Fara í innihald

Miltisbrandur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Miltisbrandsbakteríur

Miltisbrandur (Anthrax) er smitsjúkdómur af völdum bakteríunnar Bacillus anthracis. Hann kemur fyrir í villidýrum og húsdýrum en getur smitast yfir í fólk sem kemst í snertingu við smituð dýr, hræ eða mikið magn af miltisbrandsgróum. Enn eru engin dæmi um að sýkt fólk beri smit. Miltisbrandur finnst um allan heim, en er þó fyrst og fremst algengur hjá jurtaætum þó hann geti borist í menn og fugla.

Sýkillinn getur myndað dvalargró. Gróin geta lifað áratugum saman í jarðvegi, einkum rökum og súrum. Við jarðrask á stöðum þar sem sýkt dýr voru urðuð geta gróin borist í menn og dýr. Gróin sem eru 2-6 míkron í þvermál geta sest á slímhúð í öndunarvegum manna og dýra. Við hagstæð skilyrði inn í hýsli vakna gróin af dvalanum og bakterían tekur að fjölga sér.

Þekkt eru 89 afbrigði af miltisbrandi.

Einkenni miltisbrands

[breyta | breyta frumkóða]

Einkennin fara eftir því hvernig smit hefur borist inn í líkamann, hvort það hefur komið í gegnum meltingarveg, húð eða öndunarveg. Ef smit hefur borist í dýr vegna smitunar í jarðvegi þá berst sýkillinn inn í blóðrás og sogæðakerfi um meltingarveg og milta bólgnar og skemmist vegna dreps. Af því er nafnið miltisbrandur dregið. Ef smit hefur borist í gegnum húð þá myndast kýli sem rofnar síðar. Kýlið er með svörtum sárbotni vegna dreps. Algengast er að smit berist í menn á þann hátt ef þeir meðhöndla sýkt dýr eða ull, kjöt og skinn af dýrum sem hafa dáið úr miltisbrandi. Efnnnarveg geta þeir borist þaðan í eitilvef og valdið þar sýkingu, drepi og blóðsýkingu.

Miltisbrandur á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Talið er að miltisbrands hafi fyrst orðið vart á Íslandi árið 1865 en árið áður hófst innflutningur á ósútuðum, hertum húðum frá Afríku. Miltisbrandur hefur á íslensku einnig verið nefndur miltisbruni, miltisdrep, miltisbráðadauði og skinnapest. Sjúkdómsins varð síðar vart af og til. Miltisbrandur kom upp í Ölfusi 1965. Í desember árið 2004 kom upp miltisbrandur í fjórum hrossum sem höfðu haldið til við eyðibýlið Sjónarhól á Vatnsleysuströnd.

Miltisbrands virðist fyrst hafa orðið vart árið 1865 á Skarði á Skarðströnd en þá drápust á annað hundrað fjár vegna sjúkdómsins. Árið eftir kom upp miltisbrandur í Miðdal í Mosfellsveit og þar drápust 20 stórgripir (hross og nautgripir) en einnig lömb og hundar. Ári seinna kom aftur upp miltisbrandur á sama bæ. Upp úr 1870 fór meira á bera á veikinni, einkum í Reykjavík og nærsveitum en það er talið tengjast því að um þetta leyti hófst innflutningur á ósútuðum, hertum húðum sem komu um Kaupmannahöfn en voru frá Zansibar í Afríku. Þessar aðfluttu húðir voru allt að helmingi ódýrari en innlendar húðir en einnig var skortur á húðum vegna útflutnings á hrossum og sauðfé. Árið 1890 er talið að fluttar hafi verið til landsins um 4000 stórgripahúðir. Erlendu húðirnar þurfti að leggja í bleyti áður en hægt var að vinna úr þeim og ef húðirnar voru mengaðar miltisbrandsbakteríum smituðust dýr sem komust í það vatn. Árið 1891 var flutt frumvarp á Alþingi til að sporna við hættu af innfluttum hertum húðum og skinnum en ekki var lagt bann við innflutningi. Árið 1902 er samþykkt lög þar sem Alþingi er heimilt að banna innflutning á ósútuðum húðum. Seinna voru einnig sett lög sem banna innflutning á kjöt- og beinmjöli og íblöndun þess í kjarnfóður.

