Fara í innihald

Matthías Þórðarson (útgerðarmaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Matthías Þórðarson (f. 1. júlí 1872 á Móum á Kjalarnesi, d. í Kaupmannahöfn 13. ágúst 1959) var íslenskur útgerðarmaður, rithöfundur og ritstjóri. Hann var frumkvöðull í útgerð frá Suðurnesjum og gerði út báta frá Sandgerði.

Árið 1897 fluttist hann til Seyðisfjarðar ásamt konu sinni Sigríði Guðmundsdóttur. Þau eignuðust son, Ástþór árið 1899. Þar á Seyðisfirði tók Matthías þátt í stofnun útgerðafélagsins Garðafélagsins sem Norðmaðurinn J.M. Hansen leiddi. Félagið fór flatt á of mikilli eyðslu og varð gjaldþrota 1901.[1] Í ævisögu sinni er Matthías mjög gagnrýninn á viðskiptafélaga sína. Hann fluttist til Reykjavíkur eftir að Garðafélagið lagði upp laupana.

Þá vildi svo til að Lauritzen konsúll Danmerkur hafði stofnað Íslands-Færeyjafélagið og hafði nýlega látið smíða 20 báta til síldveiða í Norðursjó. Matthías hafði meðal annars unnið fyrir dönsku landhelgisgæsluna og fékk Lauritzen hann til þess að velja stað á Íslandi fyrir höfn fyrir skipin. Matthías valdi Sandgerði eftir nokkra athugun. Þar varð mikil uppbygging á hafnaraðstöðu, vörugeymsluhúsum, íbúðarhúsum, fisk- og salthúsum. Þangað komu 14 bátar til útgerðar frá Danmörku. Þessi tilraun tókst þó ekki alveg sem skyldi og Lauritzen seldi athafnamanninum Pétri Thorsteinssyni útgerðina. Pétur seldi svo aftur Matthíasi útgerðina. Árið 1913 seldi Matthías svo Lofti Loftssyni og Þórði Asmundssyni útgerð sína frá Sandgerði.

Matthías stofnaði tímaritið Ægi árið 1905 og var fyrsti ritstjóri þess. Ásamt fleirum stofnaði hann Fiskifélag Íslands árið 1911. Árið 1920 keypti Matthías land Keflavíkur og þau hús sem voru í eigu H.P. Duus. Árið 1930 gaf hann út bókina Síldarsaga Íslands. Hann gaf út ævisögu sína í tveimur bindum á árunum 1946-7.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  Þetta æviágrip sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.