kommúnistastjórnarinnar frá árinu 1979 en sovéski herinn var kallaður frá Afganistan árið 1988. Najibullah tókst ekki að stilla til friðar eftir brottför Sovétmanna og hann neyddist til að segja af sér árið 1992, stuttu áður en Mujahideen-liðar hertóku afgönsku höfuðborgina Kabúl.

Eftir afsögn sína reyndi Najibullah að flýja til Indlands en tókst það ekki. Hann bjó í einangrun í Kabúl næstu fjögur árin en var tekinn af lífi með hrottafengnum hætti þegar Talíbanar komust til valda árið 1996.

Najibullah var Pastúni og kominn af Ahmadzai-ættbálknum nærri landamærum Afganistans og Pakistans. Hann útskrifaðist með gráðu í læknisfræði frá Háskólanum í Kabúl.[5]

Najibullah komst til áhrifa sem bandamaður kommúnistaleiðtogans Babraks Karmal og var skipaður sendiherra Afgana í Teheran eftir að kommúnistar brutust til valda í Afganistan árið 1978. Najibullah var meðal fárra Pastúna í hinum svokallaða Parcham- eða „fánaarmi“ Lýðræðislega alþýðuflokksins, sem Karmal hafði stofnað og var aðallega skipaður persneskumælandi Afgönum. Parcham-armurinn deildi innan flokksins við Khalq- eða „alþýðuarminn“ og leiddu þær deilur til þess að Najibullah hrökklaðist úr sendiherrastöðunni og leitaði hælis í Sovétríkjunum eða Austur-Evrópu.[5]

Najibullah sneri aftur til Afganistans eftir að Sovétmenn gerðu innrás í landið árið 1979 til að hjálpa kommúnistastjórninni gegn uppreisnarhópum. Eftir endurkomu sína til Kabúl varð Najibullah yfirmaður leynilögreglunnar KHAD og breytti henni í „öflugt og beinskeytt vopn byltingarinnar“.[5] Hann stækkaði KHAD-lögregluna og endurskipulagði hana með aðstoð sovésku leyniþjónustunnar KGB. Leynilögreglunni var síðan beitt til þess að fá ættbálka Pastúna til þess að loka leiðum Mujihadeen-skæruliða yfir pakistönsku landamærin. Þetta var meðal annars gert með því að beita mútum til að grafa undan fylgi skæruliðanna og etja ættbálkunum sem studdu þá hverjum gegn öðrum. Najibullah tókst þetta vel upp þar sem hann var vel kunnugur staðháttum á þessum slóðum.[5]

Babrak Karmal sagði af sér sem leiðtogi Lýðræðislega alþýðuflokksins árið 1986 og Najibullah var útnefndur eftirmaður hans. Opinberlega var afsögn hans af heilsufarsástæðum en ljóst þótti að Sovétmenn hefðu beitt hann þrýstingi til að hætta og að Míkhaíl Gorbatsjov, leiðtogi Sovétríkjanna, hefði ráðið mestu um valið á Najibullah til að taka við af honum. Óánægju hafði gætt meðal Sovétmanna með Karmal þar sem honum hafði ekki tekist að mynda stjórn á nógu breiðum grundvelli.[5]

Á nýársdag árið 1987 tilkynnti Najibullah áætlun um þjóðarsátt sem fól í sér sakaruppgjöf og áskorun til skæruliða um að leggja niður vopnin. Hann bauðst jafnframt til að deila völdum með leiðtogum Mujahideen-liðanna og lýsti þann 15. janúar yfir hálfs árs vopnahléi sem síðar var framlengt til ársins 1988. Andspyrnuhóparnir gáfu lítið fyrir yfirlýsingar Najibullah, sögðu þær áróðursbrögð og að bardagar hefðu í raun harðnað á stjórnartíð hans.[6] Najibullah reyndi að auka stuðning við stjórn sína með ýmsum umbótum sem meðal annars afnámu flokksræði kommúnistaflokksins, gerðu íslam formlega að ríkistrú Afganistans og heimiluðu útlægum viðskiptamönnum að snúa aftur til landsins til að endurheimta eignir sínar.[7] Najibullah viðraði jafnframt hugmyndir um að leyfa Múhameð Zahir Sja, hinum landflótta fyrrum konungi Afganistans, að snúa heim.[8]

