Maríukirkjan í Rostock
Maríukirkjan er aðalkirkjan í þýsku borginni Rostock. Hún var reist á 13. og 14. öld á grunni eldri kirkju. Í heimstyrjöldinni síðari var Maríukirkjan eina kirkjan sem slapp við skemmdir og eyðingu. Byggingin er hins vegar orðin mjög gömul og lætur á sjá sökum vanrækslu.
Saga Maríukirkjunnar
[breyta | breyta frumkóða]1279 reis fyrirrennari Maríukirkjunnar á reitnum. Af þeirri kirkju er aðeins hluti af grunninum og turninum eftir. Hún gekk fljótt úr sér og var rifin þegar núverandi kirkja var reist. Smíðin hófst 1290 og þjónaði Maríukirkjan í Lübeck sem fyrirmynd að henni. Kirkjan er með langskip og stóru þverskipi. Þannig er kirkjan nærri jafn löng og hún er breið, þ.e. 76 metra löng og 73 metra breið yfir þverskipið. Kórinn er einnig óvenjulega stór. Árið 1419 var háskólinn í Rostock formlega stofnaður í hinni ókláruðu en nothæfu kirkju. 1440 var smíði turnsins lokið, en kirkjan sjálf var ekki fullsmíðuð fyrr en 1454 og var hún þá helguð Maríu mey. Við siðaskiptin snemma á 16. öld var kirkjunni breytt í lúterska kirkju og er hún það enn í dag. 40 ölturu voru í kirkjunni upphaflega, en við siðaskiptin voru þau fjarlægð. Aðeins tvö fengu að standa. 1796 fékk kirkjan núverandi spíru. Í viðgerðum 2005 komu í ljós nokkrar freskur frá 14. öld sem kalkað hafði verið yfir. Maríukirkjan var eina stóra kirkjan í borginni sem slapp við skemmdir af völdum loftárása heimstyrjaldarinnar síðari. Nokkrar fosfórsprengjur spungu í og við kirkjuna, en það tókst á síðustu stundu að ráða niðurlögum eldsins áður en hann breiddist út. Þar af leiðandi var Maríukirkjan einnig eina kirkjan sem var í nothæfu ástandi að stríði loknu. Aðrar kirkjur þurftu viðgerðar við og tók það langan tíma. Þar af leiðandi var viðhald Maríukirkjunnar lítil sem ekkert. Hún er því orðinn nokkuð löskuð og lætur vel á sjá á nokkrum stöðum. Auk notkunar sem sóknarkirkju sækja um 200 þús ferðamenn kirkjuna heim árlega.
Listaverk
[breyta | breyta frumkóða]Altaristaflan
[breyta | breyta frumkóða]Altaristaflan er glæsilegt listaverk á tveimur hæðum. Það var hannað af Christian Stoldt frá Berlín og smíðað á verkstæði þar í borg. Taflan er skreytt þremur málverkum, litlu neðst en stórum ofar. Aðalmálverkið sýnir upprisu Krists. Litla málverkið neðst sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Efsta málverkið sýnir þegar heilagur andi kemur yfir postulana. Allra efst er geislakóróna með hið alsjáanda auga Guðs. Mýmargar styttur eru festar á töfluna. Til sitthvorrar handar eru skriftarstólar.
Predikunarstóllinn
[breyta | breyta frumkóða]Predikunarstóllinn er óvenju langt frá altarinu og stendur nærri því í miðjum sal. Ástæðan fyrir því er hinn lélegi hljómburður kirkjunnar, þannig að nauðsynlegt þótti að hafa predikunarstólinn nálægt söfnuðinum. Stóllinn var smíðaður 1574 og er sagður vera eftir Rudolf Stockmann frá Antwerpen. Hann smíðaði einnig predikunarstóla fyrir aðrar kirkjur í borginni á 16. öld. Til að komast upp í stólinn verður að ganga upp lítinn hringstiga úr viði. Tröppurnar, stóllinn og hjálmurinn er hin mesta völundarsmíði og skreytt með styttum og súlum. Allar stytturnar sýna myndefni úr Biblíunni.
Skírnarfontur
[breyta | breyta frumkóða]Skírnarfontur kirkjunnar er úr bronsi og var gerður 1290 (samkvæmt innskrift). Hann er því eldri en kirkjan sjálf. Fonturinn er gríðarlega stór og er reyndar stærsti bronsfontur frá miðöldum á Eystrasaltsvæðínu. Einkennandi er að fonturinn sjálfur og lokið eru ólík að gerð og er talið að þetta tvennt hafið verið gert af tveimur mismunandi listamönnum. Skrautfígurur fontsins voru steyptar með, en fígúrur á lokinu voru settar á eftirá. Flestar sýna fígúrurnar atriði úr píslasögu Jesú. Allur fonturinn hvílir á litlum mannsfígúrum sem eiga að tákna fjórar höfuðskepnur náttúrunnar. Hann er alls 2,95 metrar á hæð. Stærðin er tilkomin sökum þess að í þessari kirkju tíðkaðist að dýfa skírnþeganum (barninu) að öllu leyti ofan í vatnið. Meðan heimstyrjöldin síðari geysaði var fonturinn grafinn í jörðu í smábænum Belitz. Hann var ekki settur á sinn stað aftur fyrr en 1951.
Stjörnuúr
[breyta | breyta frumkóða]Í kirkjunni er stjörnuúr sem er 11 metra hátt. Það var smíðað 1379, en umbreytt 1472. Þá var sett lítið klukknaspil í það, sem gengur á klukkutíma fresti. Fígúrur á hjóli ganga hins vegar aðeins tvisvar á dag. Úrið var uppgert 1641-43. Úrið sýnir ekki aðeins tímann, heldur einnig tunglgöngu, afstöðu tungls og sólar í dýrahringnum, sólaruppkomu, lengd dags og nætur og hátíðisdaga (páskar og jól). Meðan heimstyrjöldin síðari geysaði var úrið fært á öruggan stað og sett aftur á sinn stað 1951. 1974-77 var klukknaverkið uppgert, en það samanstendur af 2000 stykkjum.
Klukkur
[breyta | breyta frumkóða]Í kórnum standa tvær kirkjuklukkur á gólfinu og eru báðar með sprungu. Sú stærri vegur tæplega 4 tonn og var gerð um 1300. Sú minni vegur tæplega 3 tonn og var gerð 1409. Á síðari árum var reynt að sjóða brotin saman, en þau sprungu upp aftur við prufuhringingu. Þær eru því með öllu ónothæfar.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var „Marienkirche (Rostock)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt mars 2010.