Fara í innihald

Reykholtsdalur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Horft til Deildartunguhvers neðst í Reykholtsdal

Reykholtsdalur er einn af Borgarfjarðardölum og liggur hann á milli Flókadals og Hvítársíðu. Dalurinn er kenndur við Reykholt, fornt höfuðból og prestsetur í dalnum, en hét áður Reykjadalur nyrðri.[1] Í Reykholtsdal rennur Reykjadalsá, en hún sameinast Hvítá við dalsmynnin. Eins og nafnið gefur til kynna þá er mikið um jarðvarma í Reykholtsdal og er hann notaður til upphitunar húsa, sundlauga og til ylræktar. Deildartunguhver er helsti hver dalsins og er hann jafnframt vatnsmesti hver í Evrópu, en hann er rétt norðan við Reykjadalsá við mynni Reykholtsdals.[2]

Í Landnámabók er greint frá því að Önundur breiðskeggur Úlfarsson hafi numið Reykholtsdal og búið á Breiðabólstað, sem er rétt innan við Reykholt sjálft. Önundur kom út til Íslands með Skallagrími Kveldúlfssyni og þáði land úr landnámi hans.[3]

Eins og áður segir er Reykholt í Reykholtsdal en þar er rekin Snorrastofa sem er miðstöð rannsókna í miðaldafræðum. Snorralaug, ein elsta heita laug landsins, er einnig í Reykholti. Hún er kennd við höfðingjan og sagnaritarann Snorra Sturluson sem keypti staðinn af Magnúsi Pálssyni árið 1206 og hafði hann að höfuð-aðsetri sínu þar til hann var veginn þar árið 1241. Páll Sölvason, faðir Magnúsar, bjó áður í Reykholti, en hann átti í hatrömum deilum við Hvamm-Sturlu, föður Snorra, sem nefndust Deildartungumál og urðu til þess að Snorri ólst upp í Odda á Rangárvöllum. Þeir Magnús og Páll voru af ætt Geitlendinga sem hófu kirkjuhald í Reykholti og fluttu þangað höfuðból sitt, en Þórður prestur Sölvason (fæddur 1005-1015) er talinn hafa átt forræði að því.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Kristleifur Þorsteinsson (1972). Úr byggðum Borgarfjarðar II. Prentsmiðjan Leifur.
  2. „Deildartunguhver. Vatnsmesti hver í Evrópu“. Krauma. Sótt júlí 2024.
  3. „Landnámabók (Sturlubók)“. desember 1998. Sótt júlí 2024.
  4. Geir Waage. „Kirkjusaga – Snorrastofa“. Sótt júlí 2024.