Staða Najibullah veiktist til muna eftir að Sovétmenn drógu herafla sinn frá Afganistan árið 1988. Stjórn Najibullah tapaði miklu landsvæði til Mujahideen-liða og í reynd skapaðist umsátursástand í höfuðborginni þar sem Najibullah varð að kljást við matar- og vöruskort.[9] Árið 1990 gerði Shahnawaz Tanai, sem var meðlimur í Khalq-armi Lýðræðislega alþýðuflokksins tilraun til valdaráns gegn Najibullah.[10] Tanai hafði gert bandalag við pakistönsku leyniþjónustuna og við Gulbuddin Hekmatyar, einn leiðtoga Mujahideen-liðanna. Valdaránstilraunin fór út um þúfur og Tanai flúði í kjölfarið til Pakistans.[11]

Najibullah neyddist loks til þess að segja af sér árið 1992, stuttu áður en Mujahideen-liðar hertóku Kabúl. Burhanuddin Rabbani, sem varð nýr forseti Afganistans, þyrmdi lífi Najibullah en hann fékk ekki að halda í útlegð til Indlands líkt og hann ætlaði sér. Najibullah bjó næstu árin í einangrun í húsnæði Sameinuðu þjóðanna í Kabúl. Þegar Talíbanar, hreyfing öfgasinnaðra múslima, tóku yfir Kabúl árið 1996 var Najibullah handtekinn og hann tekinn af lífi. Najibullah var pyntaður, geldur og lík hans dregið um götur borgarinnar aftan í trukki.[12][13] Líkið var loks hengt til sýnis niður af umferðarturni í miðri borginni.[14]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. National Foreign Assessment Center (1987). Chiefs of State and Cabinet members of foreign governments (enska). Washington, DC: Central Intelligence Agency. bls. 1. hdl:2027/uc1.c050186243.
  2. Chiefs of State and Cabinet members of foreign governments (enska). Washington, DC: National Foreign Assessment Center, Central Intelligence Agency. 1988. bls. 1. hdl:2027/osu.32435024019804.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 National Foreign Assessment Center (1991). Chiefs of State and Cabinet members of foreign governments (enska). Washington, DC: Central Intelligence Agency. bls. 1. hdl:2027/osu.32435024019754.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 Whitaker, Joseph (desember 1991). Whitaker's Almanac 1992 124. William Clowes. ISBN 978-0-85021-220-4.
  5. 5,0 5,1 5,2 5,3 5,4 „Uxinn — nýr leppur í Kabul“. Morgunblaðið. 1. júní 1986. bls. 2-3.
  6. „Atburðarásin í Afganistan 1978-'88“. Morgunblaðið. 11. febrúar 1988. bls. 27.
  7. „New Afghan leadership's 'national reconciliation' policy signals welcome changes“. India Today.
  8. „Þjóðarsátt miðar hægt“. Þjóðviljinn. 6. mars 1987. bls. 7.
  9. „Umsátursástand í Kabúl“. Tíminn. 7. febrúar 1989. bls. 14-15.
  10. „Valdaránstilraun í Afganistan“. Dagblaðið Vísir. 7. mars 1990. bls. 9.
  11. „Misheppnuð byltingartilraun í Afganistan“. Tíminn. 7. mars 1990. bls. 4.
  12. Parry, Robert (7. apríl 2013). „Hollywood's Dangerous Afghan Illusion“. Consortiumnews.com. Consortium News. Sótt 31. janúar 2018.
  13. Rashid, Ahmed (2002). Taliban: Islam, Oil and the New Great Game in Central Asia. I.B. Tauris & Company. bls. 49. ISBN 978-1845117887.
  14. „Lög íslams taka gildi í Kabúl“. Morgunblaðið. 28. september 1996. bls. 20.


Fyrirrennari:
Haji Mohammad Chamkani
Forseti Afganistans
(30. september 198716. apríl 1992)
Eftirmaður:
Abdul Rahim Hatif
(starfandi)
Fyrirrennari:
Babrak Karmal
Aðalritari miðnefndar Alþýðulýðræðisflokks Afganistans
(4. maí 198616. apríl 1992)
Eftirmaður:
Enginn