Árið 1901 lést maður í Reykjavík eftir að hafa neytt kjöts af kú með miltisbrand. Árið 1901 kom upp miltisbrandur á bæ og drap mestalla nautgripi á bænum. Bóndinn hafði keypt útlenta herta húð og lagt hana í breyti í bæjarlæknum og síðan dregið hana inn í heyhlöðu þar sem hey handa nautgripum var tekið. Árið 1901 greindi héraðslæknir á Eyrarbakka frá að bóndi í Selvogi hafi fengið drepbólu á enni eftir að hafa gert til sjálfdauðan hest. Háls og höfuð bóndans bólgnaði og hann lést. Einnig drapst annar hestur á bænum. Kona bóndans þvoði koddaver hans eftir að hann var látinn úr leysingavatni í dæld á túninu við bæinn. Um sama leyti var þar sótt vatn handa kú á öðrum bæ og snöggdrapst sú kú. Konan fékk drepbólu á eyra en læknaðist, maður á bænum fékk bólu á vör og dó. Árið 1897 veiktist maður á Fáskrúðsfirði af miltisbruna en hann hafði fengið drepbólu á handlegg eftir að hafa gert til hest sem lést af miltisbruna. Maðurinn komst til heilsu eftir tvo mánuði. Nokkur dýr drápust á bænum en miltisbruna hafði orðið vart á sama stað 23 árum áður og er talið að orsökina megi rekja til lélegs vatnsbóls. Sumarið 1871 drapst hross snögglega á Grímstunguheiði, háin var hirt og flutt að Guðrúnarstöðum í Vatnsdal en veturinn eftir drápust tvær kýr og fimm hross sem gengið höfðu í landi Guðrúnarstaða. Bóndinn á Marðarnúpi var fenginn til að reyna að lækna eitt hross en blóð úr hrossinu slettist á hann og fékk hann við það smit og dó eftir fáa daga. Á Seltjarnarnesi veiktust 15 hross af miltisbruna árið 1870 en hluti þeirra lifði. Árið 1871 drápust þrjár kýr á Ási við Hafnarfjörð og einn hestur á Ófriðarstöðum. Árið 1874 drápust fimm stórgripir að Hjálmsstöðum í Laugardal. Árið 1873 drápust sjö stórgripir í Hagavík í Grafningi. Árið 1873 dráust fimm stórgripir á Háafelli í Miðdölum. Það er getið um miltisbruna að Bæ í Miðdölum og Ólafsdal í Dalasýslu árið 1893 og 1894 og einnig sama ár á bæ í Steingrímsfirði í Strandasýslu. Í Ölfusi er getið um miltisbruna í Arnarbæli 1890 en þá drápust tíu stórgripir og einnig er getið um miltisbruna í Ölfusi árið 1897. Árið 1899 drápust sex hross úr miltisbruna árið 1899. Árið 1899 drápust nokkur hross úr miltisbruna á Völlum, Suður-Múlasýslu. Árið 1942 drapst kýr að Hraunsholti við Hafnarfjörð og voru miltisbrunasýklar greindir úr bólgnum hálseitlum. Önnur kýr sem var hafði verið á svipuðum slóðum drapst einnig. Talið er að í haga þar sem þessar kýr gengu hafi verið jarðrask og komið upp stórgripabein dýra sem drepist hafi úr miltisbruna og verið dysjuð þar. Á bænum Skáney (og Skáneyjarkoti) í Reykholtsdal varð miltisbruna vart hvað eftir annað í eina öld. Fyrst varð veikinnar vart í ágúst 1873 en þá drápust fimm gripir með stuttu millibili. Dýralæknir kom á staðinn, greindi miltisbruna og lét flytja eftirlifandi gripi annað og þvo upp úr karbólsýruvatni (1 lóð karbólsýra í tvo potta af vatni), sótthreinsa og flytja fjós og grafa kjöt og húðir. Árið 1877 drápust fleiri naugripir úr miltisbruna í Skáney og árið 1886 veiktist naut þar og drapst. Allt fram yfir aldamótin voru hross að drepast í Skáney og voru eitt sinn fimm hross lögð saman í dys. Mörgum áratugum seinna eða árið 1935 fannst ein kýr dauð á bás sínum í fjósinu á Skáney og þar sem heimilisfólk datt ekki strax miltisbruni í hug var kýrin gerð til á hlaðinu fyrir framan fjósdyrnar. Grunur vaknaði svo um miltisbruna og var gripið til sótthreinsunar og kýrin urðuð. Fleiri dýr drápust þar úr miltisbruna og einn maður veiktist en lifði. Árið 1952 veiktist kýr í Skáney og dó eftir tvo daga og ræktuðust miltisbrandsbakteríur úr sýni og var þá gripið til sótthreinsunar. Árið 1965 veiktist kýr á Þórustöðum í Ölfusi og stuttu drápust fleiri kýr. Allir gripir voru settir á penicillinmeðferð og gripið til bólusetninga. Þrír menn á bænum sem höfðu sinnt um sjúka gripi fengu drepbólur á handleggi og hendur en náðu sér að fullu eftir sýklalyfjameðferð. Tilgáta er um að smitið á Þórustöðum hafi komist í kýrnar þannig að um þetta leyti var þeim beitt á fóðurkál sem ræktað var í gömlu mógrafarstykki og fundust beinaleifar víða á þeirri spildu og gæti þar hafa verið urðuð dýr sem drápust úr miltisbruna og hafi beinaleifar komist upp á yfirborðið við jarðrask við ræktunina.[1]

Miltisbrandur í hernaði

[breyta | breyta frumkóða]

Það hafa verið gerðar miklar tilraunir með notkun miltisbrands í hernaðar- og hryðjuverka tilgangi en hann hefur þó ekki verið mikið notaður á því sviði. Þess eru þó dæmi þar sem gró miltisbrands voru send til Bandaríkjanna með almennum pósti, svo að fimm létu lífið og 17 aðrir sýktust.

  • „Hvað er miltisbrandur?“. Vísindavefurinn.
  • Miltisbrandur; grein í Morgunblaðinu 1935
  • Miltisbrandur eða miltisbruni. Er hætta enn til staðar hér í jörð? Geymt 5 mars 2016 í Wayback Machine

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Páll A. Pálsson, Miltisbruni (miltisbrandur) á Íslandi, Bók Davíðs, Háskólaútgáfan, Háskóli Íslands, Reykjavík 1996, bls. 546-558[óvirkur tengill]